Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 22:53:26 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðu hans og tek undir orð annarra þingmanna um það að hún var mjög góð og viðamikil. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég sakna þess svo sannarlega að í ræðu hans líkt og í meirihlutaálitinu frá fjárlaganefnd og raunar í hinum álitunum líka er ekkert fjallað um það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur vera stærsta áhættuþáttinn varðandi Icesave-málið og íslenskt efnahagslíf sem er hættan á því að neyðarlögin haldi ekki. Ragnar Aðalsteinsson talaði um það í viðtali í Morgunblaðinu að það væri mjög óskýrt í íslenskum lögum hvað stjórnskipulegur neyðarréttur væri og benti á að það hefði aldrei komið mál fyrir íslenska dómstóla sem varðaði þennan stjórnskipulega neyðarrétt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur hættu á því, ef neyðarlögin reynast ekki halda gagnvart íslenskum dómstólum, að hugsanlega falli 620 milljarðar í viðbót á íslenska ríkið, að maður tali ekki um allt það kaos sem yrði hér í fjármálakerfinu.

Þá erum við að tala um, eins og nýjustu útreikningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins benda til, að erlendar skuldir ríkisins séu núna um 125% af landsframleiðslu og ef neyðarlögin halda ekki fari þetta upp í 165%. Meira að segja AGS virðist ekki geta reiknað sig út í það að við gætum staðið undir því þó að þeir virðist hafa farið í ýmsar hundakúnstir varðandi útreikninga.

Ég mundi gjarnan vilja heyra frá þingmanninum þó að það komi ekki fram í nefndarálitinu og þó að það hafi ekki komið fram í ræðu hans og ræðum annarra, hvort það hafi eitthvað verið rætt um áhrifin af þessu á fundum fjárlaganefndar og hvernig menn sjái fyrir sér að bregðast við þessu. Ég mundi kannski koma inn á það í seinna andsvari mínu hvort þetta tengist vantrausti Breta og Hollendinga á (Forseti hringir.) á íslenskum dómstólum, að þeir hreinlega treysti því ekki að íslenskir dómstólar dæmi ekki eins og íslensk stjórnvöld vilja varðandi þetta mál.