Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:59:25 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi langar mig aðeins að fara yfir hvernig málið hefur þróast frá því að það kom inn í þingið. Það gerðist þannig að 1. júní var skrifað undir samning, ömurlegan samning, og þegar það var kynnt fyrir þinginu var það gert með stuttri kynningu. Formaður samninganefndarinnar kom á fund þingflokkanna og var með mjög lauslega stutta kynningu, 10 mínútur eða svo, í algjörum trúnaði. Það var virt, en síðan þegar hann gekk á milli herbergja talaði hæstv. forsætisráðherra í viðtali í útvarpinu um það hvernig þessir samningar væru og hver staðan væri á þeim. Þannig var nú upphaf þessa máls. Síðan þegar málið kom inn í þingið lýstu margir stjórnarliðar yfir stuðningi við það á fyrsta degi, þetta væri bara hið besta mál, þetta væri viðunandi samningur og að það væri bara mjög æskilegt og skynsamlegt að ganga frá þessu. Þar á meðal kom hæstv. forsætisráðherra og lýsti því yfir að enginn þingmaður Samfylkingarinnar gerði neinar athugasemdir við frumvarpið. Hæstv. utanríkisráðherra gerði það einnig. Hann sagði að þetta væri alveg klárt og klippt, það væri ekki vandamál af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar að samþykkja þetta. Og af því að ég nefni hæstv. forsætisráðherra vil ég vekja athygli á því að í allri þessari umræðu í dag hefur enginn hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar séð sér fært að vera hér í þessum sal, enginn, ekki nokkur einasti.

Hæstv. fjármálaráðherra er sá eini sem hefur verið hér í dag og varð að fara fyrr í kvöld. Ég virði hann fyrir það og ekki er við hann að sakast vegna þess. Hann er eini hæstv. ráðherrann sem hefur séð sér fært að taka þátt og hlusta á umræðurnar í kvöld. Það er dálítið umhugsunarefni líka í ljósi þess, eins og margoft hefur komið fram í kvöld og í dag, að þegar ákveðið var að halda kvöldfund greiddu margir þessara hæstv. ráðherra atkvæði með því, það væri mjög æskilegt.

Þegar samningurinn kom inn í þingið reyndi ríkisstjórnin í margar vikur að koma málinu í gegn. Hæstv. forsætisráðherra stappaði niður löppunum eins og óþekkur krakki og reyndi margsinnis að koma málinu hér í gegn. Síðan gerðist það að þingið tók völdin af framkvæmdarvaldinu. Ríkisstjórnin gafst upp á því að koma málinu hér í gegn því að hún hafði ekki meiri hluta fyrir því á Alþingi. Ef ríkisstjórnin hefði komið með málið inn í þingið hefði það verið fellt og því gerði hún sér grein fyrir og gafst upp.

Í framhaldi af því var málið tekið til fjárlaganefndar og þar myndaðist breið pólitísk samstaða um að reyna að lenda því þannig að hagur þjóðarinnar og framtíð hennar í landinu yrði varin. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var sú að settir voru tíu fyrirvarar við það frumvarp sem fyrst kom inn í þingið. Við fengum mikinn og góðan stuðning hér í þinginu og voru þeir samþykktir af meginþorra alþingismanna. Breið pólitísk samstaða var um þessa niðurstöðu.

Það sem gerðist í framhaldinu urðu mér mikil vonbrigði vegna þess að hv. fjárlaganefnd lagði mikla vinnu á sig í sumar við að smíða þessa fyrirvara til að tryggja hag þjóðarinnar fyrir framtíðina. Það hugsaði ekki neinn stjórnarandstæðingur um að reyna að fella einhverja ríkisstjórn eða þar fram eftir götunum, enda hafa margir stjórnarandstöðuþingmenn, þar á meðal ég, komið hér upp í ræðustól Alþingis og sagt: Ef þetta mál er ríkisstjórninni ofviða þarf hún ekki að springa út af því, það er algjörlega ónauðsynlegt. Hins vegar hefur hæstv. forsætisráðherra svo margoft komið fram í fjölmiðlum og hvar og hvenær sem er og hótað ríkisstjórnarslitum ef óþekki hópurinn í Vinstri grænum hlýði ekki því sem hún segir. Hún hafði svo sem árangur sem erfiði, hún náði nú að hrekja einn hæstv. ráðherrann úr ríkisstjórninni að lokum þannig að hún getur verið stolt af afrekum sínum þar. En eitthvað varð undan að láta.

Þegar málið kom til 1. umr. og menn lýstu stuðningi við það, t.d. þingflokkur Samfylkingarinnar í heild sinni, höfðu þingmenn Samfylkingarinnar ekki haft nein tök á því að kynna sér málið vegna þess að upplýsingarnar lágu ekki fyrir. Samt sem áður var þetta ákveðið. Síðan benti hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á það í sjónvarpsviðtali að megnið af ríkisstjórninni hefði ekki lesið frumvarpið áður en lýst var yfir stuðningi við það. Hvað segir þetta okkur, frú forseti, um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu, í þeirri gríðarlegu skuldbindingu sem ríkisstjórnin ætlast til að þjóðin taki á sig? Gefa hæstv. ráðherrar sér ekki einu sinni tíma til þess að lesa frumvarpið?

Ég rengi ekki orð hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur vegna þess að hún hefur mjög góðar upplýsingar úr Stjórnarráðinu, ég trúi þeim alveg fullkomlega. Það er algjörlega ábyrgðarlaust af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera þetta með þessum hætti.

Síðan langar mig að koma inn á hvað gerðist þegar niðurstaða var komin hér á Alþingi, það var nefnilega dálítið merkilegt. Það sem gerðist var að þá þusti fram á völlinn fjöldi stjórnarþingmanna og sagði: Við vildum alltaf setja fyrirvara við málin, það stóð aldrei annað til af okkar hálfu, það er nauðsynlegt að setja fyrirvara, þó svo þeir hefðu lýst því yfir í ræðustól að þeir hefðu viljað samþykkja samninginn strax. Þeir tóku meira að segja að skrifa lærðar greinar um að þetta væri bara hið besta mál og þetta hefði alla tíð verið ætlun þeirra.

Í framhaldi af þessu spurðu fréttamenn ríkisstjórnina, hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, hvort málið hefði nú ekki tekið miklum og góðum breytingum í meðförum fjárlaganefndar og Alþingis. Það varð nú fátt um svör. Jú, þetta hefði sennilega eitthvað skánað. En það sem upp úr stóð var að fyrirvararnir rúmuðust allir innan samningsins, það væri ekkert vandamál. Fyrirvararnir sem Alþingi setti við frumvarpið, sem skrifað var undir 5. júní, rúmuðust allir innan samningsins. Þetta væri allt klappað og klárt. Meira að segja hæstv. utanríkisráðherra taldi það líka. Það eina sem hann sagði var að menn þyrftu jú hugsanlega að beita skapandi hugsun til að kynna fyrirvarana fyrir Hollendingum og Bretum, það væri það eina. Þannig var nú málflutningurinn hjá hæstv. ríkisstjórn og forustumönnum hennar.

Þá velti ég því upp, frú forseti: Hvernig stendur þá á því að menn fóru ekki herferð til Breta og Hollendinga til að kynna þeim niðurstöðu Alþingis, lögin frá því í lok ágúst? Hvers vegna varð þessi skapandi hugsun til þess að Bretar og Hollendingar samþykktu ekki fyrirvarana, samþykktu ekki þau lög sem Alþingi hafði samþykkt? Það var engin skapandi hugsun vegna þess að ekki var staðið að því eins og átti að gera. Hæstv. forsætisráðherra skrifaði jú bréf og kynnti málið fyrir Bretum og Hollendingum sem höfðu reyndar fylgst mjög vel með málinu allan tímann, höfðu lesið öll álit, bæði minnihlutaálit og meirihlutaálit, öll gögn og allar ræður og hvert einasta orð sem sagt hafði verið í þingsal. Það kom berlega fram á fundum fjárlaganefndar að svo var. Þeir vissu nákvæmlega allt um ferli málsins. En hæstv. forsætisráðherra sá enga ástæðu til þess í þessari erfiðustu milliríkjadeilu sem við höfum átt í, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur oft sagt, að fara og ræða við forsætisráðherra Breta og Hollendinga og færa málið upp á það stig sem þurfti greinilega að gera í framhaldi af því sem búið var að gera. Hefði nú ekki verið eðlilegra fyrir hæstv. forsætisráðherra að gera sér ferð og fá fund með forsætisráðherrum Breta og Hollendinga til að fara yfir stöðu málsins og kynna þá meðferð sem það fékk á Alþingi og gera þeim grein fyrir því að þetta væri vilji Alþingis Íslendinga, þetta væru lög frá Alþingi Íslendinga sem verið væri að kynna hér? Nei, það var ekki þannig, frú forseti. Sent var bréf og eftir því sem ég best veit fékk hæstv. forsætisráðherra nýlega einhvern smásnepil til baka frá öðrum forsætisráðherranna en það hefur nú ekki verið í fréttum að hún hafi fengið bréf frá forsætisráðherra Bretlands.

Ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að hæstv. ríkisstjórn lærir ekki af eigin mistökum og reyndar mistökum fyrri ríkisstjórna. Það hefur verið tekið á þessu máli alveg frá upphafi eins og á ekki að gera það. En aldrei ætlar hæstv. ríkisstjórn að læra nokkurn skapaðan hlut, ekki neitt. Það fyrsta sem menn þurfa að gera ef þeir ætla að læra af mistökunum sínum er að viðurkenna þau. Það er hæstv. ríkisstjórn algjörlega fyrirmunað að gera, það er algjörlega útilokað að hún geti viðurkennt eigin mistök en hún réttlætir þau með einhverjum hætti og vísar oft og tíðum í eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það er nú það dapurlegasta í þessu máli, frú forseti.

Hefði nú ekki verið skynsamlegra, þegar hin breiða pólitíska samstaða á Alþingi Íslendinga náðist í lok ágústmánaðar, eftir vinnu alls sumarsins, að við tækjum öll höndum saman og að ríkisstjórnin hleypti stjórnarandstöðunni að borðinu þannig að við gætum unnið fyrirvörunum fylgi á erlendri grundu? Það hefði verið mun skynsamlegra vegna þess að í þessu máli erum við ekki óvinir. Við eigum ekki að koma fram eins og stjórn og stjórnarandstaða. Við eigum að koma fram saman. Íslenska þjóðin og Alþingi Íslendinga eiga að koma fram sem samherjar en ekki að berast á pólitískum banaspjótum. Það er engum til góðs, hvorki þjóð né þingi. Það er reyndar skylda okkar að verja íslenska þjóð.

Hvers vegna samdi Alþingi, og hv. fjárlaganefnd, þessa fyrirvara? Það var vegna þess að menn voru hræddir, það var ekkert annað sem lá þar að baki. Allir þeir hv. þingmenn sem fóru í þessa vinnu voru hræddir við afleiðingar samningsins. Menn voru hræddir um að þjóðin gæti lent í ógöngum þegar fram liðu stundir og kæmi að þessum miklu skuldadögum. (Gripið fram í: Og eru enn þá hræddir.) Já, þeir eru margir hverjir enn þá hræddir. Ég viðurkenni, frú forseti, að ég er skíthræddur við þetta mál. En ég vona svo sannarlega að þetta muni „reddast“, eins og sagt er. Það er hins vegar mjög óábyrgt að læra ekki af öllu því sem á undan er gengið, af því að við höfum fengið allt þetta í fangið á undanförnum mánuðum í kjölfar bankahrunsins. Mér finnst að við ættum að hafa lært af því.

Við fengum álit frá mörgum aðilum, frá fagmönnum, sérfræðingum á sínu sviði, almennum borgurum og þar fram eftir götunum, sem hafa mjög miklar efasemdir um þessa samninga og hafa bent á það sem fólk er hrætt við. Þess vegna eigum við, og það er skylda okkar hv. alþingismanna allra, að taka mark á þessu, vegna þess að fyrir hrunið voru margir búnir að benda á það sem gæti gerst. Það var hins vegar alltaf blásið á það og gert lítið úr því. Þess vegna eigum við að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið hér á undanförnum árum, bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni sat.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem mér finnst mjög óréttlátt í þessu máli. Það er að við Íslendingar skulum þurfa að borga vexti frá 1. janúar, vegna þess að það voru Bretar og Hollendingar sem tóku einhliða ákvörðun um að greiða út innstæðurnar síðasta haust til þess að verja bankakerfi sín. Menn voru hræddir um að það yrði áhlaup á bankana og þá mundu bankakerfin ekki halda trúverðugleika sínum. Það hefði getað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bankakerfið, bæði í Bretlandi og Hollandi.

Ég er mjög ósáttur við að þurfa að borga 30–40 milljarða umfram það sem við höfum þurft að gera. Það getur hins vegar verið, eins og stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta benti á, að þetta sé samningsatriði, en ég er mjög ósáttur við að við skulum þurfa að borga þetta. Ég er líka mjög ósáttur við að íslensk þjóð þurfi að greiða 3,5 milljarða í einhvers konar umsýslugjöld eða útgreiðslugjöld, eða hvað við eigum að kalla það, í þóknun til Breta og Hollendinga fyrir það eitt að hafa prentað út tilkynningarnar og greitt út innstæðurnar. Ég er mjög ósáttur við það og finnst það mjög hár taxti. Ég hef alla tíð sagt það í umræðum um þessi mál.

Síðan langar mig að koma að því að það stendur ekki á hæstv. ríkisstjórn að hækka skatta, það er ekkert vandamál að hækka álögur á fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu, það stendur ekki á því. Það er fljótsamþykkt að borga alla þessa okurvexti og umsýslugjöld upp á 35–40 milljarða og síðan er því bara hent út á þjóðina. Það er þjóðin sem greiðir að lokum. Það vita það allir að það muni ekki ganga öðruvísi fyrir sig. Það hefði kannski verið skynsamlegra fyrir hæstv. ríkisstjórn að vera aðeins liðlegri við að laga stöðu heimilanna með því að rétta af þennan stökkbreytta höfuðstól lána og þar fram eftir götunum. Þar stendur allt stíflað, hún fer ekki í þau verk. Og ekki bara það, í þessum samningum erum við líka búin að semja frá okkur allan rétt. Ef einhvern tímann verður viðurkennt að hryðjuverkalögin í Bretlandi gagnvart Íslendingum hafi verið ólögleg eða óréttlát erum við búin að semja frá okkur allar skaðabætur sem við gætum hugsanlega átt út af því. Það er skrifað inn í samningana að það skuli gert með þeim hætti og það er alveg með ólíkindum. Svo geta menn sagt: Það reynir aldrei á þetta vegna þess að auðvitað munu breskir dómstólar aldrei dæma þannig og lögin eru þannig að það er mjög ólíklegt að það fáist einhvern tíma einhverjar skaðabætur út af hryðjuverkalögunum. Hvers vegna er þetta þá skrifað inn í samningana af hálfu Breta og er krafa af hendi Breta og Hollendinga ef þetta er svo ólíklegt? Þeir eru nefnilega með allt sitt geirneglt.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á að meðferð fjárlaganefndar á þessu máli, í þessum breytingum á fyrirvörunum og hvernig þessi vinna fór fram í sumar. Ég gagnrýni harðlega þá meðferð sem frumvarpið fékk hjá meiri hlutanum í fjárlaganefnd. Sú málsmeðferð sem meiri hlutinn viðhafði endurspeglar engan veginn þá gríðarlegu þjóðarhagsmuni sem eru í húfi. Það er mikilvægast að fastanefndir Alþingis vandi vinnubrögð við yfirferð einstakra mála sem þær fá til meðferðar og fjalli um alla þætti þess. Slíkt verklag er ekki síst mikilvægt þegar til meðferðar eru frumvörp sem varða heildarhagsmuni þjóðarinnar. Því miður kastaði meiri hlutinn til höndunum við meðferð þessa frumvarps.

Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar var aldrei tekið til efnislegrar meðferðar í fjárlaganefnd áður en það var afgreitt frá nefndinni. Slík málsmeðferð hlýtur að teljast einsdæmi. Við meðferð málsins óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins góðfúslega eftir því að á fund nefndarinnar yrðu kallaðir fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem lagði fram og mælti fyrir þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 5. desember 2008. Þar var kveðið á um að samningur milli Íslands, Hollands og Bretlands skyldi byggjast á svokölluðum Brussel-viðmiðum. Ástæðan fyrir því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að fyrrverandi utanríkisráðherra yrði kallaður á fund nefndarinnar er sú að nýverið upplýsti fyrrverandi ráðherra að hún teldi að í þeim samningaviðræðum sem leitt hafa af sér það frumvarp sem hér er til meðferðar hafi íslensk stjórnvöld gengið til samninganna sem sakamenn vegna gallaðrar tilskipunar Evrópusambandsins. Hún segir jafnframt að vegna gallaðra tilskipana sé ófært að íslenska þjóðin verði ein látin bera þær fjárhagslegu byrðar sem af Icesave-reikningum Landsbanka Íslands hf. í Hollandi og Bretlandi leiða ef undan frumvarpi þessu verði komist. Af óútskýrðum ástæðum höfnuðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í fjárlaganefnd því að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrum utanríkisráðherra Íslands yrði kallaður á fund nefndarinnar.

Síðast en ekki síst er rétt að geta þess að með bréfi 4. nóvember sl. óskaði fjárlaganefnd eftir því við efnahags- og skattanefnd Alþingis að sú síðarnefnda tæki efnahagslega þætti samninganna við Bretland og Holland til umfjöllunar. Það gerði nefndin og skilaði fjárlaganefnd fjórum vönduðum og efnismiklum álitum. Meiri hluti fjárlaganefndar kaus hins vegar að gera ekkert með þessi álit og hafði þau að engu. Þau voru hvorki yfirfarin af nefndinni né heldur voru höfundar þeirra kallaðir á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir þeim eins og gjarnan er gert þegar frumvörp eru send til meðferðar milli fastanefnda. Ég tel það vera með ólíkindum að meiri hlutinn ljúki umfjöllun í einu afdrifaríkasta máli lýðveldistímans án þess að hafa rætt einstaka þætti þess í nefndinni eða ígrundað á fundum hennar þau gögn og upplýsingar sem fyrir nefndina hafa verið lagðar. Auk þess er nánast dónaskapur við þá gesti sem hafa óskað eftir því að koma fyrir nefndina að hafa gagnrýni og skoðanir þeirra að engu og hirða ekkert um að eyða svo mikið sem einum fundi nefndarinnar í að ræða gagnrýni þeirra og athugasemdir. Þau vinnubrögð sem hér er lýst eru með öllu óviðunandi, þau eru óskiljanleg, ekki síst í ljósi þess góða samstarfs sem tókst á Alþingi í sumar um það meginmarkmið að standa vörð um þjóðarhagsmuni í þessu máli. Því miður hafði meiri hlutinn við úrvinnslu þessa máls ekki gefið kost á sameiginlegri varðstöðu við vinnslu frumvarpsins. Ég vil benda á að tveimur eða þremur dögum áður en nefndin tók málið úr fjárlaganefnd í óþökk minni hlutans fengum við nýuppfært fundarplan hv. fjárlaganefndar og 24. nóvember átti að ræða Icesave-málið í fjárlaganefnd en það var ekki mikið að marka það.

Mér finnst þetta líka mjög dapurlegt í ljósi þess að í sumar var einstaklega gott samstarf í fjárlaganefnd og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem stýrði nefndinni, gerði það mjög vel og á miklar þakkir skildar fyrir það. Þegar við byrjuðum fyrst að ræða þessi mál var nærri útilokað fyrir okkur að ná einhverjum upplýsingum og einhverjum gögnum frá ríkisstjórninni. En það urðu mikil vatnaskil þegar það mál kom inn í fjárlaganefnd og reyndu hv. þm. Guðbjartur Hannesson og starfandi varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, að afla þeirra upplýsinga sem allir nefndarmenn báðu um. Þessi niðurstaða er því sérstaklega dapurleg í ljósi þess góða samstarfs sem tekist hafði í nefndinni.

Þá langar mig, frú forseti, að fara örlítið yfir gang málsins. Með þingsályktunartillögunni 5. desember 2008 samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að semja um lyktir Icesave-deilnanna við bresk og hollensk stjórnvöld. Alþingi fól ríkisstjórninni að ganga til samninga á grundvelli svokallaðra Brussel-viðmiða sem ríkisstjórnir hlutaðeigandi ríkja náðu samkomulagi um með aðkomu Evrópusambandsins. Inntakið í þessum viðmiðunum er að Íslendingar samþykktu að Evróputilskipunin um innstæðutryggingar gildi hér á landi á sama hátt og í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Bretar og Hollendingar lýstu því yfir að við samningaviðræður um fjárhagsaðstoð til landsins yrði fullt tillit tekið til fordæmalausrar stöðu Íslands í ljósi þess að fjármálakerfi landsins hrundi. Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar 5. desember sl. var skýrt tekið fram að viðunandi samningar á grundvelli Brussel-viðmiðanna væru forsenda fyrir því að ekki yrði látið reyna á lagalega stöðu landsins þegar á þeim tíma heldur yrði látið reyna til þrautar á samningaviðræður. Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli löggjafans ákvað ríkisstjórn Íslands að skrifa undir samninga við Bretland og Holland 5. júní 2009 sem gengu þvert á þau samningsmarkmið sem Alþingi hafði lagt til grundvallar í desember 2008.

Þeir samningar sem kynntir voru í byrjun júní sl. voru í engu samræmi við vilja Alþingis eins og hann birtist í lok árs 2008. Ríkisstjórnin hvorki upplýsti Alþingi um það sem væri í vændum né fór fram á að Alþingi tæki til skoðunar þau drög að samkomulagi sem voru í burðarliðnum snemmsumars heldur virti vilja þingsins að vettugi með því að skrifa undir samninga án þess að kynna Alþingi þá. Með þessu gekk framkvæmdarvaldið freklega fram hjá skýrum vilja Alþingis.

Ekki þarf að koma á óvart að slíkur málatilbúnaður olli því að mikil andstaða var við málið við meðferð þess á Alþingi. Var unnið að því að færa það nær upprunalegum viðmiðunum og var frumvarp ríkisstjórnarinnar loksins samþykkt mikið breytt með ákveðnum fyrirvörum á ríkisábyrgðinni sem voru lagalegir, efnahagslegir og pólitískir. Samkvæmt lögum skyldi ríkisstjórnin kynna viðsemjendum þá fyrirvara sem samþykktir voru með lögum frá Alþingi 2. september 2009.

Mig langar aðeins að koma inn á samskipti framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Ríkisstjórnin kynnti viðsemjendum fyrirvarana og gekk í kjölfarið til samningaviðræðna að nýju án þess að bresk og hollensk yfirvöld hefðu formlega lýst því yfir að þau hefðu ekki fallist á fyrirvara laga síðan í ágúst 2009. Er það ákvæði því enn í gildi. Skrifað var undir viðaukasamninga við Bretland og Holland sem var í grundvallarandstöðu við vilja Alþingis eins og hann birtist í lögunum í ágúst. Hið sama gerðist við undirritun Icesave-samninganna hinn 5. júní sl. þegar stjórnvöld fóru út fyrir samningsumboð það sem Alþingi veitti með svokölluðum Brussel-viðmiðum. Í þingsályktun hinn 5. desember 2008 virðist skoðun ríkisstjórnar Íslands vera sú að henni sé heimilt að virða ekki vilja löggjafans þrátt fyrir að Alþingi hafi í annað skipti gefið framkvæmdarvaldinu skýr fyrirmæli um vilja sinn í málinu og þrátt fyrir að löggjafinn hafi með þeirri lagasetningu reynt að verja hagsmuni íslenskra ríkisborgara eins og kostur var. Þessi afstaða og framganga ríkisstjórnarinnar er ámælisverð og vekur spurningar um hver afstaða framkvæmdarvaldsins er nú um stundir til Alþingis Íslendinga.

Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins á milli tiltekinna handhafa þess og þar segir í 2. gr.:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Almennt er talið í íslenskum stjórnskipunarrétti að löggjafinn þurfi ekki að sæta neinum takmörkunum af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þvert á móti er Alþingi talin æðsta stofnun þjóðfélagsins. Alþingismenn eru kjörnir beint af þjóðinni í kosningum og styrkir það stöðu þeirra verulega gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Í krafti lagasetningarvalds síns leggur þingið grunn að skipulegri stjórnsýslu og dómsvaldi og þar með undirstöðurnar fyrir aðra þætti ríkisvaldsins. Með öðrum orðum hefur Alþingi Íslendinga það hlutverk að ákvarða fyrir fram hvernig stjórnarframkvæmdinni skuli hagað. Stjórnskipan gerir ráð fyrir að Alþingi sé falið tiltekið stjórnunarhlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu og þinginu og er því ætlað að setja framkvæmdarvaldinu skorður með lagasetningum sem afmarkar valdsvið þess. Þótt Alþingi sé með þessum hætti falið mikið vald hefur því verið haldið fram að það sé ríkisstjórnin sem ráði ferðinni í samskiptum þessara tveggja valdhafa. Þessi staðreynd endurspeglast vel í því máli sem hér um ræðir, svokölluðum Icesave-samningum þar sem Alþingi hefur á öllum stigum málsins verið háð ríkisstjórninni um upplýsingar. Það er jafnframt verðugt umhugsunarefni hvernig Alþingi skuli bregðast við þegar framkvæmdarvaldið gengur á svig við vilja þess. Eitt er víst að þetta háttalag framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu verður að teljast algert undantekningartilvik og tryggja verður að það verði ekki meginregla í samskiptum þessara aðila.

Hér á eftir verður vikið að því hvernig framkvæmdarvaldinu hefur nú, til viðbótar við ámælisverð samskipti sín við löggjafarvaldið, ákveðið að setja dómstólavaldinu á Íslandi verulegar skorður á grundvelli samninga sem gerðir eru við erlend ríki til lúkningar umdeildrar kröfu í Icesave-málinu. Þetta gerir ríkisstjórn Íslands með því að gefa íslenskum dómstólum fyrirmæli um að leita til erlendra dómstóla og fara að ráðgefandi niðurstöðu þeirra í dómsniðurstöðum sínum. Slík framganga ríkisstjórnarinnar, sjálfstæðs ríkis, hlýtur að vera einsdæmi á byggðu bóli og er íslenskum stjórnvöldum til minnkunar. Ekki síst er þetta ámælisvert þegar komið hafa í ljós veigamiklar upplýsingar sem skipt geta sköpum varðandi mögulega greiðslubyrði þjóðarinnar af þeim skuldbindingum sem meiri hlutinn leggur til að Íslendingar undirgangist að tillögu ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á framsal dómsvaldsins. Eins og áður segir er kveðið á um í 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómendur fari með dómsvald hér á landi. Í 59. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að skipun dómsvalds verði eigi ákveðin nema með lögum. Eins og kunnugt er kveða íslensk lög á um að dómstig á Íslandi séu tvö, héraðsdómur og Hæstiréttur Íslands sem fer með æðsta dómsvald á Íslandi. Ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins felur það í sér að handhafar þess eru sjálfstæðir og óháðir hver öðrum. Um þetta er ekki deilt í íslenskum stjórnskipunarrétti. Í 1. mgr. 2. gr. þessa frumvarps sem hér er til meðferðar segir að ekkert í frumvarpinu feli í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.

Í 2. mgr. 2. gr. þessa frumvarps segir hins vegar:

„Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr. eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif slík úrlausn kunni að hafa á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim.“

Fram til þessa hafa þau álit sem íslenskir dómstólar hafa leitað eftir hjá EFTA-dómstólnum verið ráðgefandi en ekki bindandi. Með fyrrgreindu ákvæði frumvarpsins er í raun lagt til að Hæstarétti Íslands verði gert skylt að leita álits hjá EFTA-dómstólnum vegna lagalegs ágreinings sem kann að verða gerður um skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands og það álit verði bindandi. Með því er ljóst að frumvarpið gerir ráð fyrir að æðsta dómsvald á Íslandi verði framselt til yfirþjóðlegrar stofnunar EFTA-dómstólsins. Augljóst er að krafan um það framsal á dómsvaldi sem frumvarpið mælir fyrir um er frá viðsemjendum ríkisstjórnarinnar komið og staðfestir að hvorki bresk stjórnvöld né hollensk stjórnvöld treysta íslenskum dómstólum til að leiða til lykta á hlutlægan hátt ágreining sem upp kann að koma vegna Icesave-málsins. Því miður staðfestir þetta ákvæði frumvarpsins að ríkisstjórn Íslands hefur fallist á vantraust viðsemjenda sinna á íslenskum dómstólum.

Þá langar mig að ræða um fyrirvarana sem fjalla um úthlutun krafna á þrotabú Landsbankans sem er háð túlkun EFTA-dómstólsins, þ.e. það er búið að setja EFTA-krækju á úthlutunina, svo kallað Ragnars Halls-ákvæði. Það framsal dómsvalds sem vikið er að hér að framan og sú breyting sem lagt er til að gerð verði á ákvæðum laganna ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á samningum við Breta og Hollendinga leiðir til þess að torsóttara verður en ella fyrir Ísland að fá forgang í kröfu að Landsbanka Íslands hf. við gjaldþrotaskipti. Ekki verður betur séð en að samkvæmt frumvarpinu og hinum nýju samningum sé mælt fyrir um það og þó að reglur um úthlutun úr búi Landsbanka Íslands skuli standa óbreyttar sé það háð því fyrirkomulagi að það sé í samræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla og að niðurstaðan sé í samráði við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Af dómasafni Hæstaréttar Íslands má ráða að Hæstiréttur hefur túlkað ákvæði um ráðgefandi álit með mjög mismunandi hætti. Af þeim dómaraúrlausnum sem fyrir liggja er alls ekki víst að mati margra lögfræðinga að Hæstiréttur Íslands féllist á að réttinum bæri skylda til þess að leita eftir slíku áliti í því tilviki sem hér um ræðir. Að sama skapi telja lögfræðingar verulegar líkur á því að óski Hæstiréttur Íslands eftir slíku áliti frá EFTA-dómstólnum séu talsverðar líkur á því að dómstóllinn mundi ekki veita slíkt álit. Það mat byggist fyrst og fremst á því að meginhlutverk EFTA-dómstólsins er að meta hvort reglur landsréttar, í þessu tilfelli íslensks gjaldþrotaréttar, séu í samræmi við reglur EES-réttarins. Mér er ekki kunnugt um að það sé hlutverk EFTA-dómstólsins að úrskurða um með hvaða hætti eigi að úthluta fjármunum úr einstaka þrotabúum fyrirtækja til kröfuhafa. Lögsagan í slíkum málum fellur undir dómstóla einstakra ríkja. Ef Hæstiréttur Íslands telur sér ekki skylt að leita álits EFTA-dómstólsins eða ef EFTA-dómstóllinn telur sig ekki hafa lögsögu til að greiða úr ágreiningi um úthlutun krafnanna úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. verður niðurstaðan undir öllum kringumstæðum á kostnað Íslendinga en að sama skapi verður hún til hagsbóta fyrir Breta og Hollendinga.

Mig langar að fara aðeins yfir hið svokallaða Ragnars H. Halls-ákvæði. Það fjallar eingöngu um að farið sé eftir íslenskum lögum, þ.e. ef íslenskt fyrirtæki lendir í gjaldþroti fer málsmeðferðin eftir gjaldþrotalögum Íslands. Það er ekki flóknara en það. En síðan er gerður einhver samningur um að skipting á kröfunum eigi að fara í lagskiptar kröfur, þ.e. að þær eigi að ganga jafnt til Breta og Hollendinga, sem er alveg með ólíkindum að skuli hafa verið sett í samninginn. Bara þetta ákvæði er upp á tugi ef ekki hundruð milljarða kr. Síðan hefur einn lagaprófessor, Stefán Már Stefánsson, sem kom fyrir fund fjárlaganefndar, bent á að það gætu komið upp deilur um úrskurð EFTA-dómstólsins þannig að málið væri í raun og veru í strandi eftir allt saman. Þó að EFTA-dómstóllinn gæfi álit gætu líka orðið deilur milli ríkjanna um það.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á skuldabyrðina á þeim örfáu mínútum sem ég á eftir. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðins kemur fram að skuldabyrði íslenska þjóðarbúsins er mun meiri en áður var talið. Í skýrslunni er skuldabyrðin metin um 310% af vergri landsframleiðslu. Það er veruleg hækkun frá því sem áður var talið. Athyglisvert er að þessi hækkun verður þrátt fyrir að nú sé talið að meira innheimtist af eignum Landsbankans en talið var síðasta sumar. Þessar nýju upplýsingar benda til þess að áhætta hvað varðar greiðsluþol hafi aukist mjög frá því sem talið var síðasta sumar.

Lögum um fjármálafyrirtæki breytt með lögum nr. 44/2009. Breytingin gerði það að verkum að þrotabú Landsbankans þurfti að umreikna kröfuskrá sína miðað við gildistöku laganna. Kröfur í búið eru því í reynd frystar að krónutölu miðað við gengi krónunnar 22. apríl sl. Krafa Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er því fryst líkt og aðrar kröfur og nemur krafa sjóðsins í búið 670 milljörðum, sem er jafnvirði lána Breta og Hollendinga miðað við gengi krónunnar. Af þessu leiðir að fari svo að gengi krónunnar veikist frá því sem var í apríl fæst minna upp í kröfur vegna Icesave-samninganna. Þetta stafar af þeirri staðreynd að lánasamningarnir eru í erlendri mynt en kröfur innstæðutryggingarsjóðsins í krónum. Ef gengið veikist fæst minni gjaldeyrir fyrir útgreiddar kröfur. Búið er að setja lög sem frysta innstæðuna hjá tryggingarsjóðnum miðað gengið síðan 22. apríl. Það þýðir að nú í dag er kominn 80 milljarða halli á skuldbindinguna bara út af þessu atriði. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í allri meðferð málsins í sumar, sem stóð í margar vikur, var þessi þáttur málsins aldrei ræddur. Það hefur ekki nokkur einasti maður gert sér grein fyrir þessum áhættuþætti. Það var ekki fyrr en menn fóru að ræða breytingar á þeim fyrirvörum sem liggja fyrir Alþingi að þeir fóru að tala um þessa hluti. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn vandi sig í þeirri vinnu sem fram undan er.