Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 17:58:29 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um afstöðu mína til þess hvort sanngjarnt sé að Íslendingar greiði vexti frá 1. janúar 2008 með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Helst vildi ég að Íslendingar borguðu enga vexti af þessum ósköpum. Ástæðan fyrir því að farið er að greiða vexti af þessu láni frá 1. janúar 2008 er samningsatriði milli deiluaðila, Íslendinga, Breta og Hollendinga, og dagsetningin ræðst m.a. af yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar frá því í fyrra um að menn mundu borga þessa skuld. (Gripið fram í.) Bretar og Hollendingar tóku lán og greiddu sínum innstæðueigendum (Gripið fram í.) úti í trausti þeirra yfirlýsinga sem þá voru gefnar af mjög ótrúverðugri ríkisstjórn, því miður, sem missti allt niður um sig á þeim tíma. (REÁ: Byrjar þetta nú aftur, æ, æ, æ, æ.) Í trausti þessara yfirlýsinga var þetta lán tekið og þess vegna var samið um að vaxtagreiðslur skyldu hefjast á þessum tíma.