Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 15:39:32 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að koma upp og skemma stemninguna hjá hæstv. ráðherrum og fyrrverandi hæstv. ráðherrum sem hér hafa verið í ágætis samtali, að hluta til um efni frumvarpsins. Ég ætla jafnframt að taka undir það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson sagði um greinargerðirnar með þessum frumvörpum. Þær eru ítarlegar, skemmtilegar og fróðlegar. Eins og fram kom hefst greinargerðin á því að svín hafi verið haldin hér allt frá landnámstíð, eins og við þekkjum á fjölmörgum örnefnum víðs vegar um land.

Hér eru, eins og jafnframt hefur komið fram, gríðarlegar hagsmunir í húfi, ekki síst svínabænda en auðvitað líka neytenda, um það hvernig til tekst. Hér er um það „grundvallarprinsipp“ að ræða hvort við getum sleppt því að fara í gegnum sóttvarnastöð og farið að flytja svínasæði til kynbóta beint inn á bú. Um það hefur verið fjallað í þó nokkur ár og ég held að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd munum þurfa að fjalla um og taka til skoðunar álit dýralæknaráðs, eins þeirrar sérfræðinganefndar sem fjallaði þar um og auðvitað álit og skoðun svínabænda. Mig langar aðeins að vitna í greinargerðina, frú forseti:

Sérfræðinganefndin taldi að ekki sé ásættanleg áhætta að heimila innflutning á fersku svínasæði frá einangrunarstöð í Noregi beint til kynbóta á býlum hér á landi.

Ég tek undir það að þá væri fullóvarlega farið.

Það eru tvær tillögur sem nefndar eru í greinargerðinni og væri svo sem gaman að heyra það frá ráðherranum, ef ekki hæstv. ráðherra þá í nefndinni, annars vegar um áhættumat á þessum tveimur tillögum og eins kostnaðarmat á þeim tveimur, hver munurinn er. Eins væri áhugavert að fjalla um hvort það sé í raun og veru túlkað þannig að með því að tilgreina Norsvin í Noregi sem aðilann sem menn ætla að kaupa erfðaefnið frá, sé í raun og veru verið að lögbinda það sem eina aðilann í greininni. Ég veit til þess að það hefur verið skoðað ákaflega vel og ekki er hægt að sækja erfðaefni hvert sem er. Við vitum líka, og það kom reyndar aðeins fram í ræðu hv. þm. Einars Guðfinnssonar, um nauðsyn þess fyrir svínabændur að fá inn nýtt erfðaefni. Það er nokkuð flókin aðferðafræði og krefst þess að það séu verulega mörg dýr á bak við erfðaframfarir. Og það sem meira er, það þarf að rækta upp sérstaka hreina stofna af mismunandi kynjum og blanda þeim síðan saman til að fá nægilega góðar afurðir að magni til en ekki síður að gæðum, eins hvað varðar heilbrigðisástand. Ég tel að það sé mjög mikilvægt verkefni, sem hlýtur að vera sameiginlegt verkefni svínabænda og þá líka yfirvalda, að viðhalda þeirri sérstöðu sem íslensk matvæli hafa hvað varðar hreinleika, heilbrigði og hollustu og að þessi aðgerð rýri á engan hátt þá möguleika sem þar eru.

Þetta eru til þess að gera mjög einföld mál til umfjöllunar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tek undir það að við getum án efa lokið störfum fljótlega þar og fjallað um þetta. Það eru ekki það margir aðilar í raun sem hafa beina hagsmuni af þessu þó að hugsanlega leynist einhverjir sem hafa eitthvað við þetta að athuga og við þyrftum að heyra í.

Ég ítreka í lokaorðum mínum að það væri gaman að fá annars vegar fram áhættumat og hins vegar kostnaðarmat á þessum tveimur tillögum sem tilgreindar eru í greinargerðinni þar sem önnur þeirra virðist hafa verið valin sem tillaga í frumvarp þetta.