Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 17:12:46 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar verkefni þeirrar nefndar sem hér er til umræðu, þá er það svo að hún á einmitt að taka á þeim grundvallarsjónarmiðum sem liggja að baki aflamarkskerfinu, eignarréttarumræðunni, og það er þó sú ákvörðun sem liggur fyrir í því frumvarpi sem hér er til umræðu, hún snýr akkúrat að þessum grundvallarþætti. Hún snýr akkúrat að þeirri spurningu hvernig eigi að fara með t.d. þegar er möguleiki á að auka aflaheimildir í ákveðinni tegund. Á að fara með það samkvæmt því kerfi sem við höfum búið hér við á undanförnum áratugum eða á að fara einhverja allt aðra leið? Þessi allt önnur leið er sú leið sem ráðherrann hæstv. vill fara í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það er lykilatriði. Þetta snýr að grundvallarhugsuninni undir sjávarútvegskerfinu öllu saman og að sjálfsögðu hefði það þá átt að fara inn í þessa nefnd, því sérstaklega er kveðið á um að sérstakt verk þessarar nefndar sé að fjalla um það og ná fram góðri sátt um sjávarútvegsmálin á grundvelli þess. Þess vegna er hryggilegt að í þessu frumvarpi skuli vera farið fram með þessa niðurstöðu.

Síðan hvað varðar Frjálslynda flokkinn, þá er það alveg rétt að það kom fyrir að frumvörp voru flutt saman af þessum aðilum. Ég ætla að hlífa sjálfum mér og öðrum að fara yfir skoðun mína á mörgum af þeim frumvörpum. En þannig var að Frjálslyndi flokkurinn, sem hafði nú helst einmitt sjávarútvegsmál sem sín aðalstefnumál og lagði þau fram fyrir þjóðina í síðustu kosningum, fékk ekki mikið fylgi. Ekki var mikill hljómgrunnur fyrir þeim skoðunum og þeirri stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn hafði fram að færa í sínu aðalstefnumáli, sem voru sjávarútvegsmál. Það liggur fyrir bara í úrslitum alþingiskosninganna. Það er vont að það skuli þá hafa farið þannig að þeirra skoðanir hafi farið bakdyramegin í gegnum þetta og komið fram með þessum hætti, sem ég tel að sé ekki til heilla fyrir land og þjóð, og þegar menn horfa til lengri tíma fyrir sjávarútveginn ekki sú leið sem við eigum að fara, ekki sú leið sem ráðherrann var að fara upp hér varðandi skötuselinn og í ýmsum öðrum málum sem þetta frumvarp fjallar um.