Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:47:46 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:47]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér ekki fjallað efnislega um það hvort ég tel að starfsmenn Seðlabankans hafi verið upplýstir eða meðvitaðir um gengisáhættuna. Ég er upplýstur og meðvitaður um gengisáhættuna. Ég er búinn að skoða þetta mál ofan í kjölinn. Eins og ég lýsti í ræðu minni sé ég þetta mál kristaltært, lykilvandamálið varðandi þessa gengisáhættu er að við erum með íslenska krónu, örmynt, í alþjóðlegu hagkerfi, mynt sem við erum í mesta basli við að nota, alveg sama hvort við erum að reka fyrirtæki eða slíta bönkum. Það er kristaltæra vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Það eigum við að leysa og það eigum við að horfa á. Til lengri tíma litið eigum við að koma okkur út úr þessari krónu og inn í stöðuga mynt, þá getur vel verið að við getum leyst þetta Icesave-mál á miklu skikkanlegri máta.