Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 18:53:43 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Það er rétt sem fram kom hjá þingmanninum að þetta mál er líklega eitthvert mesta hagsmunamál íslenskrar þjóðar á síðari tímum. Það er líka ljóst að þau skref sem hér verða tekin munu marka og hafa áhrif á hag komandi kynslóða, hag barnanna á Íslandi sem erfa munu landið, og það er sorglegt ef Alþingi ætlar að verða til þess, með ákvörðun í þessu mjög svo umdeilda máli, að leggja þessar klyfjar sem blasa við á framtíðina.

Hér hefur verið rætt töluvert um svokölluð Brussel-viðmið og þau eiga sér langa sögu. Það er að verða ár síðan samið var um þau og margt hefur breyst á því ári, gjörbreyst. Málið sem við erum með í dag er allt annars eðlis en það mál sem við vorum með fyrir ári síðan, ekki síst vegna þess að umhverfið sem Íslendingar búa við er með allt öðrum hætti, er allt annars eðlis en það var þá. Áhrifin af hruninu og afleiðingar þess eru miklu stærri en nokkurn óraði fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson hvort hann telji að sá samningur sem nú liggur fyrir þinginu sé í anda hinna umsömdu Brussel-viðmiða. Ástæðan fyrir því að ég spyr er að með þeim var lagður grunnur að því hvernig semja skyldi um þetta mál. Ég skil þessi viðmið ekki þannig að okkur beri skylda til að semja, hins vegar voru það markmið sem sett voru fram, og því langar mig að vita hvort hann með sína reynslu telji að þessi samningur (Forseti hringir.) sé í samræmi við hin umsömdu Brussel-viðmið.