Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 12:42:47 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að lesa upp úr ræðu minni við 1. umr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ég óska eftir því og krefst þess að fá fundargerðir, ég krefst þess að fá minnisblaðið sem skrifað var í flugvélinni. Ég krefst þess að fá fundargerðir hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og samninganefndarinnar sem fór og átti að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga, en, eins og segir hér, „fór og kynnti með óformlegum hætti í samtölum og fundum vilja Alþingis“.“

Ég óttast nefnilega að ef þetta er lýsingin á því hvernig þessir fyrirvarar voru kynntir hafi vilji Alþingis ekki verið kynntur. Það var strax farið að afsaka að Alþingi Íslendinga hefði sett fyrirvara við þennan ömurlega samning sem skrifað var undir 5. júní. Það er athyglisvert að í þessu minnisblaði sem er skrifað af Indriða H. Þorlákssyni — reyndar merkt „Trúnaðarmál, ekki til birtingar“, en ég geri ráð fyrir að þar sem það er orðið partur af gögnum málsins megi ég lesa það upp — er lýsing á samskiptum þessum og ég mun fjalla um það meira í ræðu minni. (Forseti hringir.) Svo er aðalmálið hvernig svarað yrði til um fundinn ef eftir upplýsingum um hann yrði leitað. (Forseti hringir.) Ég óskaði formlega eftir þessu og ég vil fá að vita: Voru þetta virkilega óformlegir fundir (Forseti hringir.) þar sem ekki voru haldnar fundargerðir? Ég trúi því bara ekki. Þess vegna vil ég fá þessi samskipti eins og ég óskaði eftir (Forseti hringir.) úr þessum sama ræðustól.

(Forseti (ÞBack): Bið hv. þingmenn um að virða tímamörk.)