Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 16:24:13 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af síðustu orðum hv. þingmanns, hvað varðar brask, þá er það þannig í kerfinu í dag að menn geta leigt til sín og frá sér veiðiheimildir. Menn mega heldur ekki gleyma því að sá sveigjanleiki í kerfinu hefur komið mörgum útgerðum á koppinn. Þær hafa getað keypt sér varanlegar heimildir í ákveðnum þrepum og síðan getað leigt sér meira til að geta búið sér til grunn.

Mig langar aðeins að halda áfram með vísindaveiðarnar af því að þær eru mér hugstæðar. Í sambandi við upplýsingarnar sem liggja fyrir þá átti ég við það að þær liggja fyrir hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það eru mjög mörg sjávarútvegsfyrirtæki sem láta dagmerkja og svæðismerkja hvert einasta kar sem veitt er um borð í fiskiskipin og það er til í upplýsingabanka hjá viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki. Þar kemur t.d. fram hve þorskurinn er þungur, hvað hann er langur og hvernig nýtingin út úr honum var. Það eru því til miklar upplýsingar sem væri til hagsbóta fyrir okkur að nýta inn í þetta.

Þar sem ég sé að hv. þingmaður ætlar að koma aftur í andsvar við mig langar mig að spyrja — af því að ég er að leggja lokahönd á þingsályktunartillögu, um að stofnuð verði svokölluð aflaráðgjöf sjómanna, sem gefur þá ráðgjöf til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á hverju ári, sem hann hefur til viðmiðunar og getur stuðst við, eins og t.d. tillögu Hafrannsóknastofnunar — hvort hún mundi þá ekki styðja þá tillögu mína að ráðherra fengi það álit frá þeim sem væru starfandi í greininni sem mundu þá hugsanlega geta gefið komment á vísindaveiðarnar þannig að menn fái meiri upplýsingar um það sem er að gerast úti á miðunum.