Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 17:50:14 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er mikill bjartsýnismaður. Ég hef lesið þetta ágætlega og viðurkenni að þetta er eina atriðið sem ég nefndi áðan í fyrra andsvari mínu sem ég get tekið undir. En mér þykir með ólíkindum að hlusta á hæstv. ráðherra hér. Hann hlýtur að búa yfir einhverjum allt öðrum upplýsingum en velflestir landsmenn varðandi skötuselinn, hvað hann þolir, hvar hann liggur, í hvaða magni hann er o.s.frv. Það eina sem liggur fyrir í þessu er að tillaga hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því að farið sé 80% fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu til ráðherrans um að hann rökstyðji þessa tillögu sína með þeim hætti að hann styðjist við þær grunnrannsóknir sem hann hefur undir höndum um stofnstærð skötuselsins og útbreiðslusvæði hans. Það er hins vegar umhugsunarefni að á þeim tímum sem nú eru uppi og við erum að vinna í virðist líftími á þeim yfirlýsingum sem hæstv. ríkisstjórn er að gefa í hverju málinu á fætur öðru ekki vera lengri en tvær vikur, fjórtán dagar, og þá er alltaf breytt um kúrs. Þetta stóra mál, fiskveiðistjórnarkerfið, er ekki eldra í yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn, virðulegi forseti, en tveggja vikna frá því að gefin voru fyrirheit og heitstrengingar gefnar og settar fram um að ekki yrði hróflað við þessum grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar fyrr en nefndin lyki störfum. Þannig væri líka hægt að tiltaka fleiri mál. Þau eru að vísu að koma inn í þingið annað slagið en þetta virðist vera unnið með þeim hætti að það stendur ekki steinn yfir steini í yfirlýsingum sem gefnar eru um fyrirheit hvernig eigi að vinna með atvinnugreinum landsins. Því miður er þetta svona og þetta frumvarp er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það, af sama meiði. Þess vegna, enn og aftur hef ég skorað á hæstv. ráðherra að leggja þetta mál til (Forseti hringir.) hliðar og koma því inn í þann eðlilega farveg sem markaður var í sumar.