Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 15:28:18 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra hefur nú slegist í hópinn í því skjallbandalagi sem ég stofnaði til við hæstv. ráðherra í umræðum um fyrra mál. Ég hafði satt að segja búist við því að hæstv. utanríkisráðherra mundi taka til máls þegar við ræddum um lax- og silungsveiði. En annaðhvort er hæstv. ráðherra orðinn svona sporlatur að hann hafði sig ekki í það að taka til máls fyrr en við þetta mál eða þá að þetta er til marks um það, sem ég hygg frekar að sé skýringin, að hans áhugasvið er jafnvel enn þá víðtækara en hv. þingheimi hafði verið ljóst fram að þessu. Mér er hins vegar kunnugt um að hæstv. ráðherra var áhugasamur um þetta mál líkt og ég.

Til þess að taka af öll tvímæli dettur mér ekki í hug að það frumvarp sem hér er verið að leggja fram fari á nokkurn hátt yfir varfærnismörk varðandi smitsjúkdóma. Ég var með almennar hugleiðingar í þessu sambandi. Það sem ég var frekar að velta fyrir mér var einfaldlega sú staðreynd að á sínum tíma hófu svínabændur þetta mál með hugmyndum eða tillögum um að gengið yrði enn þá lengra, að heimilað yrði að flytja inn ófrosið svínasæði til þess einmitt ná því sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. aukinni framleiðni og að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Ég var einfaldlega að velta því fyrir mér hvort það yrði þá eitthvað frekar en það sem hér er verið að tala um.

Það er alveg rétt, þetta eru þeir sérfræðingar sem við völdum á sínum tíma til þessa starfa og gerðum það vegna þess að við höfum á þeim fullt traust, að sjálfsögðu. En það er hlutskipti nefndar eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fara yfir aðskiljanlega hluti, við verðum að hafa skoðun á mjög mörgum hlutum, hvort sem það er innflutningur á svínasæði eða furður íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Munum við þá auðvitað leita okkur sérfræðilegrar ráðgjafar og heyra sjónarmið m.a. svínabænda. Ég tel að nefndin muni gera það mjög vel undir ágætri verkstjórn hv. þm. Atla Gíslasonar.