Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:09:51 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:09]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Jú, ég verð að taka undir með hv. þingmanni varðandi þetta. Hér er svo mikið í húfi að við höfum ekki efni á að kosta ekki öllu til, það er einfaldlega þannig.

Ég heyrði því fleygt í sumar að Lee Buchheit hefði þótt of dýr í vor þegar verið var að semja og þess vegna hefði hann ekki verið notaður í samninganefndina. Ég veit svo sem ekki hvað er til í því en ég held að enginn maður geti verið of dýr til að landa þessu máli á eins farsælan hátt og hægt er. Varðandi það að æðstu valdhafar Íslands landi samningnum á æðsta pólitíska stigi held ég að hv. þingmaður beri meira traust til þeirra en ég. Ég er ekki viss um að það hefði verið farsælt.

Eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á í sumar hefðu þingmenn og þingið þurft að fara í gagngera kynningarherferð á þessu máli um Evrópu. Ég hef rekið mig á að það er mikil vanþekking meðal stjórnmálamanna annarra landa í Evrópu á þessu máli. Alls staðar þar sem íslenskir þingmenn hafa komið og kynnt málstað okkar kemur fólk af fjöllum og samúðin eykst eftir því sem við skýrum málið betur út. Það hefur verið öðrum þjóðum lokuð bók, held ég.