Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 23:08:29 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta mál snýst að stórum hluta um það hvernig hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa farið með vald sitt, hvernig þeir hafa í störfum sínum framfylgt eða ekki framfylgt því sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Það eru margar spurningar sem er ósvarað enn um embættisfærslu þeirra í þeim efnum og um sum atriði sem varða efnisatriðin í málinu verðum við að leita svara hjá þessum viðkomandi ráðherrum því að miðað við ræður þeirra hv. þingmanna stjórnarflokkanna sem talað hafa í dag — og hafa þeir ekki verið margir — er ekki mikilla að svara að vænta frá þeim. Ég er t.d. á mælendaskrá og hef í hyggju að spyrja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra ýmissa spurninga og það er alveg ljóst að ef þessir hæstv. ráðherrar koma ekki til þessa fundar í kvöld (Forseti hringir.) mun það kalla á frekari ræðuhöld og frekari spurningar (Forseti hringir.) á síðari stigum málsins. Það gæti hugsanlega sparað eitthvað (Forseti hringir.) í tíma og greitt fyrir (Forseti hringir.) vinnunni ef þessir hæstv. (Forseti hringir.) ráðherrar yrðu sóttir. (Forseti hringir.)

Ég bið afsökunar, herra forseti.