Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 16:05:20 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir svörin. Eins og mig grunaði hefur greinilega ekki farið fram nein efnisleg umræða um þetta mikilvæga atriði sem lýtur að breyttri lögsögu eða breytingum á því sem varðar það hvar þessir fyrirvarar verða teknir til skoðunar fyrir dómstólum og eftir hvaða lögum verður farið. Þarna er að mínu mati um breytingu að ræða sem getur haft veruleg áhrif. Ég hef ekki haft tök á að fara ofan í þennan þátt sjálfur en ég hefði talið eðlilegt að hv. fjárlaganefnd, sem bar ábyrgð á málsmeðferðinni, hefði farið í þessa greiningu.

Ég hef ekkert fundið í greinargerð með frumvarpinu sjálfu eða nefndaráliti meiri hlutans sem víkur að þeirri veigamiklu spurningu hvort það breyti eða geti breytt réttarstöðu Íslands (Forseti hringir.) að málið flyst frá íslenskum dómstólum til enskra, en ég álít að það sé til vansa fyrir meiri hluta fjárlaganefndar að hafa afgreitt málið út án (Forseti hringir.) þess að taka á þeim þætti.