Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 16:12:33 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar þá að koma að hinni breytingunni í hinu nýja frumvarpi ríkisstjórnarinnar og það er varðandi lagalegu fyrirvarana. Í gömlu fyrirvörunum var það þannig að ef þar til bær úrskurðaraðili mundi dæma að íslenskum stjórnvöldum eða íslenskri þjóð bæri ekki að greiða Icesave-reikningana vegna gallaðrar Evróputilskipunar, sem hefur ekki verið skorið úr um og liggur kannski ekki fyrir ákveðinn farvegur um hvernig það færi fram, ef það yrði þannig að í ljós kæmi að okkur bæri ekki skylda til að greiða þetta, þá eru samkvæmt því sem ég get séð út úr frumvarpinu einungis Bretar og Hollendingar skyldugir til að setjast niður með okkur í svona ákveðið teboð, eins og kallað var. Þá velti ég því upp við hv. þingmann hvort hann hafi sama skilning á því að Íslendingar fái enga leiðréttingu nema Bretum (Forseti hringir.) og Hollendingum hugnist það.