Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 18:13:51 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki eykst nú hagkvæmnin í greininni við það að ríkið þurfi að taka til sín aflaheimildir eins og er að gerast í skötusel þar sem útgerðirnar eru skildar eftir með skuldirnar, þær skuldir sem þær lögðu í til þess að fylgja leikreglum og keyptu sér kvóta. Nú á að skilja þær eftir en ríkið ætlar að úthluta nýtingarréttinum sem í raun tilheyrir þeim.

Það er alveg rétt að við sjálfstæðismenn höfum kallað eftir því, og það kemur fram í efnahagstillögum okkar, að með því að auka aflahlutdeild í ákveðnum nytjastofnum megi efla íslenskt atvinnulíf og það sé réttlætanlegt að gera það við þær erfiðu aðstæður sem eru í okkar samfélagi. Það liggur alveg fyrir að það mundi verða mikil vítamínsprauta ef menn ykju aflann eins og fram hefur komið hjá okkur í þessum helstu nytjastofnum. Það er enginn að tala um 80% þar. Við erum að tala um að sú ákvörðun sé byggð á vísindalegum forsendum. Vísindalegar forsendur liggja fyrir því frá vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar og öðrum að með því að fara þá leið og gera það af ákveðinni hógværð erum við aðeins að seinka uppgangi og uppvexti okkar helstu nytjastofna. Við teljum eðlilegt að gera það við þessar aðstæður.

Við teljum það líka algert grundvallaratriði að þær smáu og stóru útgerðir sem hafa fjárfest í aflaheimildum á undanförnum árum og hafa tekið á sig miklar skerðingar, m.a. margar smábátaútgerðir í kjördæmi hv. þingmanns sem keyptu, einmitt árið sem skerðingin kom, mikinn kvóta og dreifðu á milli sín á Vestfjörðum, fái að njóta aukningarinnar. Væntanlega vill hv. þingmaður ekki að þessar útgerðir fái núna aukninguna til baka, heldur taki ríkið hana og leigi út með öðrum hætti. Það finnst henni væntanlega vera sú leið sem á að fara, skilja þetta fólk eftir með skuldirnar, það fólk sem er kannski skuldsettast og þarf á öllu sínu að halda til þess að geta rekið sína útgerð og staðið undir skuldbindingum sínum. (Forseti hringir.) Það vill hún hirða af fólkinu og skilja það eftir úti í feninu.

(ÓÞ: Ég vil fá að bera af mér sakir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti tekur ekki undir þá beiðni.)