Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 17:18:10 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir merkilegt að heyra að enginn erlendur aðili hafi verið fenginn til að gefa álit sitt heldur hafi verið einhvers konar miðilsfundur í gangi við einhvern útlending í gegnum síma sem mér finnst mjög einkennilegt í svona stóru máli.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður áttaði sig alveg á spurningunni varðandi dómstólana. Ég var einfaldlega að spyrja að því: Er einhver munur á því að láta dæma sig til að borga 700 milljarða eða bara borga þá, eins og við ætlum að gera núna? Er einhver munur á því? Erum við ekki alltaf að borga sömu upphæðina? En hann þarf ekki að svara því.

Hins vegar langar mig að spyrja hann einnar spurningar enn: Má líta svo á að samninganefnd íslenska ríkisins eða ríkisstjórnin og samninganefndin fyrir hennar hönd hafi farið með samþykkt Alþingis frá því í ágúst sem gagntilboð til Breta og Hollendinga? Var litið svo á að sú lagasetning sem hér var gerð hafi verið samningstilboð? Má líta svo á sem ríkisstjórnin hafi túlkað það þannig?