Stjórnlagaþing

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 18:33:52 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við lítum á þetta með ólíkum hætti, við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel fulla ástæðu til að endurskoða marga þætti í stjórnarskránni og hef tekið þátt í vinnu sem hefur miðað að því marki. Reyndar verður að geta þess að því nefndarstarfi sem átti sér stað á árunum 2005–2007 undir forustu Jóns Kristjánssonar, þáverandi hv. þingmanns og hæstv. ráðherra, miðaði allvel og allgóð sátt var um marga þætti. Á þeim grunni má auðvitað byggja ef menn halda áfram vinnu við stjórnarskrána.

Síðan er það spurning um hugtakanotkun. Stjórnarskrármál og stjórnskipunarmál eru stjórnmál. Yrðu þeir sem kjörnir yrðu til að sinna verkefnum á því sviði ekki stjórnmálamenn? Ég velti því fyrir mér. Hverjir verða það sem gefa kost á sér á stjórnlagaþing? Eru það ekki áhugamenn um þessi málefni sem eru þá með sínum hætti stjórnmálamenn á því sviði? Ég held að við verðum að átta okkur á því að þetta verður auðvitað vettvangur fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á þessum málaflokkum sem eru í eðli sínu stjórnmál þótt þau þurfi ekki endilega að vera flokkastjórnmál með sama hætti og við upplifum kannski í daglegum störfum okkar á þingi. En allt um það, það frumvarp sem hér er komið fram felur í sér mjög óvenjulega leið til að takast á við breytingar á stjórnarskrá, óvenjulega og nánast fordæmalausa leið ef við horfum til landanna í kringum okkur. Þess vegna er ég sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um að þetta mál þarf að fá ítarlega skoðun en ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að sú skoðun megi bíða (Forseti hringir.) um hríð.