Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 17:59:24 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að leiðrétta þingmanninn stendur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009, sem var ákveðið hér fyrr í haust, að ábyrgð taki til höfuðstóls lánanna. Síðan segir, með leyfi forseta: „og gildir til 5. júní 2024“. (REÁ: 8. júlí.) — Það stendur í lögunum og ágætt er að hafa það til hliðsjónar þegar menn halda öðru fram hér í ræðustól.

Hv. þingmaður hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að þetta mál hafi verið útrætt, meira að segja áður en það kom til Alþingis. Þingmenn áttu bara að samþykkja það óséð. Meðan við vorum að berjast í fjárlaganefnd Alþingis við að koma öllum upplýsingum til almennings fengum við þau skilaboð af hafi að við ættum að hætta þessari vitleysu og samþykkja samningana. (Gripið fram í.) Nú kemur sami þingmaður fram og segir að það sé jákvætt að búið sé að tryggja að eigur Íslendinga verði áfram í eigu Íslendinga og verði ekki veðsettar. Það er ekki stjórnarmeirihlutanum eða hv. þingmanni að þakka að þær eigur séu nú tryggðar. Það er minni hlutanum að þakka og þeirri baráttu sem minni hlutinn hefur háð hér frá því snemma sumars.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann beindi þeirri spurningu til okkar þingmanna úti í sal hvað menn ættu að gera ef Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörunum. (Forseti hringir.) Það stendur skýrt í lögunum. (Forseti hringir.) Ef þeir hafna fellur ríkisábyrgðin úr gildi.