Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 15:51:32 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru miklar orðalengingar og málalengingar, mér liggur við að segja orðhengilsháttur. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson túlkar orð mín þannig að ég fagni því að dregið sé úr leigukvóta. Það er bara ekki réttur skilningur á því sem ég sagði. Ég tel hins vegar mjög brýnt að dregið verði úr braski í kvótakerfinu, það er mín skoðun.

Þetta með leigukvótann og það leiguliðakerfi sem innbyggt er í sjálft kvótakerfið, það er m.a. óréttlætið í kvótakerfinu. Það gerir það að verkum að ein stétt manna sem heyrir til útgerðarmanna, er algjörlega ofurseld annarri stétt útgerðarmanna, sem eru kvótahafarnir. Og það er náttúrlega óréttlætið sem kemur í veg fyrir nýliðun í greininni. Hins vegar hef ég ekkert á móti því og tel það mjög góða breytingu sem felst í frumvarpinu, að hluti úthlutaðs kvóta í skötusel sé tekinn út (Forseti hringir.) fyrir sviga og honum úthlutað með öðrum hætti en verið hefur. Sú leiga sem þar er talað um fer að sjálfsögðu í auðlindasjóð (Forseti hringir.) og rennur í ríkissjóð en ekki í hendur einstakra útgerðarmanna.