Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 15:37:50 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur hér fram, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er tímabært frumvarp sem felur að mínu viti í sér þarfar umbætur á fiskveiðistjórnarkerfinu og lagfærir ýmsa ágalla þess. Hér er þó ekki um að ræða neina umbyltingu. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru allt lagfæringar, hófsamar en um leið ákveðnar og stefnumótandi lagfæringar. Þær munu ekki raska afkomu útgerðanna, þær eru þvert á móti til þess fallnar að bæta hag þeirra og afkomu um leið og þær munu leiða til aukins fiskafla og þar með færa björg í þjóðarbúið á erfiðum tímum.

Eina mikilvæga nýbreytni er þó að finna í þessu frumvarpi sem ég kem auga á og ég fagna sérstaklega. Það er bráðabirgðaákvæði sem lýtur að viðbótaraflaheimildum í skötusel gegn gjaldi í ríkissjóð fyrir úthlutun aflamarks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta þýðir á mannamáli að til viðbótar við þann 2.500 tonna kvóta sem þegar hefur verið úthlutað í skötusel er ráðherra heimilt að leigja útgerðunum 2.000 tonn aukalega í stað þess að deila magninu niður endurgjaldslaust. Þarna gefst að mínu viti kærkomið tækifæri til þess að prófa nýtt fyrirkomulag við úthlutun aflaheimilda án þess að of mikið sé lagt undir í einu.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna hér aðeins í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er sérstakur kafli um fiskveiðar og þar segir:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.“

Mér sýnist að þessi markmiðssetning rími vel við það frumvarp sem hér er lagt fram og þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem felast í frumvarpinu. Það er t.d. fagnaðarefni að með þessu frumvarpi skuli línuívilnun aukin úr 15% í 20% til þeirra sem afla á línu sem beitt hefur verið í landi. Við þá ívilnun bætist nú við nýr flokkur, þ.e. 15% ívilnun vegna afla á línu sem stokkuð er upp í landi. Það munar umtalsverðu fyrir þá sem gera út línubáta, en línuveiðar eru með vistvænustu veiðum sem eru stundaðar á Íslandsmiðum og þar af leiðandi má gjarnan gera þeim veiðum hærra undir höfði en verið hefur.

Ákvæði frumvarpsins um vinnuskyldu tiltekins hluta uppsjávarafla miðar augljóslega að því að efla fiskvinnslu, bæta við virðisauka sjávarafurða hér í landi og bæta atvinnustigið við sjávarsíðuna. Er það vel. Þá sýnist mér vera til bóta að veiðiskyldan skuli vera aukin og miðað við að 50% af aflamarki skips sé nýtt með veiðum þess á hverju fiskveiðiári, í stað þess að láta duga að það sé gert annað hvert ár eins og er í núgildandi lögum.

Þá eru líka settar skorður við kvótaflutningi af einu skipi á annað og báðar þessar breytingar eru til þess fallnar að minnka brask en stuðla að því að aflaheimildir séu nýttar til veiða. Það er til bóta.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að dregið verði úr heimild til að flytja aflamark á milli fiskveiðiára, úr 33% í 15%. Það er þörf breyting. Í því sambandi má rifja það upp að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, jók þessa yfirfærsluheimild úr 20% í 33% um síðustu áramót. Sú ráðstöfun sætti fljótlega gagnrýni, enda var hún talin ýta undir brask með kvóta og tilfærslu milli tegunda. Reynsla þessa árs hefur sýnt að ekki var þörf fyrir svo ríflega yfirfærsluheimild og hafa ýmsir haldið því fram að nær hefði verið að þrengja hana en víkka. Nú hefur það verið gert. Ástæða er til að vona að þessi breyting nú, þ.e. að takmarka yfirfærsluna við 15%, muni þjóna verndunarmarkmiðum fiskveiðistjórnarlaganna og ekki veitir af.

Frú forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þeim atriðum í þessu frumvarpi sem mér finnst varða mestu til úrbóta. En mörg og stór mál bíða óleyst enn í íslenskum sjávarútvegi. Brottkast á fiski er allt of mikið á Íslandsmiðum og hráefnisnýting þess afla sem kemur upp úr sjó um borð í frystitogara, er lítil. Ég nefni sem dæmi að af þeim 88.000 þorsktonnum sem veidd voru af frystitogurum árið 2007 fóru um 52.000 tonn forgörðum. Árið 2008 drógu íslenskir frystitogarar 85.00 tonn úr sjó, 49.000 tonn fóru forgörðum. Þetta hljóta allir að sjá að er sóun á verðmætum.

Heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu stendur nú yfir og er að henni unnið m.a. í starfshópi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra skipaði skömmu eftir kosningar. Það mál er í ákveðnum og vonandi öruggum farvegi. Á meðan sá starfshópur er að störfum tel ég mikilvægt að tíminn verði notaður til þess að afla gagna og upplýsinga um íslenska þorskstofninn svo menn fái betur glöggvað sig á þeim möguleikum sem fiskimiðin gefa. Það væri verðugt verkefni fyrir sjávarútvegsráðuneytið að efna til umfangsmikilla rannsókna á lífsskilyrðum þorsksins í hafinu umhverfis Ísland.

Ég hef í því sambandi sett fram hugmynd að frjálsum vísindaveiðum í samstarfi við alþjóðlegar vísindastofnanir með það fyrir augum að tiltekinn hluti íslenskra fiskiskipa fái, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og undir vísindalegri stjórn, að fara til vísindaveiða. Í hugmyndinni felst að jafnhliða veiðunum verði skilyrðin í hafinu könnuð á þeim svæðum þar sem fiskurinn veiðist, hitastig sjávar og beitarþol sjávarhaganna verði rannsakað og þannig verði aflað upplýsinga á borð við þær sem gáfust í Barentshafsrannsókn rússnesku hafrannsóknastofnunarinnar í Múrmansk árið 2006. Sú rannsókn leiddi í ljós að þorskstofninn í Barentshafi mældist 70% stærri en áður var talið, tvær og hálf milljónir tonna í stað einnar og hálfrar milljónar. Þessar niðurstöður fengust með því að nýta fiskiskipin á svæðinu og afla sem gleggstra gagna með því að fylgjast með fiskiskipunum, mæla aflann og yfirborðshita sjávar og fleiri gögn sem komu upp úr sjó við veiðarnar.

Ég vil minna á að í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega talað um þörfina á því að nýta krafta sjómanna og útgerðarmanna í hafrannsóknum til að efla gagnasöfnun og rannsóknaverkefni sem þeir gætu verið þátttakendur í. Þetta ákvæði stjórnarsáttmálans er að mínu viti afar mikilvægt og vísindaveiðar á borð við þær sem hér um ræðir falla einkar vel að þessu markmiði. Það væri tilraunarinnar virði fyrir okkur Íslendinga að yfirfæra rannsókn rússnesku fiskifræðinganna á íslensk fiskimið, þar mundu reynsluvísindin vinna með akademískum vísindum. Hér er mikið í húfi því að fiskimiðin eru okkar verðmætasta auðlind. Og aldrei hefur verið brýnna að ná fram hagkvæmri nýtingu fiskstofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu, sem er markmið fiskveiðistjórnarlaga.