Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 12:34:05 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum byrjað þessa umræðu upp á nýtt og farið að ræða hvað eitt ríki þolir mikið af skuldum og hverjar skuldirnar mega vera. (Gripið fram í.) Ég hef fullan skilning og áhuga á því, tók þátt í því fleiri kvöld, nætur og daga í sumar og það hefur ekkert breyst. Við fáum núna álit frá sömu aðilum, sömu niðurstöður, við fáum efnahags- og skattanefndarálitin, menn hafa efasemdir og áhyggjur en maður getur líka spurt sig: Hvernig stóð á því að meðan íslenska þjóðin skuldaði 14–18 þús. milljarða var hún ekki gjaldþrota en í hæsta flokki varðandi lánshæfismat fyrir aðeins rúmu ári? Það segir kannski heilmikið um við hvaða fræði við erum að fást. Það hefur ekkert komið fram sem snýr að meiri hlutanum sem kallar á að við förum í ræðustól, eða fjárlaganefndin sem slík og lýsi íslensku þjóðina gjaldþrota. Það verður Framsóknarflokkurinn að gera ef hann vill.