Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 14:46:27 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og einbeitni í þessu stóra og snúna máli og hefur það verið og er vonandi flestum þingmönnum til eftirbreytni. Mig langar aðeins til að vita — af því ég veit að hann þekkir vel til Seðlabankans og starfsemi hans og til efnahagsmála — hvort hann geti skýrt fyrir okkur þennan mun á því skuldahlutfalli sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að við þolum núna miðað við það sem hann taldi áður að við þyldum. Af hverju þolum við núna 310% þegar búið var að gefa út að við þyldum ekki 240%? Þetta er mjög sérstakt og er að finna í áliti 2. minni hluta, áliti hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar. Ég hefði nú spurt þau hér og mun kannski spyrja þau út í þetta í ræðum þeirra. Þetta er mjög athyglisvert því ef það er þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur leikið sér að teygja og toga tölur eins og hentar hverju sinni er það enn ein vísbendingin og enn ein staðfestingin á því að sú ágæta stofnun þarf að öllum líkindum að endurskoða vinnubrögð sín og er jafnvel spurning hvort þeir séu starfi sínu vaxnir, þeir sem vinna fyrir Íslands hönd. En það væri ágætt að fá álit hv. þingmanns á þessu því ég veit að hann hefur velt þessu fyrir sér og þekkir þetta ágætlega.