Stjórnlagaþing

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 17:41:44 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Í dag er dagur lýðræðisins á Alþingi. Það er gott. Ég fagna þessu máli innilega, máli hæstv. forsætisráðherra og máli ríkisstjórnarinnar. Þetta er eitt af þeim málum sem löngu er orðið tímabært og vissulega ánægjuefni að vera þingmaður og fá að taka þátt í þessum umræðum. Það er mjög margt ágætt í frumvarpinu, mjög margt. Hins vegar er ýmislegt í því sem ég hef áhyggjur af, og við í Hreyfingunni, og vildum garnan gera athugasemdir við. Við kjósum að líta ekki svo á að um beina gagnrýni á frumvarpið sé að ræða, heldur kjósum við að vekja athygli á atriðum sem við teljum að betur megi fara.

Stjórnlagaþing snýst um endurskoðun stjórnarskrár og stjórnskipunar og að sú endurskoðun verði eins óumdeild og unnt er. Þannig þarf stjórnlagaþing að vera fyrir almenning, það þarf að vera um almenning og það þarf að vera haldið af almenningi. Val á stjórnlagaþing er þar af leiðandi einn mikilvægasti hluti þess og það er það atriði sem brýnt er að laga að okkar mati. Við höfum ekki lagt fram formlegar tillögur í þessa átt, heldur viðrað þær óformlega meðal þingmanna. Við viðruðum þær einnig í starfshópi sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins þegar frumvarpið var í smíðum. Þær hlutu ekki framgang þar en meginatriðið sem við höfum áhyggjur af og viljum gera athugasemdir við er kjör fulltrúa á stjórnlagaþingið.

Eins og fram kemur í frumvarpinu á að kjósa 25–31 fulltrúa á stjórnlagaþing. Með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu teljum við að það geti einfaldlega mjög auðveldlega klúðrast og orðið að einhvers konar leikhúsi fáránleikans, þar sem t.d. fyrrverandi stjórnmálamenn, auðmenn með peningalegt bakland, poppstjörnur eða einhverjar fígúrur í almannavitund eða íþróttahreyfingunni, muni etja kappi og eyða fjármunum í að ná kjöri á slík þing og reyna að koma persónulegum skoðunum sínum á framfæri þar. Sum nöfnin sem geta komið upp í hugann vekja upp stórar spurningar í því efni. Þess vegna höfum við áhyggjur af þessu. Að auki þarf 30–50 meðmælendur og 60–100 votta þar ofan á. Það þýðir t.d. að Jón Jónsson af götunni á ekki séns í svona slag. Það finnst okkur einnig áhyggjuefni.

Hér er einnig um að ræða nokkurs konar formgert mini-Alþingi, hvers niðurstaða verður svo háð flokkspólitískum meiri hluta þess Alþingis er kemur til með að sitja í febrúar árið 2011, sem ekki þarf endilega að vera sá sami og nú er. Nú eru starfshættir Alþingis þrautreyndir og að mínu mati og í mörgum tilvikum mjög skilvirkir. Þetta er þrautreynt skipulag og á ef til vill vel við um skipulag slíks stjórnlagaþings. Við teljum engu að síður að Alþingi sjálft eigi ekki að fjalla um niðurstöður þessa stjórnlagaþings, heldur eigi það að fara beint í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hreyfingin hefur sent frá sér tilkynningu og þar kemur megininntak athugasemda okkar um frumvarpið fram en við óskum þess að fram fari endurskoðun á stjórnarskránni og sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning. Hreyfingin berst fyrir almannahag og lýðræðissamfélagi og það er megintilgangur hennar hér á þingi. Hún hafnar því sem við teljum vera forræði og jafnvel forréttindi núverandi stjórnmálaflokka. Það er augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafa að mörgu leyti glatað tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu. Við teljum að endurskoðun stjórnarskrárinnar og endurreisn lýðræðis á Íslandi sé eitt brýnasta mál samtímans ef við eigum að teljast áfram til vestrænna lýðræðisríkja.

Við teljum því að frumvarp um stjórnlagaþing, sem hefur verið lagt fram af forsætisráðherra, sé ekki nægilega ígrundað og að mörgu leyti sniðið að hagsmunum núverandi stjórnmálaflokka, með það í huga að viðhalda óbreyttu ástandi. Til þess að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar er grundvallaratriði að sú vinna fari fram á stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka. Til þess að það takist teljum við nauðsynlegt að með einhverjum hætti verði valið á stjórnlagaþing úr röðum almennings, t.d. með hefðbundnu 600 manna úrtaki úr þjóðskrá, frá Capacent eða öðrum sambærilegum aðila. Það mætti svo smækka það úrtak eins og þörf er með vísindalegum aðferðum. Til vara yrðu þá valdir eins margir og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis. Það er æskilegt að seta á slíku stjórnlagaþingi verði fullt starf. Við teljum líka að stjórnlagaþingið ætti að vera skipulagt og verkinu stýrt af hópi fimm sérfræðinga með sérfræðiþekkingu í stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum, og að æskilegt væri að minnst tveir úr hópnum væru jafnframt erlendir sérfræðingar.

Við teljum brýnt að stjórnlagaþingið endurskoði allar greinar stjórnarskrárinnar og hafi til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd, en þar hefur verið unnin mjög mikil vinna, og taki jafnframt við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum. Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal einnig finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Við teljum að unnt sé að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar með þessum hætti á innan við fjórum til sex mánuðum og hún ætti þá að vera send til umsagnar hjá innlendum sem erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar á Íslandi og vera svo borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í Fréttablaðinu í dag birtist athyglisverð grein eftir Njörð P. Njarðvík, sem lengi hefur staðið framarlega í þessari umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í niðurlagi greinarinnar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn ætlast til þess að fá að ráða sjálfir sínum eigin reglum, hvert skuli vera valdsvið þeirra og valdatakmörkun. Þeir ætla með öðrum orðum að vera yfirmenn sjálfs sín. Svona einfalt er að snúa lýðræðinu á hvolf. Þessu verður þjóðin að mótmæla kröftuglega. Stjórnlagaþingið á að starfa í umboði þjóðarinnar, ekki stjórnmálamanna. Því á ekki að segja fyrir verkum. Niðurstöður stjórnlagaþings, nýja stjórnarskrá, á að bera undir þjóðina sjálfa í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin á að ráða sér sjálf, ekki láta stjórnmálamenn skammta sér takmörkuð afskipti af grundvelli íslenskra stjórnarhátta.“

Þó ég hafi kannski haft hér uppi eitthvað sem má túlka sem gagnrýni á frumvarp þetta eða vissa þætti þess þá er frumvarpið í raun hið besta mál. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá fagna ég því og ég óska Alþingi til hamingju með að vera að fást við þetta mál því að endurskoðun stjórnarskrárinnar er brýn.

Ég fagna þessu máli svo sannarlega og vona að samkomulag náist í þinginu um viðeigandi breytingar á því, að það fái hér framgang og að menn falli ekki í þann pytt að tala um að málið sé ótímabært eða það sé of dýrt. Þetta er tímabært. Það mun kosta peninga og það verður einfaldlega að hafa það.

Hvað varðar annað áhugavert mál sem ég tel rétt að nefna í þessu samhengi er að á laugardaginn er verið að halda svokallaðan þjóðfund í Laugardalshöllinni. Þar er skipulag á vinnu sem hugsanlega gæti verið hægt að nota við skipulagningu á stjórnlagaþingi almennings, sem ég tel að gæti að mörgu leyti verið jafnvel betri en lagt er upp með í frumvarpinu. Ég tel fullbratt að ætla sér að afgreiða lög um stjórnlagaþing fyrir sveitarstjórnarkosningar og afgreiða þau með þeim hraði sem þarf til þess og jafnframt að láta fara fram kosningar fulltrúa á stjórnlagaþingið samhliða sveitarstjórnarkosningum. Það verður ankannalegt að hafa lista með sveitarstjórnarmönnum og lista með mönnum sem kjósa að komast á stjórnlagaþingið samhliða í kosningum.

Eins og ég sagði áðan er þetta almennt séð hið besta mál. Ég fagna því svo sannarlega að Alþingi skuli vera að fjalla um þessi mál þessa dagana.