Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 22:42:08 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hlý orð í minn garð. Hann spurði hvers vegna stjórnvöld vildu ekki læra. Ég hef verið rosalega hugsi yfir þessu máli alveg frá því að ég kom inn á þing í sumar. Það sem hefur valdið mér mestum vonbrigðum á þessari stuttu þingsetu minni er að við skulum ekki ræða þau verkefni sem eru brýnust. Ég hélt að við mundum ræða úrlausnir á vandamálum heimilanna, á vandamálum fyrirtækjanna, og snúa okkur að því sem við eigum að vera að ræða um en ekki að ræða eitthvert Evrópusambandsgutl, mál sem þarf ekki að vera á dagskrá. Það er búið að hrúga fullt af málum inn í þingið til að dreifa kröftum þingsins.

Ég fór yfir það í fyrri hluta ræðu minnar hvað gerðist þegar búið var að setja fyrirvarana. Þá sagði ríkisstjórnin: Þetta er frábær samningur, samþykkið hann eins og skot. Samfylkingin var klár, bara eitt stykki miði og allt var klárt. Síðan kom fram hjá hv. þm. Guðfríði Lilju að ráðherrarnir voru ekki einu sinni búnir að lesa samninginn en samt voru þeir tilbúnir að samþykkja hann. Þessi vinnubrögð eru alveg með ólíkindum þegar fleiri hundruð milljarðar eru í húfi og framtíð íslenskrar þjóðar. Það sem ég er mest svekktur yfir er allur þessi spunaskrípaleikur í kringum stjórnmálin. Við sjáum það t.d. að Einar Karl Haraldsson var aðstoðarmaður iðnaðarráðherra og átti að fara niður á Landspítala. Ríkisstjórnin var í eintómum vandræðum og þá var hann settur niður í forsætisráðuneyti og er þar með opinn spuna. Þetta gengur allt út á, hv. þingmaður, að menn eru alltaf í einhverjum spuna. Það sem er þó alvarlegast í þessu er að fjölmiðlarnir rukka ekki þessa stjórnmálamenn um það sem þeir hafa sagt daginn áður því að stjórnmálamennirnir snúa öllu á hvolf daginn eftir ef þeir hafa spunameistarana (Forseti hringir.) til að skrifa um nóttina.