Stjórnlagaþing

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 17:55:25 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:55]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessum ummælum þingmannsins. Ég skildi svar hans á þann veg að sú leið sem Hreyfingin er að leggja til sé kannski ekki endilega sú besta, heldur sé niðurstaða samráðs við fjölmarga aðila. Ég held hins vegar að sú leið sem hv. þingmaður talar fyrir sé ekki góð. Ég held að það væri miklu nær, frú forseti, að reyna að útfæra framboðsleiðina með þeim hætti að það yrði þá haldið utan um kostnaðinn, að kostnaður færi ekki úr böndunum, og settar einhverjar þær reglur að tryggt væri að allir sætu við sama borð þegar kæmi að kynningu o.s.frv. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt.

Mér finnst það líka skipta máli að margir einstaklingar úti í samfélaginu gætu haft áhuga á að starfa á stjórnlagaþingi. Þessir einstaklingar vilja kannski gjarnan bjóða sig fram en geta ekki hugsað sér það í núverandi fyrirkomulagi. Með réttri reglusetningu og ramma er afar mikilvægt að kalla eftir fólki í framboð til stjórnlagaþings.