Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Föstudaginn 13. nóvember 2009, kl. 14:13:46 (0)


138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[14:13]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur fyrir ítarlega og góða framsögu sem ég hef fáu við að bæta, ef nokkru. Ég vil líka þakka forsætisnefndinni fyrir að taka þetta þingmannamál upp jafnskjótt og raun ber vitni, það er til mikillar fyrirmyndar. Eins og hér hefur komið fram hefur þetta mál margsinnis verið flutt áður að frumkvæði ýmissa kvenna á þingi og karla. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna nafn Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem var 1. flutningsmaður þessa máls en hún er nú horfin af þingi, ég nefni hana hérna sérstaklega og þakka henni fyrir og frumkvæði hennar í kvenfrelsismálum almennt. Á vorþingi var sammælst um að málið yrði endurflutt og þá var til þess enginn betur fallinn að mínu mati en hv. flutningsmaður þessa máls, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Það hefur líka komið í ljós að málið er í mjög góðum höndum þar.

Ég hef fullyrt það eða sagt það og segi það aftur, að það er staðreynd að nektarstaðir um allan heim eru gróðrarstía mansals, vændis, kláms. Það er líka staðreynd að að baki þeim standa langoftast alþjóðlegir glæpahringir. Málið er því afar brýnt og það hefur sýnt sig á nýlegu lögreglumáli hér að hér er um staðreynd að ræða. Um það verður ekki villst.

Að lokum þetta, ég mun sem nefndarmaður í allsherjarnefnd, varaformaður allsherjarnefndar, beita mér fyrir því að málið verði tekið fyrir hratt og örugglega og faglega. Það hefur eins og hér hefur komið fram verið unnið áður, það liggja öll gögn fyrir og því ætti að vera unnt að afgreiða þetta mál jafnvel fyrir jól ef vilji er fyrir hendi.