Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 18:26:21 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, að þeir sem leigja til sín aflaheimildir og veiða þær séu hluti af einhverju braski, alls ekki, þannig að … (EKG: Ég var ekki að segja það. Það er útúrsnúningur.) Það er eins gott að það sé þá skýrt. Hins vegar geta aðrir þættir í kerfinu vafalaust fallið undir það sem hv. þingmaður kallar brask.

Hv. þingmaður vék að vinnsluskyldunni og það er alveg hárrétt. Það hefur verið mikil hvatning til þess að hægt sé að beita vinnsluskyldu og kvöðum. Við höfum átt ágætisviðræður við útgerðarmenn um þá þætti. Allir eru sammála um að það sé beinlínis áréttuð sú stefna að við ætlum að auka fullvinnslu á fiski og þeim afurðum sem veiddar eru úr sjónum.

Varðandi það að geyma heimildir á milli ára og að ráðherra hafi heimild til að grípa þar inn í, yrði sú heimild altæk varðandi viðkomandi fisktegund. Það stendur í lagafrumvarpinu, ef ég man rétt, að þá sé leitað ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar um þörfina fyrir því. Ég held að þegar á allt er litið séu þessar breytingar mjög til góða og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hljóti að fagna ákvæðinu um línuívilnunina, að hún sé þá nýtt að því marki sem ráð var fyrir gert og hv. þingmaður, sem var þá ráðherra, beitti sér fyrir að hún væri sett. Þarna eru mörg atriði sem gera núverandi kerfi fyrst og fremst virkara og sanngjarnara, frú forseti.