Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 16:45:41 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ákveðin atriði sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vék að í ræðu sinni sem ég vildi koma inn á. Það er í fyrsta lagi að hann spurðist fyrir um strandveiðarnar og hvert væri hugsanlegt framhald þeirra. Ég get bara sagt að þær voru á síðasta fiskveiðiári settar í gang á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum og síðan var gert ráð fyrir að gerð yrði sérstök úttekt á því hvernig til hefði tekist og þá undirbúið að fram kæmi á ný lagafrumvarp sem kvæði á um áframhaldandi strandveiðar.

Strandveiðasetrinu á Ísafirði var falið að hafa forgöngu um þessa úttekt og ég á von á því að alveg á næstu dögum eða vikum komi sú úttekt og ábendingar um þau atriði sem betur hefðu mátt fara í sambandi við framkvæmd strandveiðanna á síðasta sumri. Heilt yfir tekið verð ég að segja að þær hafi gengið mjög vel. Ég minni á og er afar þakklátur fyrir að ég fékk mjög gott bréf frá miklum fjölda fólks á Langanesi, frá Langanesbyggð, þar sem einmitt var látin í ljós mikil ánægja með það að farið hafi verið út í þessar strandveiðar og hvernig þær hefðu komið þar fyrir.

Hitt er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað vildum við helst að þessi fiskur væri unninn sem mest en engu að síður var mjög mikil ánægja með þetta og ánægjulegt að fá þennan langa undirskriftalista.

Ég vil líka benda á samþykktir frá Félagi smábátaeigenda í Skagafirði og á Siglufirði og á því svæði þar sem lýst er mikilli ánægju með þetta og svona mætti víðar fara hringinn í kringum landið. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að við munum halda áfram með strandveiðarnar (Forseti hringir.) og þá líka sníða af þeim þá agnúa sem menn telja að hafi verið þar á (Forseti hringir.) og bæta góðum punktum við.