Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 16:15:30 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Svo furðulegt sem það nú er í því máli sem við ræðum þá er ýmislegt á floti enn og væri ágætt að ýmsir þættir væru dregnir á þurrt í málinu.

Ég mæli fyrir nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar á þskj. 258 sem að standa hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Einar K. Guðfinnsson auk þess sem hér mælir fyrir nefndarálitinu.

Á margan hátt er þetta gríðarlega merkilegt mál og snýst um ákveðin grundvallaratriði í störfum löggjafans, Alþingis Íslendinga, samskipti löggjafarvaldsins við framkvæmdarvaldið, við ríkisstjórn Íslands, en megininntakið í því er að standa vörð og annast um hagsmunagæslu fyrir íslenska þjóð í því máli sem hér er uppi og við getum fyllilega flokkað með einna hörðustu milliríkjadeilum sem Ísland hefur lent í. Það er raunar löngu frá gengið að við á hinu háa Alþingi fáum ekki svör við þeim tveim grundvallarspurningum sem spyrja ætti og hefur raunar verið spurt og var spurt í fyrrahaust varðandi þetta mál og prófessor emeritus Sigurður Líndal hefur orðað svo snyrtilega í blaðagrein.

Þær spurningar hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Hvenær tók íslenska ríkið að sér að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands sem var í einkaeign og ríkinu — og þar með íslensku þjóðinni — óviðkomandi og hvar er staður fyrir slíkri ábyrgð í lögum, samningum eða löglega bindandi yfirlýsingum? Slíkar íþyngjandi skuldbindingar verða að styðjast við skýra réttarheimild.

2. Að svo miklu leyti sem álitaefni kunna að vera um skyldur íslenska ríkisins vegna einhvers konar ávirðinga í samskiptum við Breta og Hollendinga — hvers vegna hefur Íslendingum verið synjað um að fá slík álitaefni lögð fyrir dóm?“

Þetta eru þær tvær meginspurningar sem Alþingi Íslendinga hefur spurt og Íslendingar hljóta að spyrja í tengslum við málið.

Allt að einu fóru leikar þannig að Alþingi Íslendinga féllst á þá tillögu sem þar var lögð fram af fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um að ganga til samninga um þetta mál á pólitískum forsendum og reyna að leita pólitískrar lausnar á grunni hinna svokölluðu umsömdu viðmiða eða Brussel-viðmiða eins og oft eru kölluð.

Út úr því ferli öllu saman kom það að minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem tók við störfum 1. febrúar sl. gekk til þessa verks og skilaði af sér vinnu sinni til Alþingis í júní með frumvarpi fjármálaráðherra sem hljóðaði upp á að Íslendingar, íslenska ríkið, íslenska þjóðin, veitti skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta óskilyrta, ótímabundna ábyrgð á fjárhæð sem enginn vissi hver var og veit ekki í dag. Þetta var niðurstaðan í vor. Í ljósi þess tók Alþingi til sinna ráða og gekk til verka að mínu mati með heiðarleika, bjartsýni og baráttuvilja að leiðarljósi við það verk að breyta þeirri niðurstöðu sem út úr þessu samningaferli svokölluðu fyrrverandi ríkisstjórnar hafði komið.

Niðurstöðuna úr því verki má draga saman í örfáum orðum. Settir voru inn veigamiklir fyrirvarar eða skilyrði í lög. Ríkisábyrgðin var tímabundin. Það voru settir tilteknir efnahagslegir fyrirvarar sem skyldu takmarka ábyrgðina. Alþingi áskildi Íslendingum rétt til að fá úrskurð tiltekins þar til bærs úrlausnaraðila um ábyrgð ríkisins og gæti Alþingi þá takmarkað ábyrgðina ef niðurstaðan yrði íslenska ríkinu í vil. Farið skyldi að íslenskum lögum við uppgjör og úthlutun eigna Landsbankans. Þetta er megininntakið úr þeim fyrirvörum sem settir voru af Alþingi í lok ágúst.

Þá ber svo við að frumvarpið sem nú liggur fyrir og er til umræðu gengur með ákveðnum hætti gegn þessari samþykkt Alþingis. Ábyrgðin er ekki lengur tímabundin og mun hvíla á ríkissjóði og íslenskum skattgreiðendum þar til skuldin verður að fullu greidd. Greiða á fulla vexti af skuldbindingunni óháð því hvort hagvöxtur verður hér á landi eður ei. Íslenska ríkið getur ekki lengur takmarkað né fellt niður ábyrgðina þótt þar til bær úrlausnaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á láni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Ekki er gert ráð fyrir því heldur að ríkisábyrgðin á láninu verði takmörkuð við það að uppgjör og úthlutun eigna Landsbankans fari að íslenskum lögum og lúti niðurstöðu íslenskra dómstóla nema með óeðlilegum skilyrðum þar sem bresk lög og breskir dómstólar kunna að hafa síðasta orðið um ýmis álitaefni sem upp kunna að koma.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu er í rauninni ekkert undarlegt þó að menn spyrji sig nokkurra spurninga um það verklag sem hér hefur verið viðhaft. Aftur er komin upp sú staða að það veit enginn í raun með neinni vissu hvaða skuldbindingu íslenska ríkið er að undirgangast. Það liggur fyrir — mjög skiptar skoðanir eru að vísu um það — að vaxtagreiðslur einar kunni að nema allt að 300 milljörðum kr. Það liggur fyrir, eins og ég kem raunar að síðar í ræðu minni, að um gríðarlega gengisáhættu er að ræða varðandi þessa lántöku. Svo má heldur ekki gleyma því að mikil óvissa er í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir og það er enginn hér í þessum sal sem getur með nokkurri vissu spáð fyrir um hvort á síðari tímum og á fyrirhuguðum gildistíma þessarar ábyrgðar eigi ekki eftir að koma til ýmissa áfalla, svo sem aflabrests eða annarra áfalla sem kynnu að herja á þjóðina sem hefðu mikla erfiðleika í för með sér.

Þetta eru allt hættur sem Alþingi Íslendinga þarf að vigta inn við afgreiðslu málsins og ég fullyrði að þetta var vigtað inn við vinnu Alþingis í sumar. Ljóst er að þær kvaðir sem fyrirhugað er að leggja á þjóðina eru ótímabundnar og líklegt er að öllu óbreyttu að þær muni hvíla á komandi kynslóðum um langan tíma án þess að við sem fjöllum um þessi mál í dag gerum okkur endilega ljósa grein fyrir þeim afleiðingum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir komandi kynslóðir. Jafnframt hefur verið rætt um og kom fram m.a. í andsvari við ræðu hv. þm. Þórs Saaris að mikil óvissa ríkir um neyðarlögin svokölluðu, ekki eingöngu af fjármálalegum ástæðum heldur líka hvort þau standist stjórnarskrá. Það er nokkuð ljóst að það verður látið reyna á þau lög og þau fara fyrir dóm. Ef svo færi að það mál tapaðist, ef við getum sagt sem svo, þau yrðu dæmd ógild, þá getur enginn í dag lagt mat á afleiðingar þess með öðrum hætti en að fullyrða að það yrði gríðarlegt áfall fyrir íslenskt þjóðfélag á öllum sviðum.

Við þessar aðstæður er mjög eðlilegt að spurt sé ákveðinna grundvallarspurninga, hvort það sé ekki eðlilegt að löggjafinn, Alþingi Íslendinga, reyni að setja slíkri skuldbindingu sem hér um ræðir og farið er fram á af ríkisstjórninni — hvort það sé ekki eðlilegt og fullkomlega skiljanlegt að löggjafinn reyni að setja henni skýr takmörk með það í huga að hún geti ekki stofnað fullveldinu í hættu líkt og Alþingi leitaðist við að gera með vinnu sinni í sumar og lagasetningunni í lok ágúst.

Í mínum huga er líka þess virði að spurt sé hversu langt löggjafinn, Alþingi Íslendinga, geti gengið. Hversu þær heimildir eigi og geti verið rúmar sem Alþingi hafi til að skuldbinda íslenska ríkið og þá þjóðina með þessum hætti. Þá hljóta þeir sem gerst þekkja til laga landsins að staldra við stjórnarskrá Íslands og íhuga þar þær heimildir sem hún veitir Alþingi til ákvarðana í þessum efnum. Ekki síður ættu menn að hugleiða þá skilmála eða þær kröfur sem gera verður til Alþingis ef fallist verður á þá skuldbindingu sem í frumvarpinu felst.

Það liggur fyrir í 40. gr. stjórnarskrárinnar að ekki má taka lán eða gangast undir skuldbindingu nema samkvæmt lagaheimild. Og væri þá ekki bæði sjálfsagt og eðlilegt að fyrir lægi, áður en slík ákvörðun er tekin, sú fjárhæð sem ætlunin er að íslenskir skattgreiðendur eigi að ábyrgjast og standa straum af hugsanlega á komandi áratugum?

Í ljósi þess sem ég hef rakið er alveg ljóst að við úttekt málsins úr fjárlaganefnd var skilið við þessar spurningar án svara. Því gagnrýnir 3. minni hluti fjárlaganefndar harðlega þá málsmeðferð sem frumvarpið fékk hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Við teljum að sú málsmeðferð sem meiri hlutinn þar viðhafði endurspegli engan veginn þá gríðarlegu þjóðarhagsmuni sem eru í húfi. Nefnt hefur verið í umræðunni í dag að það frumvarp sem liggur fyrir var aldrei tekið til efnislegrar meðferðar innan fjárlaganefndar áður en það var afgreitt út úr nefndinni. Slík málsmeðferð hlýtur að teljast einsdæmi og ekki í nokkru samræmi við þau vinnubrögð sem þingskapalög gera ráð fyrir að viðhöfð séu við meðferð mála á Alþingi.

Ég vil einnig geta þess að 3. minni hluti óskaði eftir að góðfúslega yrði leitað eftir því við hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og fyrrum formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, sem lagði fram og mælti fyrir þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi eins og ég gat um áðan, 5. desember 2008, varðandi svokölluð Brussel-viðmið — ástæðan fyrir þeirri ósk var einfaldlega sú að fyrrverandi utanríkisráðherra hafði nýverið upplýst að hún teldi að í þeim samningaviðræðum sem leitt hafa af sér það frumvarp sem Alþingi tekst nú á um hafi íslensk stjórnvöld gengið til þeirra samninga sem frumvarpið byggir á sem sakamenn. Í orðum og fréttum sem höfð voru eftir fyrrverandi utanríkisráðherra var sagt að vegna gallaðrar tilskipunar sé ófært að íslenska þjóðin verði ein látin bera þær fjárhagslegu byrðar sem af Icesave-reikningum Landsbanka Íslands hf. í Hollandi og Bretlandi leiðir og frumvarp þetta mæli fyrir um og að undan þessu verði að komast.

Síðast en ekki síst er rétt að geta þess að með bréfi, dagsettu. 4. nóvember sl., óskaði fjárlaganefnd Alþingis eftir því við efnahags- og skattanefnd Alþingis að sú síðarnefnda tæki efnahagslega þætti samninganna við Bretland og Holland til umfjöllunar. Það gerði nefndin og skilaði fjárlaganefnd fjórum vönduðum og efnismiklum álitum. Hins vegar kaus meiri hluti fjárlaganefndar að gera ekki neitt með þessi álit og hafði þau að engu í meðförum nefndarinnar. Engu að síður fylgja þau álitum úr nefndinni nú, en harma ber þá málsmeðferð að þau voru hvorki yfirfarin af nefndinni né voru höfundar álitanna kallaðir á fund fjárlaganefndar til þess að gera grein fyrir þeim eins og gjarnan er gert þegar frumvörp eru send milli fastanefnda Alþingis til meðferðar.

Þau vinnubrögð sem hér er lýst eru með öllu óviðeigandi, óviðunandi og óskiljanleg, ekki síst í ljósi þess góða samstarfs sem tókst á Alþingi í sumar um það meginverkefni að standa vörð um þjóðarhagsmuni í þessu máli. Því miður hefur meiri hluti fjárlaganefndar ekki gefið kost á sambærilegri varðstöðu við vinnslu frumvarpsins. Að mati 3. minni hluta uppfyllir málsmeðferðin ekki þær kröfur sem gerðar eru til vinnubragða og verklags í fastanefndum Alþingis. Með þeim hefur meiri hluti fjárlaganefndar sniðgengið þá rannsóknarskyldu sem fastanefndir Alþingis eiga að sinna við meðferð mála. Slík vinnubrögð í svo mikilsverðu hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar eru hvorki meiri hlutanum né Alþingi Íslendinga til sóma.

Með þingsályktun 5. desember 2008 samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að semja um lyktir Icesave-deilunnar. Ríkisstjórnin átti að ganga til viðræðna við aðila á grunni svokallaðra Brussel-viðmiða, sem ríkisstjórnir hlutaðeigandi ríkja náðu samkomulagi um fyrir milligöngu Frakka og þar með aðkomu Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli löggjafans ákvað ríkisstjórn Íslands 5. júní 2009 að skrifa undir samninga við Bretland og Holland sem gengu þvert á þau samningsmarkmið sem Alþingi hafði lagt til grundvallar í desember 2008. Þeir samningar sem kynntir voru í byrjun júní voru í engu samræmi við vilja Alþingis eins og hann birtist í lok árs 2008. Ríkisstjórnin hvorki upplýsti Alþingi um það sem í vændum var né fór fram á að Alþingi tæki til skoðunar þau drög að samkomulagi sem voru í burðarliðnum snemmsumars heldur virti vilja þingsins að vettugi með því að skrifa undir samningana án þess að kynna Alþingi þá fyrir fram. Með þessu gekk framkvæmdarvaldið freklega fram hjá skýrum vilja Alþingis.

Engan þarf að undra að slíkur málatilbúnaður olli því að mikil andstaða var við málið. Við meðferð þess á Alþingi var unnið að því að færa það nær upphaflegum viðmiðum og var frumvarp ríkisstjórnarinnar loks samþykkt mikið breytt með ákveðnum lagalegum, efnahagslegum og pólitískum fyrirvörum á ríkisábyrgðinni. Samkvæmt lögunum skyldi ríkisstjórnin kynna viðsemjendum sínum þá fyrirvara sem samþykktir voru sem lög frá Alþingi og gert að skilyrði að þeir skyldu samþykkja þá.

Ríkisstjórnin kynnti viðsemjendum fyrirvarana, eins og hér hefur komið fram, og gekk í kjölfarið til samningaviðræðna að nýju án þess að bresk og hollensk yfirvöld hefðu formlega lýst því yfir að þau hefðu ekki fallist á fyrirvara laganna í samræmi við 2. mgr. 1. gr. Það ákvæði er því enn í gildi. Svo var skrifað undir viðaukasamninga við Bretland og Holland sem voru í grundvallarandstöðu við vilja Alþingis, eins og hann birtist í lögunum sem bera númerið 96/2009. Hið sama gerðist við undirritun Icesave-samninganna 5. júní sl. þegar stjórnvöld fóru út fyrir samningsumboðið sem Alþingi veitti með ályktun sinni 5. desember 2008. Þrátt fyrir að Alþingi hafi í annað skiptið gefið framkvæmdarvaldinu skýr fyrirmæli um vilja sinn í málinu og þrátt fyrir að löggjafinn hafi með þeirri lagasetningu reynt að verja hagsmuni íslenskra ríkisborgara eins og kostur var virðist skoðun ríkisstjórnar Íslands vera sú að henni sé heimilt með þessum hætti að virða ekki vilja löggjafans.

Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins á milli tiltekinna handhafa þess og þar segir í 2. gr.:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Almennt er talið í íslenskum stjórnskipunarrétti að löggjafinn þurfi ekki að sæta neinum takmörkunum af hálfu framkvæmdarvaldsins. Í krafti lagasetningarvalds síns leggur þingið grunn að skipulagi stjórnsýslu og dómsvalds og þar með undirstöðurnar fyrir aðra þætti ríkisvaldsins, með öðrum orðum hefur Alþingi Íslendinga það hlutverk að ákvarða fyrir fram hvernig stjórnarframkvæmdinni skuli hagað. Stjórnskipanin gerir ráð fyrir að Alþingi sé falið tiltekið stjórnunarhlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu og þinginu er því ætlað að setja framkvæmdarvaldinu skorður með lagasetningu sem afmarkar valdsvið þess.

Þótt Alþingi sé með þessum hætti falið mikið vald hefur því verið haldið fram að það sé í reynd ríkisstjórnin sem ræður ferð í samskiptum þessara tveggja valdhafa. Þessi staðreynd endurspeglast vel í því máli sem hér um ræðir, svokölluðum Icesave-samningum, þar sem Alþingi hefur á öllum stigum þess verið háð ríkisstjórninni um upplýsingar. Það er verðugt athugunarefni hvernig Alþingi á að bregðast við þegar framkvæmdarvaldið gengur á svig við vilja Alþingis með þeim hætti sem að framan greinir.

Ég ætla að víkja að því hér á eftir hvernig framkvæmdarvaldið hefur nú til viðbótar við ámælisverð samskipti sín við löggjafarvaldið ákveðið að setja dómsvaldinu á Íslandi verulegar skorður á grundvelli samninga sem gerðir eru við erlend ríki til lúkningar umdeildri kröfu í Icesave-málinu Þetta gerir ríkisstjórn Íslands með því að gefa íslenskum dómstólum fyrirmæli um að leita til erlendra dómstóla og fara að ráðgefandi niðurstöðu þeirra í dómsniðurstöðum sínum. Slík framganga ríkisstjórnar sjálfstæðs ríkis hlýtur að vera einsdæmi. Ekki síst er þetta ámælisvert þegar komið hafa í ljós veigamiklar upplýsingar sem skipt geta sköpum varðandi mögulega greiðslubyrði þjóðarinnar af þeim skuldbindingum sem meiri hlutinn leggur til að Íslendingar undirgangist með tillögu ríkisstjórnarinnar.

Eins og áður segir er kveðið á um það í 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómendur fari með dómsvald hér á landi. Í 59. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að skipun dómsvalds verði eigi ákveðin nema með lögum. Eins og kunnugt er kveða íslensk lög á um að dómstig á Íslandi séu tvö, héraðsdómur og Hæstiréttur Íslands, sem fer með æðsta dómsvald á Íslandi.

Ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins, sem ég vitnaði til áðan, felur það í sér að handhafar þess eru sjálfstæðir og óháðir hver gagnvart öðrum og um þetta atriði er ekki deilt í íslenskum stjórnskipunarrétti.

Þrátt fyrir þetta segir í 2. mgr. 2. gr. þess frumvarps sem hér hefur verið lagt fram, með leyfi forseta:

„Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif slík úrlausn kunni að hafa á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim.“

Fram til þessa hafa þau álit sem íslenskir dómstólar hafa leitað eftir hjá EFTA-dómstólnum verið ráðgefandi en ekki bindandi. Með fyrrgreindu ákvæði í frumvarpinu er í raun lagt til að Hæstarétti Íslands verði gert skylt að leita álits hjá EFTA-dómstólnum vegna lagalegs ágreinings sem kann að vera gerður um skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave- reikninga Landsbankans og að það álit verði bindandi. Með því er ljóst að frumvarpið gerir ráð fyrir að æðsta dómsvald á Íslandi verði framselt til yfirþjóðlegrar stofnunar, EFTA-dómstólsins.

Augljóst er að krafan um það framsal á dómsvaldi sem frumvarpið mælir fyrir um er frá viðsemjendum ríkisstjórnar Íslands komin og staðfestir að hvorki bresk stjórnvöld né hollensk treysta íslenskum dómstólum til þess að leiða til lykta á hlutlægan hátt ágreining sem upp kann að koma vegna Icesave-málsins. Því miður staðfestir þetta ákvæði frumvarpsins að ríkisstjórn Íslands hefur fallist á vantraust viðsemjenda sinna á íslenskum dómstólum. Og ég spyr hvort Alþingi Íslendinga geti tekið undir slíkt vantraust.

Telur 3. minni hluti að með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár Íslands og meginreglunni um sjálfstæði dómsvaldsins sé löggjafanum óheimilt að framselja dómsvald með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um.

Það framsal dómsvalds sem vikið er að hér að framan og sú breyting sem lagt er til að gerð verði á ákvæðum laga nr. 96/2009, ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á samningunum við Breta og Hollendinga, leiðir til þess að mati 3. minni hluta að torsóttara verði en ella fyrir Ísland að fá forgang á kröfur í bú Landsbanka Íslands við gjaldþrotaskipti.

Ekki verður betur séð en að samkvæmt frumvarpinu og hinum nýju samningum sé mælt svo fyrir að þó svo að reglur um úthlutun úr búi Landsbankans skuli standa óbreyttar sé það fyrirkomulag háð því að það sé í samræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla og að sú niðurstaða sé í samræmi við ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum.

Af dómasafni Hæstaréttar Íslands má ráða að Hæstiréttur hefur túlkað ákvæði um ráðgefandi álit með mjög mismunandi hætti. Af þeim dómsúrlausnum sem fyrir liggja er alls ekki víst að mati margra lögfræðinga að Hæstiréttur Íslands féllist á það að réttinum bæri skylda til þess að leita eftir slíku áliti í því tilviki sem hér um ræðir. Að sama skapi telja lögfræðingar verulegar líkur á að óski Hæstiréttur Íslands eftir slíku áliti frá EFTA-dómstólnum væru talsverðar líkur á því að dómstóllinn mundi ekki veita slíkt álit. Það mat byggist fyrst og fremst á því að meginhlutverk EFTA-dómstólsins er að meta hvort reglur landsréttar, í þessu tilviki íslensks gjaldþrotaréttar, séu í samræmi við reglur EES-réttarins.

Síðar í þessu áliti, sem hér er lagt fram, verður gerð nánari grein fyrir þeim viðamiklu breytingum sem frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir á lögum Alþingis frá í ágúst sl. Þær breytingar munu leiða til þess að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti í haust við ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eru því sem næst að engu orðnir. Til viðbótar þeirri óvissu sem þessi áform munu skapa hafa á síðustu dögum komið fram nýjar upplýsingar sem skilyrðislaust ætti að taka tillit til og kalla á frekari athugun ef vilji er fyrir því að vanda til verka í þessu mikla hagsmunamáli Íslendinga.

Þar ber fyrst að nefna að í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að skuldabyrði íslenska þjóðarbúsins er mun meiri en áður var talið. Þar er um að ræða verulega hækkun frá því sem áður hefur verið nefnt. Athyglisvert er að þessi hækkun verður þrátt fyrir að nú sé talið að meira innheimtist af eignum Landsbanka Íslands en talið var í sumar. Þessar nýju upplýsingar benda til þess að áhætta hvað varðar greiðsluþol hafi aukist mjög frá því sem talið var í sumar og er í rauninni gegnumgangandi athugasemd í öllum þeim fjórum minnihlutaálitum sem komu frá efnahags- og skattanefnd inn til fjárlaganefndar.

Í öðru lagi vil ég nefna ný gögn og þá áhættu sem leiðir af gengisbindingu skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Með lögum nr. 44/2009 var lögum um fjármálafyrirtæki breytt. Breytingin gerði það m.a. að verkum að þrotabú Landsbankans þurfti að umreikna kröfuskrá sína miðað við gildistöku laganna. Kröfur í búið eru því í reynd frystar að krónutölu miðað við gengi krónunnar 22. apríl sl. Krafa tryggingarsjóðs er fryst líkt og aðrar kröfur og nemur krafa sjóðsins í búið 670 milljörðum kr. sem var jafnvirði lána Breta og Hollendinga miðað við gengi krónunnar þennan dag í apríl.

Af þessu leiðir að fari svo að gengi krónunnar veikist frá því sem var í apríl fæst minna upp í kröfur vegna Icesave-reikninganna. Þetta stafar af þeirri staðreynd að lánasamningarnir eru í erlendum myntum en kröfur innstæðutryggingarsjóðsins í krónum og ef gengið veikist fæst minni gjaldeyrir fyrir útgreiddar kröfur. Gengisáhættan lendir þannig öll á innstæðutryggingarsjóðnum og að lokum á ríkissjóði. Í aðdraganda þess að lög nr. 44/2009 voru sett mun skilanefnd Landsbankans þegar í febrúar hafa bent viðskiptaráðuneytinu á að verulegir hagsmunir kynnu að tengjast þessari uppgjörsaðferð og að huga þyrfti rækilega að því hvernig reglum um myntbreytingar í slitaferli bankanna yrði háttað. Upplýsingar þess efnis voru ekki í svokölluðum Icesave-gögnum sem sett voru fram í sumar né heldur var Alþingi upplýst við vinnu sína í sumar um þetta mikilsverða atriði. Þessi vinnubrögð átelur 3. minni hluti fjárlaganefndar.

Jafnframt liggur fyrir að slitastjórnir gömlu bankanna hafa í bréfi 12. nóvember 2009 til efnahags- og skattanefndar og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins lagt til að þeirri óvissu verði eytt sem lýtur að ákvæðum laga um úthlutun í erlendri mynt.

Skemmst er frá því að segja að álitamál tengd gengisáhættu hlutu enga umfjöllun í nefndum Alþingis fyrr en í nú í haust og þá ekki efnislega meðferð. Óneitanlega vekur þetta upp spurningar um aðgang Alþingis að upplýsingum og hvernig það er háð framkvæmdarvaldinu um mat á upplýsingum. Þær upplýsingar sem hér liggja greinilega fyrir, þó svo að þær séu ekki allar komnar í hendur Alþingis, hefðu getað skipt sköpum við meðferð þess frumvarps sem varð að lögum í apríl sl.

Hefði viðskiptanefnd haft þessar upplýsingar um gengisáhættuna undir höndum við meðferð málsins hefði hugsanlega mátt gera viðeigandi breytingar og bregðast við þeim athugasemdum sem komu fram í því. Allt að einu hefði löggjafinn þá haft undir höndum upplýsingar sem hefðu gert honum fært að meta ekki einungis tilætluð áhrif löggjafarinnar heldur einnig hver afleidd áhrif, jaðaráhrif, kynnu að vera og það hlýtur að vera grundvöllur þess að löggjafinn geti tekið upplýsta afstöðu og ákvörðun. Það má raunar segja að slíkt hið sama eigi reyndar við um Icesave-umræðuna í sumar því að þá hefði verið hægt að ræða sérstaklega gengisáhættuna í meðferð þess máls og hugsanlega gera fyrirvara vegna gengisáhættunnar eða breyta viðkomandi lögum.

Því hefur oftlega verið haldið fram, en þó ekki nú við þessa umræðu, var gert í vor og í haust, að ljúka yrði þessu máli sem fyrst því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi ekki endurskoða samstarfsáætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda nema Icesave-málið yrði til lykta leitt á þeim forsendum sem ríkisstjórnin hefur haldið að Alþingi. Í ljósi efnahagslegra hagsmuna Íslands yrði því Alþingi að fallast á kröfur Breta og Hollendinga og það sem fyrst. Þannig var fullyrt við umræður á hinu háa Alþingi að afleiðingar af því að Alþingi hafnaði frumvarpi ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra, sem kom fram fyrst í júní, yrðu þær að samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og afgreiðsla gjaldeyrislána þaðan mundi stranda. Þessu hefur verið mótmælt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og ekki er eins og það sé bara almennur skrifstofumaður sem gerir það, það er framkvæmdastjóri sjóðsins, Strauss-Kahn, sem hefur neitað þessu bréflega, að vísu ekki í bréfi til íslenskra stjórnvalda heldur til Gunnars Sigurðssonar leikstjóra og þetta bréf hefur verið birt í fjölmiðlum og hægt er að nálgast það á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í fyrrgreindu bréfi segir framkvæmdastjóri AGS jafnframt að ástæðurnar fyrir töfum á fyrirgreiðslu sjóðsins megi rekja til afstöðu ríkisstjórna Norðurlandanna. Þegar þessi orð eru vigtuð saman við ýmis orð sem fallið hafa í þessum efnum og við stoppum fyrst við orð Jóns Sigurðssonar, formanns samninganefndar Íslands um hin norrænu lán, þá er þetta mjög undarlega í pottinn er búið.

Hann sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 29. júlí, með leyfi forseta:

„Engin skilyrði voru fyrir því í lánasamningum við Norðurlöndin að Alþingi samþykkti Icesave.“

Hæstv. forsætisráðherra bætti svo um betur skömmu síðar í umræðum á Alþingi og sagði það „alveg skýrt og klárt að norrænu lánin [væru] ekki tengd við Icesave“.

Þetta er mjög undarleg umræða þegar þess er síðan gætt að Norðurlandaþjóðirnar, okkar vinaþjóðir eins og stundum eru kallaðar þegar vel liggur á okkur, hafa skipst í afstöðu sinni í túlkun á þessum ákvæðum. Norðmenn taka heldur undir þetta en Svíar reyna að fara undan í flæmingi en það er í sjálfu sér ekki nýtt.

Það er síðan fremur einkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að horfa upp á það að fjármálaráðherra Íslands skuli undirrita yfirlýsingu með fjármálaráðherrum Hollands og Bretlands sem felur m.a. í sér að síðarnefndu ríkin heimili endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslendinga. Sú sameiginlega yfirlýsing er ótvíræð sönnun þess að Bretar og Hollendingar líta svo á að fjárkúgun þeirra í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi borið fullan árangur. Frá þeirra sjónarmiði virðist því fullnaðarsigur unninn í Icesave-málinu og því óþarft að halda þeim málum lengur í gíslingu. Það eitt ætti að nægja til að færa kjörnum fulltrúum þjóðarinnar heim sanninn um að í viðaukasamningum ríkisstjórnar Íslands við Breta og Hollendinga eru hagsmunir Íslendinga ekki nægilega vel tryggðir.

Af því sem að framan er rakið má ljóst vera að enn og aftur eru að koma fram upplýsingar sem við eðlilegar aðstæður ættu að gefa Alþingi fullt tilefni til að fara gaumgæfilega yfir forsendur þessa frumvarps og málatilbúnaðinn frá hæstv. ríkisstjórn sem hefur haft forræði þessa máls með höndum allt frá 1. febrúar sl. Í þeirri vörn sem Alþingi hefur fram til þessa viljað halda uppi fyrir ríkissjóðinn hefur það verið í þeirri einkennilegu aðstöðu að þurfa sífellt að toga fram upplýsingar og gögn sem varða málið. Smátt og smátt hefur komið í ljós að framganga íslenskra stjórnvalda í málinu hefur verið með miklum ólíkindum og vandséð hvað hefur ráðið í þeim efnum.

Með því frumvarpi sem liggur fyrir eru lagðar til grundvallarbreytingar á þeim lögum sem Alþingi samþykkti í lok ágúst sl. Þegar ákvæði þeirra laga og þau skilyrði sem ríkisábyrgðinni voru sett af Alþingi eru borin saman við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar kemur berlega í ljós að fullyrðingar um að breytingar í viðaukasamningunum séu gerðar til að samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laganna standast enga skoðun ef við lítum örlítið nánar á þetta.

Í fyrsta lagi vil ég nefna Brussel-viðmiðin svokölluðu. Lögin frá í ágúst kváðu á um að lánasamningarnir skyldu túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið, Brussel-viðmiðin, frá 14. nóvember þar sem m.a. var gert ráð fyrir að tekið væri sérstakt tillit til erfiðra og fordæmislausra aðstæðna á Íslandi.

Með frumvarpinu er lagt til að þetta falli brott úr lögunum og þess í stað er sett inn í viðaukasamningana að samningsaðilar líti svo á að við samningagerðina nú hafi verið samið í samræmi við Brussel-viðmiðin. Hvað þýðir þetta þá? Með því að skrifa undir að í samningunum hafi fullt tillit verið tekið til „fordæmislausra aðstæðna á Íslandi“, eins og segir í Brussel-viðmiðunum, mætti halda því fram að ríkisstjórnin sé búin að kasta frá sér öllum möguleikum á að álykta síðar eða á öðrum vettvangi, ef þörf krefur, að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til erfiðra aðstæðna Íslendinga.

Í öðru lagi vil ég koma að efnahagslegu viðmiðunum. Í meðförum Alþingis voru reistar stífar skorður við því að fjárhagsleg byrði af ríkisábyrgðinni yrði of íþyngjandi og var hún miðuð við tiltekna hámarksgreiðslu úr ríkissjóði. Ríkisábyrgðin átti aldrei að vera hærri en sem næmi 6% af vexti landsframleiðslunnar og til þess var vitnað við setningu þessara fyrirvara að þetta væri gert í anda hinna umsömdu Brussel-viðmiða.

Á þessum mikilvægu fyrirvörum við ríkisábyrgðina sem Alþingi varði mestum tíma í að semja sl. sumar hafa verið gerðar veigamiklar breytingar sem aftengja með öllu þær varúðarreglur sem innbyggðar voru í þá efnahagslegu fyrirvara sem Alþingi setti í lög. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ávallt skuli greiða áfallna vexti af höfuðstól Icesave-lánanna sem falla til árið 2016 og að greiðslur skuli halda áfram eftir árið 2024 þar til lánin eru að fullu greidd. Þetta er algjörlega gagnstætt því sem Alþingi ákvað sl. sumar. Því er augljóst að grundvallarbreyting hefur verið gerð á þeim efnahagslegu fyrirvörum Icesave-ríkisábyrgðarinnar sem Alþingi leiddi í lög — hafa verið aftengdir algjörlega.

Í þriðja lagi vil ég nefna atriðin sem lúta að skilyrðislausri og ótímabundinni ríkisábyrgð. Í fyrirvörum Alþingis var sett sólarlagsákvæði á ríkisábyrgðina. Kveðið var á um að ríkisábyrgðin stæði ekki lengur en til 5. júní 2024 án tillits til þess hvort fjárhæðin vegna Icesave-lánanna væri þá að fullu greidd. Alþingi eitt gat breytt þeirri ákvörðun. Hin skilyrta ábyrgð ríkisins var af Alþingi talin eðlileg og rökrétt með hliðsjón af því að íslenska ríkið hefur ekki viðurkennt skuldbindinguna sjálfa auk þess sem fjárhæð hennar liggur ekki fyrir. Skilyrðislaus og ótímabundin ríkisábyrgð við þessar aðstæður er ótæk, hvort tveggja lögfræðilega og ekki síður í ljósi efnahagslegrar óvissu.

Fyrirvari Alþingis um að ríkisábyrgð skuli aðeins gilda til ársins 2024 fellur með þessu frumvarpi einfaldlega niður í heild sinni. Ekkert stendur eftir af innihaldi eða markmiðum hans í núverandi viðaukasamningum og áhætta Íslands er því miklu meiri samkvæmt þeim en samkvæmt gildandi fyrirvörum. Ísland er því samkvæmt viðaukasamningunum t.d. ekki varið fyrir því ef svo illa færi og svo ólíklega færi að neyðarlögin stæðust ekki umfjöllun dómstóla og því er hætta á að Icesave-lánin verði eilífðarklafi á íslensku þjóðinni áratugi fram í tímann ef við reisum ekki skorður við því að svo ólíklega færi að neyðarlögin stæðust ekki umfjöllun dómstóla.

Í fjórða lagi vil ég nefna rétt til að láta reyna á greiðsluskylduna, hann fellur einfaldlega niður. Það var ítrekað í lögum Alþingis að Ísland hefði ekki fallið frá rétti til málsóknar svo úr því fengist skorið hvort Íslendingum bæri að greiða lágmarkstrygginguna vegna Icesave-innstæðnanna. Samkvæmt samningunum mun einungis unnt að óska eftir viðræðum við samningsaðila sem hafa margsýnt í verki þá staðföstu ætlan sína að fá hverja krónu borgaða til fulls. Auk þessa er ákvæði frumvarpsins um að ekkert í lögunum feli í sér viðurkenningu á ábyrgð Íslands í besta falli haldlítið þegar fyrir liggur undirrituð yfirlýsing í formi lögformlegra lánasamninga um að Ísland taki samt sem áður á sig þessa ábyrgð. Þetta rekst hvað á annars horn en með þessu ákvæði hefur fyrirvari Alþingis sem það setti í ágúst í rauninni verið felldur niður.

Í fimmta lagi vil ég nefna afdrifarík samningsmistök. Í samningum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að greiðslur vegna eigna úr búi Landsbankans gengju að jöfnu til innstæðutryggingarsjóðs, Bretlands og Hollands, þessara þriggja aðila. Þessu var með lögum breytt til samræmis við íslensk lög með ákvæði sem hefur verið kallað Ragnars Halls-fyrirvarinn. Með því ákvæði voru leiðrétt einhver afdrifaríkustu mistök íslenskra stjórnvalda við fyrri samningsgerð, sem fyrirsjáanlega hefðu getað kostað íslenska skattgreiðendur stórar fjárhæðir. Viðaukasamningarnir tiltaka ekki að Bretar og Hollendingar „fallist á þetta atriði“ heldur aðeins að þeim sé „kunnugt um að tryggingarsjóðurinn kunni að láta reyna á“ rétthæð krafna sinna fyrir dómstólum.

Réttarstaða Íslands er stórlega skert í viðaukasamningunum miðað við það sem var í fyrirvörum Alþingis. Þannig getur Ragnars Halls-fyrirvarinn samkvæmt viðaukasamningunum aðeins orðið gildur ef til viðbótar niðurstöðu íslenskra dómstóla liggur einnig fyrir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem sé í samræmi við niðurstöðu íslensku dómstólanna. Fyrirvari Alþingis að þessu leytinu til hefur því verið stórlega skertur og markmið hans falla í raun niður. Þetta er dæmalaust í ljósi þess hve þetta ákvæði var mikið rætt, mikið skoðað og ígrundað í tengslum við afgreiðslu málsins í sumar.

Sjötta atriðið sem ég vil nefna lýtur að úthlutunaraðferðinni. Með þeim breytingum sem samþykktar voru með lögunum í haust var innstæðutryggingarsjóðnum gert skylt að láta á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gengju við úthlutun framar öðrum vegna sömu innstæðu. Yrði niðurstaðan á þann veg bæri málsaðilum að taka upp viðræður og leiddu þær ekki til niðurstöðu gæti Alþingi takmarkað ríkisábyrgðina.

Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að ríkisábyrgðin takmarkist við að úthlutun og uppgjör á eignum Landsbankans fari fram samkvæmt íslenskum lögum eins og þau verða skýrð af dómstólum landsins. Látið er duga, eins og ég nefndi áðan, að setja inn í viðaukasamninginn við Breta að þeim sé kunnugt um að innstæðutryggingarsjóðurinn kunni að leita úrskurðar um hvort kröfur hans gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána. Með vísan til þessara ákvæða verður ekki annað séð en að ekki sé neitt lögfræðilegt hald í þessu ákvæði viðaukasamningsins að þessu leyti og því fyrirvarinn orðinn marklítill gagnvart þeim bresku.

Í sjöunda lagi og síðasta atriðið sem lýtur að samanburði laganna og þess frumvarps sem hér liggur fyrir vil ég nefna gildi fyrirvaranna. Fyrirvarar þeir og skilyrði sem voru sett í lögin um ríkisábyrgðina voru þess eðlis að Alþingi taldi tryggt að þau næðu fram þeim tilætlaða árangri að reisa skorður við ríkisábyrgðinni umbeðinni sem var skilyrðislaus og ótímabundin. Þetta var leitt í lög með þeim hætti að áður en ríkisábyrgðin yrði veitt var gert að skilyrði að hollenskum og breskum stjórnvöldum yrðu kynntir fyrirvararnir og þau féllust á þá með formlegum hætti.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu getur íslenska ríkið ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þótt þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið beri ekki ábyrgð á innstæðum. Bretar og Hollendingar eru ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave-ábyrgðina verði þetta frumvarp að lögum nema Hollendingar og Bretar samþykki það.

Það hlýtur að vera einsdæmi að nokkur ríkisstjórn frjáls og fullvalda ríkis skuli vera reiðubúin að kyngja því að úrskurður eða dómur dómstóls í ágreiningsmáli hafi ekkert gildi fyrir málsaðilana annað en það að þeir þurfi að tala saman.

Það er auk þess mikið álitamál hvort ríkisstjórn Íslands sé heimilt að lögum, þar á meðal samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, að afsala íslenska ríkinu svo mikilsverðum hagsmunum eins og ríkisstjórnin hefur í hyggju með því frumvarpi og samningum sem hún hefur óskað staðfestingar á.

Lögin frá í ágúst fólu í sér að Alþingi setti ríkisábyrgðinni tiltekin skýrt afmörkuð skilyrði og setti ákveðna fyrirvara um það að ef mál gengju ekki svo fram sem ætlað yrði væri Alþingi heimilt að afturkalla umbeðna ríkisábyrgð.

Í 1. gr. þessa frumvarps segir að sú heimild fjármálaráðherra til að veita innstæðutryggingarsjóði ríkisábyrgð muni ekki takmarkast af öðrum ákvæðum en 1. gr. Þar kemur fram að ábyrgðin eigi að vera í samræmi við lánasamningana og ábyrgðin eigi að ganga í gildi 5. júní 2016, og hún muni einvörðungu ráðast af ákvæðum lánasamninganna.

Það liggur fyrir eftir þá yfirferð sem hér var að framan að það eru fjölmörg ákvæði viðaukasamninganna sem fela í sér alvarleg frávik frá mikilvægum fyrirvörum Alþingis og eru með öllu óásættanleg fyrir Íslendinga að mati 3. minni hluta. Samandregið má lýsa þessu svo:

Viðaukasamningarnir fela í sér að hinn efnahagslegi fyrirvari um greiðsluhámark er nánast að engu orðinn. Samkvæmt fyrirvörum Alþingis átti 6% greiðsluþakið jafnt við um vaxtagreiðslur og greiðslur af höfuðstól. Verði þetta frumvarp að lögum skulu vextir hins vegar greiðast að fullu óháð efnahagslegu ástandi á Íslandi og 6% greiðsluþakið á einungis við um höfuðstólsgreiðslur.

Heimild til að leita úrlausnar dómstóla er mun veikari í viðaukasamningunum en í gildandi lögum. Hafa verður í huga þá mikilvægu staðreynd að umdæmi alls ágreinings í tengslum við Icesave-samningana er ávallt í breskri lögsögu ef Alþingi staðfestir óbreytt það frumvarp sem hér er til meðferðar. Með viðaukasamningunum hafa Bretar og Hollendingar í raun komið í veg fyrir að Íslendingar geti breytt skilyrðum Icesave-samninganna með því að leita eftir niðurstöðu dómstóla.

Með viðaukasamningunum getur svokallaður Ragnars Halls-fyrirvari aðeins orðið gildur ef ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er í samræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla. Í þessum atriðum felst yfirlýsing um að Bretar og Hollendingar viðurkenni ekki lögsögu íslenskra dómstóla gagnvart lögspurningum sem alfarið lúta að íslenskum lögum.

Fyrirvari Alþingis um að ríkisábyrgðin skuli aðeins gilda til ársins 2024 fellur óbættur hjá garði. Í gildandi fyrirvörum felst réttur til að ríkisábyrgðin falli einhliða niður ef viðræður um framlengingu hennar bera ekki árangur. Þessi vörn sem er í samræmi við Brussel-viðmiðin er nú horfin. Í stað þessara mikilvægu fyrirvara Alþingis eru í viðaukasamningum ríkisstjórnarinnar ákvæði um að greiðslur Íslands skuli eftir 2024 framlengjast sjálfkrafa um fimm ár í senn, á 5,5% vöxtum allan tímann, þar til lánin eru að fullu greidd.

Ég vil enn og aftur ítreka að það þarf einnig að hafa í huga þá hættu sem vissulega er uppi, en að sjálfsögðu vonum við öll að komi ekki til, sem liggur í því ef neyðarlögin standast ekki. Ef svo ólíklega og ef svo illa færi er alveg ljóst að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir, ef það verður samþykkt óbreytt, er verið í því ljósi að leggja eilífðarklafa á íslensku þjóðina tugi ára inn í framtíðina. Við skulum vona svo sannarlega að til þess þurfi ekki að koma.

Eins og áður sagði og margoft hefur komið við umræðuna staðfesti Alþingi Íslendinga lög um ríkisábyrgðina í lok ágúst og forseti Íslands staðfesti þau með yfirlýsingu 2. september sl. Það var gert með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Ég ætla að gera þetta í örfáum orðum að umtalsefni.

Í kjölfar þess að Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið með breytingum var það sent forseta Íslands til staðfestingar lögum samkvæmt. Áður en forsetinn staðfesti lögin með undirritun sinni voru honum afhentar undirskriftir 10.000 einstaklinga sem skoruðu á hann að synja lögunum staðfestingar með vísan til 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar forsetinn staðfesti lög nr. 96/2009 2. september sl. sendi hann frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem hann rökstuddi ákvörðun sína.

Yfirlýsingin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í lögum um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti þann 28. ágúst 2009, eru margvíslegir fyrirvarar sem settir voru í hið upphaflega frumvarp.

Fyrirvararnir eru niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.

Samstaða hefur náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi samþykkti þá með afgerandi hætti. Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um.

Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið lætur forseti í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna. Að undanförnu hefur okkur birst á margvíslegan hátt að Íslendingar eiga fjölþætt sóknarfæri, að auðlindir landsins, hæfni og þekking þjóðarinnar geti orðið grundvöllur að traustu og réttlátu hagkerfi. Þau sóknarfæri þarf nú að nýta.

Bessastöðum, 2. september 2009,

Ólafur Ragnar Grímsson.“

Í yfirlýsingu sinni tiltekur forsetinn sérstaklega að fyrirvararnir taki mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð, auk þess sem þeir séu niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis, byggðir á tillögum og hugmyndum sérfræðinga og áhugafólks. Af þeirri ástæðu hafi hann ákveðið að staðfesta lögin.

Þessi yfirlýsing forsetans verður ekki skilin öðruvísi en svo að með hinni sérstöku árituðu tilvísun til fyrirvara Alþingis hafi forsetinn lagt áherslu á mikilvægi þeirra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og að samþykki fyrirvaranna hafi verið forsenda þess að forseti Íslands staðfesti lögin.

Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar hafa þeir fyrirvarar Alþingis sem forseti Íslands taldi svo mikilvæga þegar hann staðfesti hin fyrri Icesave-lög, og voru forsenda staðfestingar hans, verið nánast að engu gerðir, eins og ég hef rakið í máli mínu.

Verði frumvarpið samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi, eins og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gert verði, telur 3. minni hluti einsýnt að forseti lýðveldisins muni, í ljósi fyrri yfirlýsingar, synja lögunum staðfestingar, með vísan til hennar og 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Synji forseti lögunum staðfestingar er ljóst að Icesave-málið mun ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Virðulegi forseti. Ég mun nú draga saman í nokkrum orðum afstöðu 3. minni hluta fjárlaganefndar til þessa máls.

Niðurstaða samanburðar á þeim lögum sem Alþingi setti í haust eftir margra vikna vandaða og góða vinnu og því frumvarpi sem ríkisstjórnin leggur nú fram er afdráttarlaus. Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir að mati 3. minni hluta ásamt því að þeir samningar sem frumvarp þetta byggist á stríða gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd og má því ljóst vera að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki undir neinum kringumstæðum verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.

Alvarlegast er þó að viðaukasamningarnir gera ráð fyrir að því litla sem eftir er og eftir stendur af fyrirvörum þeim sem Alþingi hefur þegar sett og eru bundnir í lög, sé stungið, að vísu með tilheyrandi frávikum á orðalagi, inn í viðaukasamningana og þannig verða fyrirvararnir ekki lengur virkir í sjálfstæðum lögum frá Alþingi. Að okkar mati hefur Bretum og Hollendingum tekist með þessu verklagi að knýja ríkisstjórn Íslands til þess að leggja fram breytingar á settum lögum, breytingar sem Alþingi er nú gert að staðfesta.

Álit 3. minni hluta er að hann telur að frumvarp þetta sé í mikilli andstöðu við gildandi lög sem samþykkt voru 28. ágúst sl. Með þeirri lagasetningu reyndi Alþingi að verja hagsmuni Íslendinga og verja framtíðarkynslóðir landsins. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur nú haft þennan vilja Alþingis að engu með því að leggja til að frumvarp þetta verði samþykkt án breytinga. Ekki kemur ekki til greina að áliti 3. minni hluta að fallast á frumvarp sem gengur svo freklega gegn vilja Alþingis og hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Við áskiljum okkur rétt til þess að leggja fram eða styðja aðrar tillögur sem eru til þess fallnar að bæta málið á síðari stigum.