Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:21:02 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hér hef ég áhyggjur af auðlindunum okkar, það er rétt. Ég þekki vel til í Suður-Ameríku sem er eins og rjúkandi rúst eftir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, lönd eins og Venesúela sem er ríkt af olíu. Ég hef kynnt mér málin í Miðausturlöndum þar sem olía er líka, þar sem almenningur býr við kröpp kjör. Þessi lönd hafa oft orðið fyrir barðinu á, ég verð að segja sérstaklega Bandaríkjamönnum, þau hafa jafnvel leigt götuleikhús til að skipta um ríkisstjórnir og gera hallarbyltingar. Í Afríku er kannski nærtækt dæmi Suður-Afríka sem er byggð á demöntum en er samt einhverra hluta vegna ein af fátækustu þjóðum í heimi.

Hér höfum við náttúrlega fiskinn og við höfum mikla orku og svo er ein auðlind sem við gleymum oft, vatnið sem verður held ég ein af aðalauðlindum þessarar aldar. Hverjir ásælast þetta sérstaklega veit ég kannski ekki en staðreyndin er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hérna núna. Ég sef ekki róleg yfir því og mér líst sífellt verr á Evrópusambandið, eigum við ekki bara að orða það þannig?