Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 19:46:08 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt það mikilvægasta mál sem þessi þjóð hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Það liggur fyrir að þjóðin hefur mjög takmarkaða möguleika á að fylgjast með þeim merkilegu og góðu umræðum sem fram fara í þingsölum um þetta merkilega og mikilvæga mál. Við höfum þann sið í þessu landi að þegar stóratburðir eru, hvort sem um er að ræða náttúruhamfarir eða aðra stóra viðburði í samfélagi okkar, er þjóðinni gert kleift að fylgjast með því í gegnum fjölmiðla hvað fram fer. Ég vil því gera það að tillögu minni, virðulegi forseti, að forsætisnefnd beiti sér fyrir því að Ríkisútvarpinu verði falið að útvarpa þessum umræðum frá þinginu þannig að þjóðin hafi möguleika á að kynna sér málið til hlítar og fylgjast með þeim mikilvægu umræðum sem fara fram um það.