Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 20:30:01 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær áhyggjur sem fram komu hér hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Ég held reyndar að við gætum verið að horfa fram á mun meiri greiðslur eða til lengri tíma en þau 15–20 ár sem hann nefndi. Við verðum að geta búist við að allt fari á versta veg, því miður verðum við að gera það þó svo að við viljum það ekki. En fari allt á versta veg erum við örugglega að borga þetta á mun lengri tíma sem mun á endanum vitanlega þýða miklu hærri greiðslur en nokkurn óraði fyrir, fyrir utan allt annað sem við þurfum að greiða. Það er alveg ljóst að við þurfum að afla meiri gjaldeyris ef við greiðum í erlendri mynt. Það kemur ágætlega fram í áliti hv. þm. Þórs Saaris, þar sem hann ber saman hvernig okkur hefur gengið að afla erlendra tekna eða gjaldeyris til að borga af t.d. lánum og öðru, að þá virðist þetta vera óraunhæft sem lagt er upp með.

Ég tek líka undir það að búið er að tala um alls konar grýlur sem ætti að ryðja úr vegi til að styrkja gengið en hins vegar hefur það gengið mjög brösuglega. Hvað á að gera? Ég heyrði gott ráð um daginn sem ég hef hugsað mikið um og held að væri býsna skynsamlegt, það er að aflétta þessum gjaldeyrishöftum, væntanlega mundi gengið eitthvað síga, en aftengja lánskjaravísitöluna um leið þannig að það mundi þá ekki fara beint út í verðlagið ef slíkt gerðist, þó að það hún væri aftengd jafnvel tímabundið, og senda ákveðin skilaboð með því og þá mundi gengið væntanlega styrkjast fljótlega eftir það. Ég sé alla vega ekki að þær aðferðir sem notaðar eru í dag séu að virka.