Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 16:26:20 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heilshugar undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það eru til góð og mikil gögn sem mér finnst full ástæða til að vinna með og skoða og bera saman við t.d. þau gögn sem til eru hjá LÍÚ, að þau séu borin saman við þau gögn sem fyrirfinnast hjá Hafrannsóknastofnun, og ég gæti trúað að það væri þegar gert í einhverjum mæli. En ef farið yrði út í vísindaveiðar með þeim hætti sem ég legg til, þ.e.a.s. að gerð yrði alþjóðleg rannsókn utanaðkomandi aðila, alþjóðlegra vísindamanna, með þátttöku Hafrannsóknastofnunar og útvegsmanna, mundi með slíkri rannsókn fást mjög verðugur samanburður við einmitt þau gögn sem þingmaðurinn nefndi, afladagbækur skipstjóra og ýmis rannsóknargögn sem eru hjá Hafrannsóknastofnun.

Ég hef alltaf verið veik fyrir hugmyndinni um aflaráðgjöf sjómanna vegna þess að ég held að þeir sem eru á miðunum — og vísindaveiðahugmynd er kannski líka svolítið sprottin upp af þeirri hugsun að sameina reynsluvísindin og akademísku vísindin. Þessar tvær greinar þurfa í mun ríkari mæli á mun fleiri sviðum að tala saman og ekki síst í sjávarrannsóknum. Aflaráðgjöf sjómanna er því fyrirbæri sem mér hugnast vel. En það er hins vegar með það eins og allt annað að veldur hver á heldur og það er ekki alveg sama hvernig að slíku er staðið. Það þarf að hugsa það vel frá upphafi til enda og hugsa það vel hvaða markmið á að nást fram með aflaráðgjöf sjómanna þannig að hún nýtist sem best.