Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 12:28:31 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var rætt, sérstaklega seinni liðurinn varðandi það hvort það væri framsal til erlendra dómstóla. Það er tekið á því í nefndarálitinu með því að segja að það sé ekkert sem — (Gripið fram í: Ekki í lögskýringu.) Nei, það er rétt, það er ekki farið í gegnum það í löngu máli. Þar kom fram að sá aðili sem mætti og fjallaði um það taldi ekki sérstaka ástæðu til að vefengja það. Það er farið með málið með sama hætti og öll önnur íslensk mál og það er tekið á þessu með EFTA-dómstólinn. Ég er ekki lögfræðingur, það getur verið að hv. þingmaður geti farið ítarlegar í þetta og gerir það þá væntanlega í ræðu síðar, en málið var líka skoðað af þeim lögfræðingum sem bjuggu um það, þ.e. sáu um frágang á frumvarpinu inn í þingið, og enginn þeirra taldi rök fyrir þessu. (Gripið fram í.) Það lá því fyrir að ekki væri verið að fara á móti stjórnarskránni að neinu leyti í þessu að áliti þeirra sem um það fjölluðu og þess vegna komum við með þetta nefndarálit hér.