Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 15:30:11 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel rétt að upplýsa skjallbandalag landbúnaðarins sem er í þessum sal að núverandi utanríkisráðherra er afkvæmi gullmedalíuhafa í kynbótafræðum á sviði hænsnaræktar. Ég er sem sagt á milli tektar og tvítugs alinn upp í hænsnahúsi, ef svo má segja, og ég hef auðvitað séð það á eigin skinni og kannski á það part í því að ég komst að lokum til manns fyrir atbeina foreldra minna að kynbætur á því sviði og innflutningur á erfðaefni með þeim hætti sem hér er lagður til olli gerbyltingu á sviði hænsnaræktar. Hann hefur algerlega gerbylt afkomu þeirrar greinar landbúnaðarins. En svo þarf hv. þingmaður ekki að undrast það að ég komi og hafi skoðanir á þessu því að ég held að við höfum átt óformleg orðaskipti um þetta áður.

Við erum alla daga að tala um efnahag og hagvöxt og stundum kalla menn það nú hin döpru vísindi. Ég nam hins vegar, eins og hv. þingmaður, veit á sínum tíma æxlunarfræði. Það kalla menn hin glöðu vísindi þannig að það er vel við hæfi að ég komi og blandi mér í þetta því að þetta er auðvitað æxlunartengt.