Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 17:41:02 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er undarlegt að heyra í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið frá þeim sem kalla eftir breytingum á því, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerir, að umræðan sé alltaf einangruð við þennan sama stabba sem við getum kallað „sægreifa“ og eru (ÓÞ: Það eru þín orð.) settir í líki LÍÚ. (Gripið fram í.)

Ég ræði fiskveiðistjórnarkerfið og hef kappkostað að gera það með hagsmuni allra þeirra sem eru undir í því að leiðarljósi að breyta þessu svokallaða fiskveiðistjórnarkerfi. Miklu fleiri einstaklingar og fjölskyldur eiga sitt undir því að ekki sé ráðist að þessu kerfi og það sett í mikla óvissu en að við getum einskorðað það við örfáa útgerðarmenn, sama hvort þeir eru í smærri útgerðum eða stærri. Fiskverkunarfólk og sjómenn eiga mikla og gríðarlega hagsmuni bundna í því að hafa öryggi um sitt starf. Ég nefni það til vitnis að í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, er sennilega hvað mestur fjöldi fólks sem vinnur innan þessarar greinar á landinu. Ég skal standa vörð um hagsmuni þess hvar sem ég get.

Ég neita því, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, við erum álíka gömul, hv. gamla skólasystir — ég neita því að ég sé dreginn í tiltekinn flokk og sé málsvari hans við umræðu um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ósanngjarnt að halda slíku fram. Ég hef hagsmuni allra minna umbjóðenda undir í því efni. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um það atriði sem ég nefndi varðandi bráðabirgðaákvæði IV í þessu frumvarpi, að það sé óhagkvæmt og óeðlilegt að takmarka starfsskilyrði (Forseti hringir.) tiltekins hluta í þessu kerfi með þeim hætti að breyta starfsskilyrðum þess inni á miðju (Forseti hringir.) fiskveiðiári?