Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 12:26:06 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það að hér sé skautað létt yfir held ég að það sé mjög rangt hjá hv. þingmanni, einfaldlega vegna þess að það er ítarleg greinargerð með frumvarpinu, það er búið að fjalla um þetta mál í fleiri vikur og skila löngum textum og skýrslum og allt liggur þetta inni á netinu. Það er engin ástæða til að endurtaka það í nefndaráliti við lok meðferðar málsins.

Varðandi stjórnarskrárvafann var það mál rætt á lögfræðingafundinum þar sem spurt var hvort einhver lögfræðilegur vafi gæti leikið á gagnvart stjórnarskránni, bæði varðandi það sem nefnt var í morgun um það hvort þarna væri um að ræða opna heimild, en ekki var síður verið að tala um önnur atriði, hvort málsmeðferðin hefði verið í anda stjórnarskrárinnar. Það kom ekkert fram í þeirri umræðu — Sigurður Líndal var raunar ekki kallaður til — sem benti til þess að um væri að ræða stjórnarskrárbrot. Í öðru lagi er erfitt að fjalla um það í fjárlaganefnd hvort um er að ræða stjórnarskrárbrot eða ekki því að eingöngu dómstólar geta skorið úr um það ef á reynir. (Forseti hringir.)