Handtaka og afhending manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða

Föstudaginn 13. nóvember 2009, kl. 13:46:43 (0)


138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

handtaka og afhending manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða.

171. mál
[13:46]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða.

Frumvarpið er samið á vegum dómsmálaráðuneytisins. Í frumvarpinu er að finna ný ákvæði um framsal sakamanna vegna málsmeðferðar og til fullnustu refsingar á milli norrænu ríkjanna, sem ætlað er að leysa af hólmi lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar nr. 7/1962. Ákvæði frumvarpsins byggja á samningi um afhendingu manna vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna, svokallaðri norrænni handtökuskipun, en samningurinn var undirritaður þann 15. desember 2005. Samningurinn byggir á ákvörðun Evrópusambandsins um evrópska handtökuskipun frá 13. júní 2002 og tekur mið af þeim reglum sem þar eru settar fram en Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa verið aðilar að evrópsku handtökuskipuninni frá árinu 2002.

Í nokkrum grundvallaratriðum er það fyrirkomulag sem lagt er til í norræna samningnum ólíkt því sem nú gildir.

Í fyrsta lagi er krafan um tvöfalt refsinæmi aflögð sem þýðir að ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun getur ekki neitað afhendingu á þeim forsendum að verknaðurinn sem tilgreindur er í beiðninni sé ekki refsiverður í viðkomandi ríki.

Í öðru lagi er ekki gerður greinarmunur á því hvort afhenda á eigin ríkisborgara eða erlenda.

Í þriðja lagi er ekki gert ráð fyrir að synjað sé um afhendingu vegna stjórnmálabrota.

Í fjórða lagi er ekki gerð krafa um að verknaðurinn varði tilgreindri lágmarksrefsingu.

Í frumvarpinu er lagt til einfaldara og skilvirkara fyrirkomulag um afhendingu sakamanna á milli norrænu ríkjanna sem byggist á gagnkvæmri viðurkenningu á ákvörðunum dómsmálayfirvalda viðkomandi ríkja. Hugtakinu „framsal“ í gildandi lögum er skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á kerfisbreytinguna.

Afhendingarfyrirkomulagið er í fjórum grundvallaratriðum frábrugðið framsalsfyrirkomulaginu:

Í fyrsta lagi kemur norræn handtökuskipun í stað venjubundinnar framsalsbeiðni.

Í öðru lagi ber ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun að handtaka og afhenda eftirlýstan mann í því ríki sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður.

Í þriðja lagi er dómsmálaráðuneytunum ekki blandað í málsmeðferðina. Í samningnum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld sem tilnefnd eru skuli gefa út handtökuskipun, taka á móti og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Mál vegna afhendingar manns á grundvelli handtökuskipunar skal því aðeins lagt fyrir dómstól að eftirlýstur maður samþykki ekki afhendingu.

Í fjórða lagi gilda stuttir frestir fyrir málsmeðferð og afhendingu á manni sem er eftirlýstur í norrænni handtökuskipun.

Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ríkissaksóknari verði það stjórnvald sem sé bært til að taka á móti norrænni handtökuskipun.

Í 5. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir þeim ástæðum sem skylda það ríki sem tekur við norrænni handtökuskipun að synja um afhendingu á manni. Skal m.a. synja um afhendingu ef veitt hefur verið sakaruppgjöf hér á landi vegna sama verknaðar, ef viðkomandi getur ekki sökum aldurs borið refsiábyrgð hér á landi vegna verknaðarins eða hinn eftirlýsti hefur verið dæmdur fyrir sama verknað hér á landi með endanlegum dómi og refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana.

Þá er í 6. gr. frumvarpsins gerð grein fyrir ástæðum sem heimila ríki sem tekur við norrænni handtökuskipun að synja um afhendingu á manni. Heimilt er, svo dæmi sé nefnt, að synja um afhendingu ef rannsókn vegna sama verknaðar er í gangi hér á landi og hún beinist að hinum eftirlýsta eða handtökuskipunin varðar fullnustu refsivistar samkvæmt dómi og sá sem er eftirlýstur er búsettur eða dvelst á Íslandi eða er íslenskur ríkisborgari og íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að fullnusta refsingu dómsins eða ákvörðun um frjálsræðissviptingu samkvæmt honum.

Þá er í 7. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að heimilt verði að setja það skilyrði fyrir afhendingu vegna málsmeðferðar þegar eftirlýstur maður er búsettur hér á landi eða íslenskur ríkisborgari að hann verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu.

Í 4. kafla norræna samningsins eru ákvæði um sérstakar reglur um afhendingu til og frá Íslandi. Þar eru ákvæði um að þrengja megi gildissvið samningsins þegar um er að ræða afhendingu milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar að því leyti að synja megi um afhendingu nema eftirlýstur maður hafi síðastliðin tvö ár fyrir framningu refsiverðs verknaðar verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út eða verknaðurinn eða sambærilegur verknaður varði þyngri refsingu en fjögurra ára fangelsi. Þá megi synja um afhendingu á íslenskum ríkisborgurum vegna stjórnmálabrota og ríkisborgurum annarra ríkja vegna stjórnmálaafbrota nema verknaðurinn eða sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann. Ákvæði frumvarpsins gera ekki ráð fyrir að heimilt verði að synja um afhendingu á eftirlýstum manni þó að þessar aðstæður séu til staðar.

Við gerð norræna samningsins var lögð áhersla á það af Íslands hálfu að ákvæðin um synjun um afhendingu íslenskra ríkisborgara og skilyrðið um gagnkvæmt refsinæmi við afhendingu væru í samningnum þannig að framkvæmdin væri óbreytt frá gildandi lögum. Slík framkvæmd er hins vegar ólík þeirri sem hin Norðurlöndin viðhafa og einnig ólík þeirri framkvæmd sem lögð er til í hinni Evrópsku handtökuskipan. Þá munu Norðurlöndin ekki synja um afhendingu á eigin ríkisborgurum til Íslands. Ekki verður séð að sérstök ástæða sé fyrir Ísland til að vera með sérreglu varðandi afhendingu á eigin ríkisborgurum þegar um er að ræða afhendingu til annarra Norðurlanda. Er því eins og fyrr er getið lagt til í þessu frumvarpi að ekki verði synjað um framsal á íslenskum ríkisborgurum. Þannig gildi sömu reglur um afhendingu manna á öllum Norðurlöndunum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað helstu atriði frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.