Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 17:28:39 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar sem eru fyllilega tímabærar og þarft að ræða. Því miður verð ég að taka það fram í upphafi svars míns að lítill vilji til breytinga virðist vera hjá stjórnarmeirihlutanum gagnvart þessu frumvarpi og aðspurðir hafa stjórnarliðar svarað því þannig og gefið hálfpartinn í skyn — ég er ekki að bera meirihlutafulltrúum í fjárlaganefndinni þetta endilega á brýn — stjórnarliðar hafa gefið í skyn að það sé annaðhvort þetta eða ekki nokkur skapaður hlutur annað, það sé allt í steik.

Ég bind vissulega vonir við að við getum rætt þó ekki væri nema ákvæði eins og dómstólaframsalið eða framsalið á dómsvaldinu, þó ekki væri nema að ræða möguleika á því að reisa einhverjar girðingar við því ef íslenska þjóðin verður fyrir áföllum. Ég trúi því ekki að menn vilji ekki taka þannig á hlutum að við eigum einhvern möguleika ef illa fer, sem ég vil undirstrika að ég hef ekki trú á að verði, en í ljósi sögunnar er mjög brýnt fyrir þá þjóð sem býr á þessum kletti norður í Atlantshafi að hafa alltaf vaðið fyrir neðan sig. Saga þjóðarinnar segir okkur það að þannig eigum við að vinna. Við þurfum að hafa fyrirvara gildari en er í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þá er ég að horfa til þess með einhverjum hætti að geta samið um gildistíma ríkisábyrgðanna, sveigt til greiðslur með öðrum hætti en hérna liggur fyrir og fleiri atriði mætti tiltaka. En í vinnu okkar í fjárlaganefndinni hefur því miður ekki gefist tími til að fara í gegnum þetta eins og ég kom að í framsöguræðu minni. Ég tel að við hefðum átt ágæta möguleika á því og í ljósi ágætrar verkstjórnar hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í sumar en hún er ekki með sama hætti við vinnslu þessa frumvarps, því miður.