Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 23:11:05 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vek líka athygli á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson er ekki enn kominn á mælendaskrá. Hann ætlaði að vera viðstaddur umræðuna, móta sér afstöðu í samræmi við það hvernig þingið væri búið að vinna málið. Ég vek sérstaklega athygli á því.

Ég vek líka enn og aftur athygli á fjarveru ráðherra. Þessi fjarvera ráðherra, forsætisráðherra fyrst og fremst, er hrópandi og mér finnst hún styðja þær fullyrðingar okkar í stjórnarandstöðunni að það sé bara formsatriði hvernig málið er afgreitt, að við ættum bara að stikla þetta og síðan ætti að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Ég hvet forseta þingsins til að gera það sem ég bað hann um að gera áðan, senda forsætisráðherra bréf í tæka tíð þannig að hún geti skipulagt sig og mætt hingað á þingfund þegar við tölum næst um Icesave. Það er ekki líðandi að forsætisráðherra landsins tali ekki í Icesave, tjái sig ekki, og virði að auki þingið algerlega að vettugi.