Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 14:43:07 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Mig minnir endilega að ég hafi hlustað á ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í sumar þar sem hann talaði um alvarleikann tengdan því að áætlað væri að erlendar skuldir þjóðarbúsins væru komnar upp í 240% af landsframleiðslu. Síðar í þessari áðurnefndu skýrslu AGS reyndust þær vera í kringum 315% en í fyrri gögnum frá AGS töluðu þeir um að þeir teldu að 160% væri orðið ósjálfbært fyrir Ísland. Með þessum 40% í viðbót ef neyðarlögunum yrði hnekkt erum við að tala um að við værum þá orðin fremst í flokki varðandi skuldastöðu ríkisins eða hins opinbera.

Ég verð að segja að ég hef töluverðar áhyggjur af þessu, reyndar mjög miklar, vegna þess að það virðist vera, og það kemur fram í þeim nefndarálitum sem ég hef lesið, að það er eins og ekkert hafi verið fjallað um þetta. Í einu minnihlutaálitinu frá efnahags- og skattanefnd er tafla þar sem farið er í gegnum forgangskröfur, áætlaðar forgangskröfur og áætlaðar almennar kröfur í þrotabúið. Síðan kom frétt fyrir einum eða tveimur dögum síðan um að heildarkröfur í þrotabú Landsbankans væru upp á 6.500 milljarða. Þetta er því töluvert hærri upphæð en við tölum um hér. Í heildina, ef neyðarlögin standast ekki, erum við kannski að tala um 20–30% heimtur úr þrotabúinu. Þá held ég að það standi alveg fyllilega sem hv. þingmaður sagði, að við værum þá að tala um óendanlega ríkisábyrgð, að íslensk börn og ókomnar kynslóðir muni greiða út í hið óendanlega þessar skuldir og nánast aldrei komast í að borga niður höfuðstólinn (Forseti hringir.) af því þau verði svo önnum kafin við að borga vextina og berjast við að afla gjaldeyris til þess að geta staðið bara undir vaxtagreiðslunum.