Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:45:39 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson eflaust að vitna í orð mín í andsvari við að ég held formann Sjálfstæðisflokksins þar sem ég lagði á það áherslu að það væru meðmæli með þeim samningi sem þá var kynntur að fjármálaráðherra sem hafði manna ákveðnast barist gegn Icesave-samningnum hefði sagt að þetta væri líklega ásættanleg niðurstaða. (Gripið fram í: Ja, hann …) Vissulega hefur þetta tekið breytingum og til batnaðar, til að mynda með góðri vinnu Alþingis og með þeim efnahagslegu fyrirvörum sem ræddir voru í áliti efnahags- og skattanefndar.

Ég sagði þá og ítreka það hér aftur að það eru meðmæli með mikilvægi þess að við göngum frá þessu máli að Steingrímur J. Sigfússon, eitt sinn í stjórnarandstöðu og núverandi fjármálaráðherra, hafi barist fyrir því að klára það.