Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 19:04:56 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi í lokin að það eru einmitt vextirnir sem vega þyngst og það hefur oft gleymst í umræðunni. Núna t.d. erum við búin að fara aftur í gegnum umræðu frá því í vor þar sem því var haldið fram að 90% fáist upp í kröfuna vegna væntrar sölu á eignum þrotabús Landsbankans og þar af leiðandi verði byrðin kannski ekki svo mikil ef það gengi eftir.

Þá gleymast vextirnir og þeir verða í kringum 300 milljarðar a.m.k. og lenda alltaf á íslenskum skattgreiðendum sama hversu mikið innheimtist, og það er sú tala sem verið er að vísa í, það eru vextirnir, þegar við segjum t.d. að aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað í skattamálum geri ekki annað en að í besta falli náist u.þ.b. upp í þá vexti sem gert er ráð fyrir að greiða árlega og óhjákvæmilega miðað við þessa samninga.

Þetta með 90 prósentin er eins og svo margt annað í þessu einhvers konar sjónhverfing. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að ýmsar fullyrðingar stjórnarliða að undanförnu, til að mynda það að halda því fram að við þurfum ekki endilega að borga, Alþingi geti afturkallað ábyrgðina ef svo ber undir eftir einhver ár. Eins vangaveltur um að við munum líklega geta fengið einhverja styrki ef við göngum í Evrópusambandið — ólíkt öllum öðrum ríkjum. Írar hafa ekki fengið slíka styrki og ekki Lettar, Ungverjar eða önnur Evrópusambandsríki sem hafa verið í vandræðum, en látið er í veðri vaka að við gætum fengið einhverja styrki sem gætu að einhverju leyti létt skuldabyrðina.

Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að þetta sé í rauninni allt hluti af sjónhverfingum og tilraunum til þess að drepa málinu á dreif, færa það frá hinum eiginlegu staðreyndum málsins?