Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:18:45 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Ég get um margt verið sammála því sem hún var að segja. Ég vil tæpa hér á einhverju, ég vil fyrst koma að þessu með útvarpsútsendingu hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þjóðin er búin að fá sig fullsadda af þessu máli, og svo er um okkur mörg hér í þinginu, en ég hef meiri trú á þreki þjóðarinnar en svo að þegar hún gerir sér grein fyrir alvarleika málsins vilji hún standa afskiptalaus hjá. Enginn ætti að vera sér betur vitandi um það en fulltrúar Hreyfingarinnar sem sögðu að þjóðin væri komin á þing þegar þau voru kosin á þing. Ég veit ekki fyrir hverja við hin komum. (Gripið fram í.)

Ég tek undir það með henni að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft trú á sjálfri sér í þessu verkefni sem hún er að fást við. Það endurspeglast svo sem í fleiri málum en bara þessu. Hún var athyglisverð, þessi nálgun hennar á það að hér samþykkti Alþingi Íslendinga lög í lok ágúst sem hæstv. ríkisstjórn kaus að bera undir aðrar þjóðir og koma síðan til baka með algjöra útvötnun á því sem Alþingi hafði tekið hér ákvörðun um og lagt línurnar með. Þetta eru auðvitað fádæma vinnubrögð, alveg forkastanleg og ber að fordæma.

Mig langar að spyrja þingmanninn um annað atriði sem hún minntist á í ræðu sinni, þetta með auðlindirnar og það að margar af fátækustu þjóðum heims væru ríkar af auðlindum sem þær næðu ekki að nýta og næðu ekki að borga skuldir sínar. Mér finnst þetta áhugaverður punktur í ljósi stöðu okkar Íslendinga og í ljósi þess að hér er nú talað um að það sé einmitt nýting náttúruauðlinda sem eigi að bjarga þessari þjóð og gefa okkur forskot (Forseti hringir.) umfram margar aðrar þjóðir til að ná okkur á lappirnar. Hvaða ógnir sér hún í þessum orðum (Forseti hringir.) sínum?