Íslandsstofa

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 16:05:46 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn sýnist mér þessi Íslandsstofa vera ný stofa en dálítið í gömlum búningi. Sú sem hér stendur vann sem viðskiptafulltrúi hjá Útflutningsráði Íslands í New York á sínum tíma, þangað til að viðskiptaskrifstofurnar voru færðar inn í utanríkisráðuneytið þannig að mér finnst þetta vera eins og harmóníka sem opnast og lokast, en það er nú önnur saga.

Ég tek undir markmiðin með þessu. Mér finnast þetta góð markmið. Það er nauðsynlegt að stilla saman strengi og nýta fjárheimildir betur. Sem leiðir til spurningar minnar: Í kostnaðarmatinu á bls. 7, í næstsíðustu setningu, segir, með leyfi forseta:

„Þá liggur ekki fyrir áætlun um hvaða fjárheimildir muni nákvæmlega falla undir þau verkefni sem munu vera á ábyrgð Íslandsstofu og er því ekki hægt að segja til um hver umsvif Íslandsstofu verða.“

Í síðustu setningunni segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem að einungis er um að ræða breytta notkun og tilfærslur á fjárheimildum.“

Ég vil biðja hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) um að skýra þetta aðeins vegna þess að ef maður veit ekki hvað maður er að fara út í, hvernig er hægt að segja að ekki verði (Forseti hringir.) um nein aukafjárútlát að ræða?