Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 15:54:26 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu og yfirgripsmiklu ræðu. Ég kem hér í andsvar við hv. þingmann sem er nefndarmaður í fjárlaganefnd. Ég á reyndar ekki sæti í fjárlaganefnd og hef því ekki verið viðstödd þá vinnu. En við 1. umr. þessa máls ræddum ég og fleiri allmikið um samskipti Íslands við Breta og Hollendinga og hvernig fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti hér í lögum í ágúst yrðu kynntir Bretum og Hollendingum. Ég hafði á því mikinn fyrirvara hvernig þetta yrði allt saman gert vegna þess að ég óttaðist að þar sem við fengjum ekki viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum á Alþingi mundu þeir einhvern veginn reyna að koma sér undan þeim, sem hefur svo komið á daginn.

Þess vegna bað ég í ræðu minni við 1. umr. um að fá öll þessi gögn. Hæstv. fjármálaráðherra, sem hér situr, kom upp í andsvar við mig og greindi mér frá mörgum fundum sem hann hefði átt. Og hæstv. utanríkisráðherra talaði líka mjög mikið um fundi sem hann hefði átt úti um allan heim um fyrirvarana.

Síðan vekur það athygli að alla vega í þeim gögnum sem ég hef séð frá fjárlaganefnd er eitt einasta minnisblað um samskipti við Breta og Hollendinga og það er frásögn af fundum með Hollendingum og Bretum í Haag 1. og 2. september. Ég verð að segja að sú kynning hefur verið mjög rýr og er ekki verið að reyna að selja málstaðinn miðað við hana. Því vil ég spyrja hv. þingmann, sem átti sæti í fjárlaganefnd: (Forseti hringir.) Fékk nefndin fleiri fundargerðir og frásagnir í vinnu sinni af þessum fundum?