Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 15:35:47 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt ekki að mín lítilfjörlega ræða hér áðan mundi vekja upp svona stórpólitísk mál í umræðunni eins og mér heyrist að sé að gerast hérna. Það er skaði að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera til andsvara en hann getur auðvitað kvatt sér hljóðs t.d. með því að fara á mælendaskrá. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra láti það eftir sér þó að hann sé farin að standast ýmsar freistingar, eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag.

Að öðru leyti vil ég segja að ég tek undir og ítreka að þetta mál, sem lætur kannski ekki mjög mikið yfir sér við fyrstu sýn, er þýðingarmikið. Það er mikið hagsmunamál fyrir svínaræktendur að vel takist til í þessu og ég held þess vegna að við eigum að kosta kapps um að vinna þetta hratt og örugglega þannig að hægt sé að fara að nýta þær heimildir sem á að opna á þótt mér sé ljóst að ekki er gengið eins langt og svínabændur lögðu til á sínum tíma. Nú veit ég ekki hvert er sjónarmið svínaræktenda á þessu stigi, í dag, hvort þeir telja að hér sé nægilega langt gengið. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að hann hafi átt einhver samtöl við svínaræktendur áður en frumvarpið var lagt fram og væri gott að heyra upplýsingar frá hæstv. ráðherra um það hver séu viðbrögð svínaræktenda við þessu frumvarpi. Það er skref í þá átt sem svínaræktendur lögðu til en það er alls ekki jafnlangt gengið og þeir lögðu til á sínum tíma við þingnefndina, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Hér er um að ræða heilmikið mál sem hefur verið vel undirbúið, eins og margoft hefur komið fram.