Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 22:59:13 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þjóðin þess virði að við bíðum í einn mánuð, það gefur augaleið og ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni.

Mig langar líka aðeins að rifja það upp vegna þess að hún bendir á að það sé u.þ.b. mánuður þangað til þessi dómur fellur, að það kom fram á fundi fjárlaganefndar í sumar þegar við fengum Bandaríkjamanninn Lee Buchheit, sem er einn reyndasti samningamaður í veröldinni og hefur tekið mörg svona verkefni að sér, að semja fyrir þjóðir, hann sagði nákvæmlega þetta: Íslenska ríkið á að viðurkenna að það ætli að standa við skuldbindingar samkvæmt Evróputilskipuninni en íslenska ríkið getur ekki gengið frá samningunum fyrr en það veit hver upphæðin er, þ.e. annaðhvort var að setja þessa sterku efnahagslegu fyrirvara um að miða við vöxt landsframleiðslu eða hagvaxtar vegna þess að það veit enginn í dag, hvorki ég né neinn hér inn, hver endanlega upphæðin verður. Það er akkúrat eins og Sigurður Líndal bendir á að við erum að taka á okkur ríkisábyrgð sem við (Forseti hringir.) gerum okkur enga grein fyrir hve há er.