Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 14:53:30 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka öllum nefndarmönnum fjárlaganefndar fyrir samstarfið. Við höfum nú fundað í næstum fimm mánuði og tíminn sem við höfum eytt saman hefur að mörgu leyti verið ágætur jafnvel þó að hart hafi verið deilt um þá niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir hér og nú.

Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta sem fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. Það er í frekar löngu máli en ég vísa jafnframt til þess álits sem ég lagði fram með lögum nr. 96/2009, sem samþykkt voru í lok ágústmánaðar og við erum einmitt að breyta hér.

Icesave-samningarnir eru og verða óaðgengilegir fyrir Ísland, það dylst engum. Fullvíst er að þeir endurspegla hin fjölmörgu mistök sem stjórnvöld hafa gert bæði í aðdraganda bankahrunsins og í kjölfar þess. Eru þar fáir undanskildir. Veiting ríkisábyrgðarinnar með lögum nr. 96/2009 var ein stærsta ákvörðun sem Alþingi Íslendinga hefur tekið. Sú ákvörðun sem Alþingi stendur nú frammi fyrir mun binda þjóðarbúið a.m.k. næstu tvo áratugina og hafa mikil áhrif á þau lífskjör sem þegnum landsins bjóðast á þeim tíma. Sú staðreynd hefur ekki breyst.

Að nú sé verið að breyta lögum sem Alþingi Íslendinga setti fyrir tæpum þremur mánuðum, eða í lok ágústmánaðar, staðfestir niðurlægingu lagasetningarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Um leið endurspeglar ákvörðunin kjarkleysið sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt gagnvart viðsemjendum okkar, Bretum og Hollendingum, frá upphafi málsins og má segja að sú staðreynd hafi endurspeglast hér í fyrirspurnatíma fyrr í dag.

Sú barátta sem 2. minni hluti háði í þessu mikla hagsmunamáli gerði það að verkum að niðurstaðan sem náðist með fyrirvörunum í lögunum frá því í ágúst var langtum betri en sú niðurstaða sem í stefndi í upphafi málsins. Þó svo að lengra hefði þurft að ganga til að halda uppi góðum lífskjörum hér á landi verður því miður að viðurkennast að þær breytingar sem nú á að gera eru ekki svipur hjá sjón og afar haldlitlar þegar á þær mun reyna.

Annar minni hluti gagnrýnir einnig þá slælegu málsmeðferð sem einkennt hefur málið í meðförum fjárlaganefndar. Nýjasta dæmið, og ég reifa önnur dæmi í fyrra áliti mínu, er þegar óskað var eftir áliti frá efnahags- og skattanefnd um efnahagslega þætti málsins. Fjögur minnihlutaálit bárust fjárlaganefnd en ekki meirihlutaálit. Var nefndin því þverklofin í afstöðu sinni. Meiri hluti fjárlaganefndar sá samt ekki ástæðu til þess að fara efnislega yfir þær niðurstöður sem bárust, hvað þá að ræða málið efnislega innan fjárlaganefndar. Má því segja að málalyktir hafi verið eins og upphafið, meiri hluti fjárlaganefndar var reiðubúinn að samþykkja ríkisábyrgðina með bundið fyrir augun.

Hinn 28. ágúst sl. voru samþykkt lög frá Alþingi. Þau hlutu númerið nr. 96/2009 og fólu í sér að íslenska ríkið gekkst í ábyrgð fyrir skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins að vissum skilyrðum uppfylltum og með ákveðnum fyrirvörum.

Í lokaorðum álits þess sem hér stendur, 2. minni hluta, með lögunum kom fram að vandamálið sem Íslendingar takast á við er geysilega alvarlegt og má segja að fá dæmi finnist í hagsögu 20. aldar sem jafnast á við þá erfiðleika sem Íslendingar takast á við í augnablikinu. Saman hafa farið hrun fjármálakerfisins, fall gjaldmiðilsins, lækkun eignaverðs og slæm fjárhagsstaða fyrirtækja og einstaklinga. Afleiðingin er atvinnuleysi, harkalegur samdráttur framleiðslu og skert lífskjör. Við þetta má bæta að núverandi ríkisstjórn hefur á engan hátt náð að snúa þessari neikvæðu þróun við. Nú stendur þjóðin frammi fyrir miklum niðurskurði í velferðarmálum auk þess sem atvinnulíf landsins býr við mikla óvissu um afkomu sína út af fyrirliggjandi skattahækkunum á fólk og fyrirtæki. Ofan á þetta bætist að gengisvísitalan hefur ekki lagast, þjóðin býr enn við ströng gjaldeyrishöft og skuldsetning þjóðarbúsins er veruleg.

Annar minni hluti fellst á þau orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vandamál Íslendinga séu fyrst og fremst gríðarleg skuldsetning en aðrar þjóðir, t.d. Lettar, sem glíma nú við samsvarandi efnahagsþrengingar, búa við það vandamál að hafa ekki sjálfstæðan gjaldmiðil eins og Íslendingar. Og við erum að ræða það hér í dag að auka á þessa skuldsetningu.

Af öllu þessu má sjá að sú fjárhagslega ábyrgð og þær greiðslur sem ríkið tekur á sig auk fyrirliggjandi skuldbindinga munu hafa úrslitaáhrif á framleiðslugetu og lífskjör í landinu. Þess vegna skiptir takmörkun ríkisábyrgðar vegna áhættu og óvissu Icesave-samninganna svo miklu máli. Eftir því sem uppgjör á búi Landsbanka Íslands dregst þeim mun hærri vaxtagjöldum mun Icesave-skuldbindingin safna og þau verður að greiða með erlendum gjaldmiðlum sem eru af skornum skammti.

Hinir nýju og útþynntu fyrirvarar sem ríkisstjórnin leggur til að nú verði samþykktir uppfylla á engan hátt þessi skilyrði. Ljóst er að Bretar og Hollendingar hafa náð að útvatna þá fyrirvara sem mestu máli skiptu þannig að þeir eru nú nánast marklausir. Þær fullyrðingar sem komið hafa fram um að samningarnir séu sambærilegir ef ekki betri en þeir fyrirvarar sem gerðir voru, standast engan veginn nánari skoðun. Ef sú væri raunin lægi það einnig fyrir að Bretar og Hollendingar hefðu meiri áhuga á að gæta íslenskra hagsmuna en ríkisstjórn Íslands.

Ég beindi þessari spurningu að hv. formanni fjárlaganefndar í gær og hann sagðist vera reiðubúinn að svara mér efnislega í umræðunni í dag. Ég vænti þess að hann muni gera það í ræðu á eftir vegna þess að á þetta var ekki minnst í þeirri ræðu sem hann flutti hér í upphafi umræðunnar. Það er ábyrgðarhluti okkar alþingismanna að við viðurkennum stöðuna, við viðurkennum að það dró verulega úr þeim fyrirvörum sem settir voru hér á Alþingi í lok ágúst. Almenningur á ekki að heyra það aftur og aftur að um jafnvel betri niðurstöðu sé að ræða.

Með fyrirvörum Alþingis frá 28. ágúst sl. var sett það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem settir eru við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Þetta segir orðrétt í lögunum. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að ef þeir mundu ekki samþykkja fyrirvarana ætti málið að nýju að koma til kasta Alþingis. Á það sjónarmið getur 2. minni hluti ekki fallist, enda ber orðavalið það með sér að fallist Bretar og Hollendingar ekki á lýðræðislega niðurstöðu Alþingis, falli ríkisábyrgðin niður. Í mínum huga er það augljóst að það var ekki heimild frá Alþingi til að endursemja um þá fyrirvara sem Alþingi hafði samþykkt með lögum. Lögin áttu ekki að leiða til þess að Alþingi þyrfti að breyta sinni eigin ákvörðun nú tæplega þrem mánuðum síðar. Ef Bretar og Hollendingar höfðu athugasemdir við fyrirvarana, sem var lokaákvörðun Alþingis Íslendinga, bar orðalagið það skýrt og greinilega með sér að þá félli ríkisábyrgðin niður. Þannig var ákvörðun Alþingis og hana bar að virða.

Á fundi fjárlaganefndar 18. október 2009 fór fram kynning fjármálaráðherra á stöðunni í Icesave-málinu. Þar voru kynntir óformlega þeir fyrirvarar sem Bretar og Hollendingar gerðu athugasemdir við. Kom fram að helstu athugasemdir fjölluðu um hinn svokallaða Ragnars H. Halls-fyrirvara sem snýst um hvernig útgreiðslum úr þrotabúi Landsbankans hf. skuli háttað. Einnig voru gerðar athugasemdir af viðsemjendum okkar við að ábyrgðin mundi falla niður árið 2024. Aðrar athugasemdir voru minni háttar.

Hinn 30. september 2009, daginn fyrir setningu nýs þings, sagði Ögmundur Jónasson af sér ráðherraembætti. Í máli hans kom fram að það hefði hann talið nauðsynlegt til að ríkisstjórnin gæti talað einum rómi, eins og krafa hafði verið uppi um. Hann hafði þvert á móti trú á því að Alþingi mundi komast að niðurstöðu sem er góð fyrir Ísland þegar það tæki þverpólitískt á málunum. Það var einmitt það sem gerðist ekki þegar Alþingi var gert að samþykkja breytingar á sínum eigin fyrirvörum í samræmi við það sem ríkisstjórnin og embættismenn hennar höfðu ákveðið.

Eftir afsögn Ögmundar fór fram mikil umræða um hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri að knýja íslensku þjóðina til að borga Icesave-reikningana. Kom fram að sjóðurinn mundi ekki afgreiða lán til Íslendinga án þess að ábyrgðin lægi fyrir. Einnig var því haldið fram að lán frá Norðurlöndunum væru háð fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þar með ríkisábyrgðinni á Icesave-samningunum.

Það vekur athygli 2. minni hluta að eftir að frumvarpið kom fram gáfu fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá yfirlýsingu að lánafyrirgreiðsla sjóðsins væri alls ekki háð því að Íslendingar veittu umrædda ríkisábyrgð. Vísuðu fulltrúarnir til Norðurlandanna og fullyrtu að þau hefðu sett umrædd skilyrði. Norðmenn hafa opinberlega neitað þeirri fullyrðingu og sagt hana ranga. Svíar hafa á hinn bóginn stigið fram og sagt að lánin hafi verið tengd lausn á Icesave-deilunni.

Nú vil ég beina eftirfarandi spurningu til hæstv. fjármálaráðherra: Væri ekki ráð að ganga úr skugga um hverjir það eru raunverulega sem knýja Íslendinga til að samþykkja þessa Icesave-ríkisábyrgð langt umfram skyldu okkar Íslendinga? Hverjir eru það sem neita okkur um að láta reyna á málið fyrir hlutlausum dómstólum og halda þannig landinu í herkví? Einhver af þessum aðilum sem hafa tjáð sig um málið er að segja ósatt. Það er ekkert flóknara en svo að það verður að ganga á hvern einasta aðila, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norðurlöndin, Evrópusambandið, og spyrja um það þannig að við fáum úr því skorið í eitt skipti fyrir öll.

Þess ber að geta að Norðmenn hafa allan tímann lýst því yfir að lánafyrirgreiðslur frá þeim yrðu tengdar lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar til formleg beiðni kæmi frá Íslendingum um annað. Slík beiðni hefur aldrei verið lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Eftir að frumvarpið sem hér er til umræðu var lagt fram kom í ljós að fyrirvararnir höfðu breyst til hins verra frá kynningarfundinum 18. október sl. Má því segja að upphlaup, uppsagnir og fleiri atriði ýmissa stjórnarliða hafi verið til einskis. Einnig ber að geta þess að í umræðu 18. nóvember sl. eða í gær upplýsti fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd og nýskipaður formaður Heimssýnar í sölum Alþingis að í hans huga væru klár og hrein tengsl, þótt óbein væru, á milli Icesave-málsins og aðildar að Evrópusambandinu. Annar minni hluti telur að þar með sé komin staðfesting á hinum leynda þræði milli þessara tveggja mála og meginástæða þess að meiri hlutinn leggur ofuráherslu á að ríkisábyrgðin verði samþykkt og að um sé að ræða óþrjótandi vilja annars stjórnarflokksins að ganga í Evrópusambandið. Má leiða að því líkur að þar sé komin meginástæða þess að þingmenn þess flokks hafi frá upphafi lagt ofuráherslu á að ríkisábyrgðin á Icesave yrði samþykkt, jafnvel að óséðum Icesave-samningunum.

Við þurfum ekki annað en að rýna í gögn og þær ræður sem þingmenn þess flokks héldu við 1. umr. Icesave-málsins strax í vor. Það var enginn sem hvatti þingmenn til þess að fara ítarlega í samningana. Þvert á móti var þingheimur hvattur til þess að vera ekki með þetta upphlaup og samþykkja samningana óséða. Höfum það í huga að það var það sem stóð til, það átti ekki að sýna þingheimi Icesave-samningana. Sem betur fer var það gert og þrátt fyrir að komandi kynslóðir þurfi að taka á sig þessar ábyrgðir geta þær a.m.k. litið til baka, skoðað það sem sagt var og áttað sig á því hvernig að þessu máli var unnið. Þau vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Eins og áður hefur komið fram hafa fulltrúar meiri hlutans á Alþingi haldið því fram að breytingarnar á fyrirvörunum geri það að verkum að þeir verði jafnvel betri en áður. Ef þær fullyrðingar reynast réttar er það nöturleg staðreynd að Bretar og Hollendingar sögðu við íslensk stjórnvöld: Hvaða vitleysa er þetta, þessir fyrirvarar ganga ekki. Þeir eru bara alls ekki nógu góðir fyrir íslenska hagsmuni. Við ætlum að breyta þeim ykkur í hag. Hverjir trúa þessari vitleysu?

Allir sem kynna sér hvað felst í breytingunum átta sig fljótlega á því að Hollendingar og Bretar eru fyrst og fremst að gæta að hagsmunum borgara sinna og að fyrirvararnir hafa lítið sem ekkert gildi eftir breytingarnar. Það er ekki nóg með að Bretar og Hollendingar ætli að fá það sem þeir gætu hugsanlega fengið ef reynt yrði á málið samkvæmt dómi, nei, þeir ætla að fá meira. Þeir eru búnir að krefjast þess að við munum greiða öllum innlánshöfum þeirra umfram skyldu, umfram það sem kemur fram í tilskipuninni frá árinu 1999 sem mælir fyrir um þessar 20.887 evrur. Svo bæta þeir um betur vegna þess að þeir vextir sem Íslendingum bjóðast eru hærri vextir en þeir fá sjálfir, þannig að þeir taka lán á alþjóðlegum lánamörkuðum á mun hagstæðari vöxtum og græða á láninu. Hvar er sanngirnin í þessu, hæstv. forseti?

Það er líka eitt sem við verðum að hafa í huga þegar við skoðum þá fullyrðingu að fyrirvararnir hafi breyst til hins betra fyrir hönd Íslendinga. Því hefur verið haldið fram að það sé jákvæðara fyrir Ísland að nú séu fyrirvararnir inni í lánasamningunum. Þessu hefur nú ekki fylgt neinn sérstakur rökstuðningur, en áttum okkur á einu. Um leið og ábyrgð ríkisins er orðin hluti af lánasamningunum þá fellur dómsvaldið til að túlka samningana undir breska dómstóla, undir bresk lög. Þar með er ábyrgð ríkisins aftur orðin skilyrðislaus. Þetta viðurkennir reyndar meiri hlutinn í áliti sínu, þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fallist var á kröfu viðsemjenda íslenska ríkisins um að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins væri óskilyrt.“

Það sem var jákvætt við þá fyrirvara sem hér voru samþykktir var að ef reynt hefði á ágreining varðandi skilyrðin, hefði þurft að fara með þann ágreining fyrir íslenska dómstóla. Icesave-samningarnir eru svo ósanngjarnir og niðurlægjandi fyrir íslenska ríkið að allur ágreiningur á að fara fyrir breska dómstóla, samkvæmt breskum lögum, þó með þeirri undantekningu að ef Bretar og Hollendingar, eða Bretar réttara sagt, sjá sér hag í því að fara með málið fyrir annan dómstól hvar sem er í heiminum, þá hafa þeir einhliða rétt til að gera slíkt.

Virðulegi forseti. Ég mun hér á eftir rekja ástæðu þess að Framsóknarflokkurinn taldi ekki nægilega langt gengið í þeim fyrirvörum sem settir voru á Alþingi, enda var í sjálfu sér enginn sem taldi að þá hefði verið gengið of langt. Enginn mæltist til þess að við skyldum ganga skemur — jú, nema einstaka þingmenn meiri hlutans sem börðust eins og ljón fyrir því að útvatna skilmálana. Þar skildi leiðir. Við framsóknarmenn vorum ekki reiðubúnir að gefa eftir efnahagslega fyrirvarann, bakka með þá samstöðu sem náðist meðal Hreyfingarinnar, Sjálfstæðisflokks og hluta Vinstri grænna um þá lagalegu fyrirvara sem settir voru. Skýrt dæmi um þetta er breyting sem þingmenn Samfylkingarinnar kröfðust að gerð yrði og var í upphaflegu fyrirvörunum. Krafan var sú að ríkisábyrgðin átti að grundvallast á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar yrði innan viðráðanlegra marka. Til að fyrirbyggja greiðslufall ríkissjóðs átti ríkisábyrgðin að falla niður ef hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu færi yfir 240%, ef hlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum færi yfir 250% og ef hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum færi yfir 150%. Þessar upplýsingar voru meðal þeirra sem þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust að kæmu á borð fjárlaganefndar þannig að nefndin, þingmenn og almenningur í landinu áttuðu sig á því hvernig staðan væri. Það er engum til góðs að „kóa“ það ástand sem við glímum við núna. Menn verða að fá að vita sannleikann. Það er ekki fyrr en hann liggur á borðinu sem þjóðin getur farið að berjast út úr þeim vandræðum sem hún glímir við í augnablikinu.

Svo gerðist það að Seðlabankinn kom loksins með minnisblað fyrir fjárlaganefnd, þar sem áætlað var að skuldastaðan yrði ríflega 300% af landsframleiðslu ársins 2009. Þetta eru háar tölur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bætti um betur og gerði ráð fyrir að vergar skuldir íslenska þjóðarbúsins mundu nema 310% af landsframleiðslu ársins. Fyrirvarar Framsóknarflokksins gengu út á það að þetta yrði sett inn í lagafrumvarpið sjálft. Ég benti ítrekað á það hér í ræðustól Alþingis að um leið og fyrirvarinn væri kominn inn í álit meiri hlutans, væri hann marklaus. Hvað hefur komið á daginn? Jú, hann er marklaus. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar út í þetta áðan, hann hafði litlar áhyggjur af þessu og sagði að hægt væri að reikna sig fram og til baka. Það má vel vera, en ég held að komandi kynslóðir eigi þá sanngjörnu kröfu að vita nákvæmlega undir hvaða kringumstæðum ákvörðunin um þessa ríkisábyrgð á Icesave-samningana var tekin.

Virðulegi forseti. Sú hugsun sem bjó að baki þeim fyrirvörum sem settir voru í lögum nr. 96/2009 var fyrst og fremst að þeir tryggðu réttarstöðu Íslands. Í fyrsta lagi með því að setja tímamörk þannig að margar kynslóðir Íslendinga þyrftu ekki að gjalda bankahrunsins. Í öðru lagi að takmarka greiðsluskyldu ríkisins þannig að því væri mögulegt að standa undir þeim skuldbindingum sem ríkisábyrgðinni fylgja. Í þriðja lagi yrði reynt að fá hnekkt ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum áður en til greiðslu lánasamninganna kæmi. Í fjórða lagi að tryggja að réttarstaða krafna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við úthlutun úr búi Landsbankans yrði ekki skert með lánasamningunum og þar með greiðsluskuldbindingar auknar.

Þær breytingar sem nú eru lagðar fram af meiri hlutanum skapa óvissu um framhaldið. Sem dæmi má nefna að fjárlaganefnd hefur enn þann dag í dag ekki fengið að meta eignasafn Landsbankans og hefur þannig verið á meðan allri þessari meðferð hefur staðið. Það hlýtur að skipta höfuðmáli að menn geti áttað sig á því frá fyrstu hendi hverjar séu líkurnar á endurheimtum úr þrotabúinu. Þess ber að geta að þegar ég spurði skilanefnd og slitastjórn Landsbankans hverju þetta sætti — vegna þess að skýr ákvæði væru í gjaldþrotalögum að kröfuhafar og þar með innstæður tryggingarsjóðsins og væntanlega þá ábyrgðarmaðurinn á bak við innstæður tryggingarsjóðsins, fengju að sjá eignirnar — komu fram þær upplýsingar að önnur lög væru um fjármálafyrirtæki þar sem fyndust reglur um bankaleynd, sem kæmu í veg fyrir þetta. Með öðrum orðum, fjárlaganefnd hefur ekki fengið að sjá eignasafnið vegna þess að menn skýla sér á bak við ákvæði um bankaleynd. Fjárlaganefndin og meiri hlutinn ætla sér að taka þessa stóru ákvörðun algjörlega með bundið fyrir augun, án þess að á þetta sé reynt. Hvor lögin ganga framar? Ég hefði talið samkvæmt eðlilegum reglum um réttarfar, að gjaldþrotalögin hlytu að ganga framar, auk þess sem fjárlaganefndarmenn hefðu nú getað fengið að sjá þessi gögn í trúnaði. Það hefði væntanlega verið lítið mál, enda innan nefndarinnar fjölmargir menn sem gætu fljótlega áttað sig á því hvort þær endurheimtur sem boðaðar hafa verið væru réttlættar.

Í hinum svokallaða Ragnars H. Halls-fyrirvara er um að ræða óvissu upp á tugi ef ekki hundruð milljarða króna. Með lögum nr. 96/2009 var ákveðið að ábyrgðin yrði takmörkuð við að látið yrði á það reyna hvort kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gengju ekki framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu við úthlutun úr þrotabúi Landsbankans samkvæmt íslenskum lögum. Ef niðurstaðan yrði tryggingarsjóðnum í hag skyldi ábyrgð ríkisins lækka í hlutfalli við það. Þó var það sett að skilyrði að viðræður yrðu teknar upp á milli aðila en ef þær færu ekki fram eða leiddu ekki til niðurstöðu gæti Alþingi takmarkað ríkisábyrgðina.

Framsóknarflokkurinn lagði sig allan fram um að styrkja þetta ákvæði. Til dæmis með þeim orðum að innstæðutryggingarsjóðurinn yrði bundinn við að láta á það reyna fyrir slita- eða skiptastjórn þrotabús Landsbankans hvort kröfur hans gengju framar við úthlutun á öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu og hagaði kröfulýsingu sinni þannig að reynt gæti á þennan rétt, með málskotsrétti til héraðsdóms og Hæstaréttar.

Það sem er athyglisvert er að sú ríkisstjórn, sá meiri hluti, sem hafnaði þessari breytingartillögu hefur núna reyndar séð að sér og orðalagi fyrirvarans hefur verið breytt í átt til þess sem við framsóknarmenn lögðum þá til. Hefði ekki verið betra á sínum tíma að menn hefðu aðeins sest niður og skoðað þetta betur í stað þess að viðhafa þann asa sem þá var á málinu?

Í grein sinni bentu Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður á að ekki sé lengur gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðin takmarkist við úthlutun og uppgjör á eignum Landsbankans, að hún sé sem sagt ekki lengur takmörkuð við það að uppgjörið fari fram samkvæmt íslenskum lögum, eins og þau verða skýrð af dómstólum landsins. Það er látið duga að setja inn í viðaukasamninginn við Breta að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta kunni að leita úrskurðar um hvort kröfur hans gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána. Eins og áður segir eru skuldbindingar íslenska ríkisins hins vegar skilyrðislausar samkvæmt lánasamningunum og við túlkun hans gilda bresk lög. Af þessum sökum verður ekki séð að neitt lögfræðilegt hald sé í viðkomandi ákvæði viðaukasamningsins við Breta og fyrirvarinn þar með orðinn marklaus. Undir orð þessara lögfræðinga tekur 2. minni hluti heils hugar.

Í viðaukasamningum við Hollendinga er því hins vegar haldið opnu að hægt sé að bera málið undir íslenska dómstóla. Það er að því gefnu að málið sé ekki í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem íslenskir dómstólar verða að hafa frumkvæði að því að afla. Því ber að halda til haga að samkvæmt lögum nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, kemur skýrt fram í 1. gr. að ákvæðið eigi einungis við þegar mál er rekið fyrir héraðsdómi og taka þurfi afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið.

Þegar kemur að ákvörðun um úthlutun úr þrotabúi Landsbankans verður sú ákvörðun tekin á grundvelli íslenskra laga, á íslensku gjaldþrotalögunum. Ég get ekki séð að dómari komi til með að fallast á, hvort sem um er að ræða samkvæmt eigin áliti eða samkvæmt kröfu málsaðila, að leita eftir hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Meiri hlutinn orðar þetta þannig í áliti sínu:

„Talið er líklegt að íslenskir dómstólar vísi þessum ágreiningi til EFTA-dómstólsins, sbr. kafla 3.6 í athugasemdum við frumvarpið. Þetta mat byggist m.a. á álitsgerðum innlendra og erlendra sérfræðinga um að EES-réttur skipti máli við úrlausn þessa atriðis. Taki EFTA-dómstóllinn ekki efnislega á málinu, t.d. vísi því frá, mundi hagfelld niðurstaða íslenskra dómstóla breyta samningunum. Taki dómstóllinn efnislega afstöðu og álitið er íslenska tryggingarsjóðnum óhagfellt, en niðurstaða íslenskra dómstóla hagfelld, breytast ákvæði lánasamninganna ekki varðandi þetta atriði. Það sama gerist ef þessu yrði öfugt farið.“

Með öðrum orðum, ef álit EFTA dómstólsins og íslenskra dómstóla fer ekki saman, alveg sama þó að íslenskur dómstóll kæmist að jákvæðri niðurstöðu, þá verður það alltaf Bretum og Hollendingum í hag. Það skiptir engu hverju EFTA-dómstóllinn kæmist að, ef álitin eru ekki samsvarandi þá er það bara þannig. Íslenskur almenningur mun ekki fá að njóta þess.

Mig langar líka að benda á eina staðreynd. Meiri hlutinn treysti sér ekki til að fullyrða að ágreiningnum verði vísað til EFTA-dómstólsins, telur einungis líkur á því. Og erum við þá ekki að tala um eitthvað dýrasta veðmál Íslandssögunnar, vegna þess að þeir hagsmunir sem þarna liggja að baki nema tugum ef ekki hundruðum milljarða króna? Við sitjum núna sveitt í fjárlaganefnd og erum að taka ákvarðanir um hvort veita eigi eina milljón hér, tíu milljónir þangað, og þessar milljónir geta skipt höfuðmáli varðandi afkomu og lífsviðurværi fólks næstu árin. (KÞJ: Flatey.) Já, Flatey er ágætisdæmi, en ríkisstjórnin sá að sér, sem betur fer, varðandi það atriði. Og það sem einnig er merkilegt er að meiri hlutinn fullyrðir að ef EFTA-dómstóllinn taki ekki á málinu heldur vísi því frá þá breyti hagfelld niðurstaða íslenskra dómstóla samningnum. Með öðrum orðum, ef EFTA-dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að málin heyri ekki undir hann, hann hafi ekki lögsögu í málinu, þá telur meiri hlutinn að ákvörðun íslenskra dómstóla, ef hún verður jákvæð, megi nota Íslendingum í hag. Vandamálið við þetta er hins vegar það að sama túlkun kemur hvergi fram í Icesave-samningunum. Það er alls kostar óvíst hvernig Bretar og Hollendingar túlka þetta ákvæði. Þeir gætu bara haft allt, allt annan skilning á þessu máli. Það liggur fyrir og ég spurðist fyrir um það í fjárlaganefnd hvort það væri þá ekki a.m.k. öruggt að það væri eitthvað skriflegt, einhver tölvupóstur, eitthvað sem sýndi fram á að Bretar og Hollendingar hefðu sama skilning. Nei, því miður, svo var ekki.

Það var einnig annar lagalegur fyrirvari sem var settur en honum hefur í rauninni verið eytt út. Í lögunum nr. 96/2009 var gerður sá fyrirvari að Ísland hafi ekki fallið frá þeim rétti sínum að fá úr því skorið hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum við fall banka. Var að því stefnt að ef sú niðurstaða fengist hjá þar til bærum úrskurðaraðila, þ.e. að slík skylda væri ekki til staðar að einhverju leyti eða öllu, þá gæti íslenska ríkið losnað undan ábyrgðinni samkvæmt því. Þessi aðili hefði til dæmis getað verið íslenskur dómstóll. Sá er hér stendur taldi þennan fyrirvara vissulega vera til bóta en að ekki væri nægilega langt gengið til þess að tryggt væri að fyrirvarinn væri virkur. Því lagði 2. minni hluti á þeim tíma fram breytingartillögur þess efnis að fengist úr því skorið fyrir þar til bærum úrlausnaraðila að ríkisábyrgð gildi ekki, þá bæri Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ekki að greiða hærri fjárhæð en til var í sjóðnum við upphaf bankahrunsins. Sami fyrirvari ætti við ef betri réttur skapaðist á sviði Evrópulöggjafar, hún skýrist eða ef lagaleg skylda til að ábyrgjast innstæður minnkar eða á annan hátt lægi fyrir að ríkisábyrgð væri ekki til staðar. Einnig ef í ljós kæmi að skaði hafi hlotist af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda fyrir þrotabú Landsbanka Íslands hf.

Þetta er nú ekki svo lítið atriði, virðulegi forseti. Þarna erum við að tala um setningu hryðjuverkalaganna gagnvart Íslendingum, gagnvart íslenskum almenningi. Segjum sem svo að einhver láti reyna í framtíðinni á hvort setningin hafi verið samkvæmt breskum lögum og sá aðili ynni, mættu þá Íslendingar ekki eiga von á því að sú niðurstaða yrði þeim í hag að þeir fengju notið þess óréttlætis sem Bretar beittu Íslendinga? Nei, síður en svo, fyrir það er girt í Icesave-samningnum. Það var gerð heiðarleg tilraun í fyrirvara að tryggja það og ég vildi að það yrði algjörlega geirneglt að Íslendingar fengju notið þess. En nú á að eyða þessum fyrirvara út. 2. minni hluti taldi að það yrði að láta reyna á réttarstöðu Íslendinga og hvort ríkisábyrgð lægi á bak við innstæðutryggingarsjóði Evrópulanda. Við skulum líka hafa það í huga að ríkisábyrgðin er ekki til staðar í löndum Evrópu. Einstaka ríki hafa jú komið fram í kjölfar efnahagslegra erfiðleika og lýst því yfir, en það er algjörlega augljóst mál að ef það væri ríkisábyrgð innan ríkja Evrópusambandsins, bryti það gegn samkeppnisrétti sambandsins. Auðvitað leita innstæðuhafar eða þeir sem eiga peninga eftir því að leggja peninginn sinn inn í þá banka sem eru hvað tryggastir og þá fara þeir til landa sem eru hvað ríkust. Er það sanngjörn samkeppni innan Evrópusambandsins? Svarið er augljóst: Nei, þannig getur það ekki verið.

Sú tillaga sem nú liggur fyrir af hálfu meiri hlutans gerir það að verkum að afar ólíklegt er að Íslendingar fái notið þeirrar tryggingar sem fyrirvarinn í lögum nr. 96/2009 átti að tryggja. Nú liggur fyrir að íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þótt þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru að sjálfsögðu ekki bundnir af þessum ákvæðum. Það skal líka tekið fram og við verðum að hafa það í huga að samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð ríkisins skilyrðislaus. Því ákvæði hefur ekki verið breytt. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hver framganga málsins verður. Það var þó skilyrði að Bretar og Hollendingar þyrftu að setjast niður með okkur og ræða málin ef kæmi niðurstaða sem væri Íslendingum í hag. Ef þeir neituðu eða viðræðurnar leiddu ekki til niðurstöðu, gætu Íslendingar einhliða fellt ríkisábyrgðina úr gildi. Þetta samþykkti meiri hluti Alþingis hér í lok ágústmánaðar. Ef Bretar og Hollendingar vildu ekki tala við okkur, vildu ekki þiggja hjá okkur kaffi eða te, þá gætum við einfaldlega sagt: „Þá fellum við ríkisábyrgðina einhliða niður“. Nú hefur sá fyrirvari verið tekinn í burtu. Ef Hollendingar eru ekkert sérstaklega kaffiþyrstir og drekka ekki teið í öðrum löndum eða hafa einhverjar sérþarfir varðandi það, þá er það bara einfaldlega þannig að Íslendingar sitja uppi með Icesave-reikningana jafnvel þó að dómsniðurstaða komið hafi hjá þar til bærum úrlausnaraðila um að það væri ekki ríkisábyrgð á bak við Icesave-samninga eða aðra bankastarfsemi. Svo koma þingmenn meiri hlutans fram og fullyrða að fyrirvararnir séu betri og að þeir hafi styrkst að einhverju leyti. Hvernig fá menn það út, virðulegi forseti?

Að lokum ber að geta þess að Eiríkur Tómasson lagaprófessor og Benedikt Bogason héraðsdómari töldu, þegar þeir komu fyrir fjárlaganefndina, að nánast engar líkur væru á því að reyna mundi á hinn svokallaða almenna fyrirvara og því lítið hald í honum fyrir Íslendinga, eins og ég las í þeirra orð þegar þeir komu fyrir nefndina.

Virðulegi forseti. Þeir efnahagslegu fyrirvarar sem mestu skiptu í lögunum frá því í lok ágúst voru að meginstefnu tveir. Í fyrsta lagi kom fram í 1. mgr. 1. gr. laganna „að ábyrgðin tæki til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, með þeim fyrirvörum sem fram koma í lögum þessum og gildir til 5. júní 2024.“ Í þetta atriði, í þessa setningu héldu margir þingmenn þar á meðal þeir þingmenn vinstri grænna sem töldu að ýmislegt væri að athuga við Icesave-samningana.

Í 5. mgr. 3. gr. laganna sagði hins vegar: „Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki greidd að fullu í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar.“ Augljóst var að orðalag málsgreinarinnar var í andstöðu við orðalag í 1. mgr. 1. gr. og benti 2. minni hluti og sá sem hér stendur ítrekað á misræmið. Í því skyni að koma í veg fyrir misskilninginn og ná fram raunverulegum vilja meiri hluta Alþingis á þeim tíma lagði 2. minni hluti fram breytingartillögu við 5. mgr. 3. gr. Hún hljóðaði svo: „Verði greiðslubyrði lánasamninganna meiri en nemur hámarki skv. 3. mgr. og þar með eftirstöðvar í lok lánatímabilsins árið 2024 fellur ríkisábyrgðin á eftirstöðvunum niður.“ Ef þessi breytingartillaga hefði verið samþykkt, væru menn ekkert hér að velkjast í vafa um það hvort ætlunin hefði verið að fyrirvarinn hefði endað 2024. Um þetta deila þingmenn Samfylkingarinnar og hinir sem vildu ekki samþykkja Icesave á sínum tíma. Þeir segja að það hafi aldrei staðið til að ábyrgðin mundi falla niður árið 2024. Ég held hins vegar að ef menn hefðu látið á þetta reyna hefði ábyrgðin fallið niður 2024. Ég tel orðalag 1. gr. mun skýrara og samkvæmt lögskýringarreglum mundi það ganga framar ákvæðinu í 5. mgr. 3. gr. En óvissan var til staðar og henni hefði átt að eyða á þeim tíma.

Þau ákvæði sem meiri hlutinn leggur nú til að verði samþykkt fela því miður í sér að tímabinding ábyrgðarinnar er með öllu felld úr gildi. Ríkisábyrgðin er þannig orðin ótímabundin og margar kynslóðir Íslendinga, börn okkar og barnabörn, gætu því orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingunum. Meiri hlutinn víkur sér svo sem ekki undan þessari staðreynd í áliti sínu, enda segir þar orðrétt: „Í öðru lagi gerir samningurinn ráð fyrir að haldið verði áfram að greiða af lánunum miðað við regluna um greiðsluhámark þar til lánin verða að fullu greidd.“ Í öðru lagi og hinn efnahagslegi fyrirvarinn sem skipti miklu máli var að ábyrgð ríkisins yrði takmörkuð við ákveðið hámark af vexti vergrar landsframleiðslu á ári hverju. Þetta átti að leiða af sér að greiðslur ríkisins yrðu alltaf í samræmi við greiðslugetu íslenska ríkisins.

Annar minni hluti lagði til á þeim tíma að í stað 4% og 2% kæmi 3,85% gagnvart Bretum annars vegar og 1,94% gagnvart Hollendingum. Þetta hefði varið þjóðarbúið mun betur og síðast þegar ég reiknaði mér til skeikaði þarna um þrem milljörðum kr., milljörðum sem þjóðarbúið getur svo sannarlega nýtt sér inn í velferðarkerfi á komandi árum.

Í breytingunum sem meiri hlutinn hyggst nú gera skulu vextir greiðast að fullu, óháð efnahagslegu ástandi á Íslandi, og á 6% greiðsluþakið einungis við ef heildargreiðslur eru hærri en vaxtagreiðslurnar. Verði samdráttur í efnahagsmálunum þarf ríkissjóður því að greiða vaxtagreiðslur upp á allt að 10–15% af tekjum ríkisins til viðbótar við þann tekjumissi sem hann verður fyrir vegna samdráttarins. Það er því útséð um að efnahagslegu fyrirvararnir veiti það skjól fyrir komandi kynslóðir sem þeir áttu að veita.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn heldur því fram að nú séu hin svokölluðu Brussel-viðmið komin inn í samningana, ekki það að þau hafi efnislega verið sett inn í samningana heldur er einfaldlega sett fram sú fullyrðing að þau séu þar. Engu að síður hafa nánast allir verið sammála um að Brussel-viðmiðin hafi aldrei verið til viðmiðunar í samningaviðræðum, eins og var ákveðið af hálfu Alþingis í desember fyrir tæpu ári síðan.

Þetta gagnrýnir Indefence-hópurinn harðlega þar sem talsmenn hans segja: Brussel-viðmiðin hafa verið brjóstvörn Íslendinga í baráttu þeirra fyrir sanngjörnum Icesave-samningum. Það er beinlínis rangt og niðurlægjandi fyrir Alþingi Íslendinga að sjá staðhæft í viðaukasamningunum að nú séu Icesave-samningarnir í samræmi við Brussel-viðmiðin. Fylgiskjöl A og B með þessari fréttatilkynningu sýna að það er fjarri lagi. Með þessari hagræðingu á sannleikanum brestur mikilvægur varnargarður Íslendinga gagnvart kröfum Breta og Hollendinga því að með þessu móti er tryggt að Íslendingar geta aldrei aftur borið fyrir sig Brussel-viðmiðin.

Annar minni hluti tekur heils hugar undir þessi gagnrýnisorð og bendir á hið augljósa: Meiri hlutinn kastar með þessu orðalagi og þessari breytingu mögulegri réttarstöðu Íslands á glæ ef reynir á Icesave-samningana seinna meir.

Annar minni hluti telur að sú aðgerð sem nú er verið að ráðast í með fyrirliggjandi frumvarpi dimmi ljósin fyrir komandi kynslóðir. Þau skref sem nú eru stigin gera það að verkum að efnahagslegir fyrirvarar Alþingis frá 28. ágúst sl. eru með öllu aftengdir. Ábyrgðin á greiðslum verður óendanleg í tíma, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar og með samþykkt meiri hlutans, og tekur ekki enda fyrr en allt hefur verið greitt upp af Íslands hálfu án þess að tillit verði tekið til aðstæðna hér á landi.

Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi barist gegn því að Íslendingar taki á sig þessar drápsklyfjar og hefur ítrekað bent á að Íslendingum hefur margsinnis verið meinað að neyta réttar síns. Íslendingar hafa verið neyddir til að taka á sig skuldbindingar til að innstæðutryggingarkerfi Evrópu bresti ekki. Fráleitt er að komandi kynslóðir taki á sig skuldir sem fáeinir óreiðumenn stofnuðu til vegna reglna Evrópusambandsins sem Íslendingar tóku upp athugasemdalaust. Vert er að halda til haga að aðilar innan annarra ríkja Evrópu höfðu nýtt sér sömu reglur í þeim tilgangi að stofna bankaútibú þvert á landamæri. Því er rangt sem haldið hefur verið fram hér í þessum ræðustól af hálfu sumra þingmanna stjórnarmeirihlutans að komandi kynslóðir eigi að taka á sig þessa ábyrgð af því að það hafi verið Íslendingar sem voru þarna að verki. Þetta voru Evrópubúar sem unnu samkvæmt tilskipunum og regluverki Evrópusambandsins og þeir höguðu sér á nákvæmlega sama hátt og aðrar þjóðir í Evrópu gerðu.

Annar minni hluti telur að með málinu sé verið að gera ein stærstu mistök Íslandssögunnar. Aldrei hefur ríkisstjórnin reynt að tala máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Þessi ákvörðun kann að valda því að lífsskilyrði á Íslandi verði verri til fleiri ára en vera þyrfti.

Það verður ekki hjá því komist að minnast á það að umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur blandast mjög inn í þessa umræðu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að samþykki Íslendingar ekki Icesave-samningana sé aðildarumsókninni stefnt í voða.

Einnig má benda á að titringur og átök innan stjórnarflokkanna hafa fyrst og fremst komið til vegna samninganna, ef marka má fréttir fjölmiðla. Jafnframt hefur sú hótun verið undirliggjandi að ríkisstjórnarsamstarfið sjálft velti á því hvort samningarnir fari í gegn, jafnvel í orðum forsætisráðherra á Alþingi. Þetta hefur skekkt umræðuna um Icesave-málið, gert hana ómarkvissa og að mörgu leyti ómálefnalega í máli sem átti að vinna frá upphafi þverpólitískt í sátt og samlyndi.

Frá upphafi málsins hefur skoðun 2. minni hluta fjárlaganefndar verið að óverjandi væri að samþykkja fyrirliggjandi ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave-samningunum. Sú skoðun hefur ekki breyst. 2. minni hluti leggur til að frumvarpið verði fellt.